21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

137. mál, fjáraukalög 1933

Thor Thors:

Það fór sem ég spáði, að sá asni, sem leiddur var í okkar herbúðir, sjálfstæðismanna, mundi verða þar lengi. Og ég veit, að við munum halda honum það lengi, að hann verði þaðan sóttur á afturfótunum af þeim, sem sendu hann þangað inn. Þessi hv. þm., 9. landsk., talaði í allt öðrum tón núna í svarræðu sinni heldur en áður. Hann reyndi að draga sjálfan sig inn í sína skel, en hann kemst ekki hjá því, að þau ummæli, sem hann viðhafði í sinni fyrstu ræðu, hafa gefið tilefni til þess, að þingið stendur nú nokkru lengur en til var ætlazt.

Hv. þm. svaraði mér nokkrum orðum. Hann vildi mótmæla því, sem ég hafði sagt, að hann hefði komizt inn á þing í óþökk síns flokks og óþökk þjóðarinnar. Það vita allir, að staðreyndirnar tala gegn þessum manni. Sá flokkur, sem hann nú er í. var að hugsa um að víkja honum frá sér, eftir að hann skrifaði þá grein, sem gaf honum viðurnefnið „mjólkurhetjan mikla“. Og ástæðan til þess, að þessi maður komst inn á þing, var sú, að einhver gáfaðasti maður Alþfl. afsalaði sér rétti til uppbótarþingsætis.

Þá þótti hv. þm. það ómaklega mælt hjá mér, að hann hefði komið í kjölfar kommúnista til þess að leita að blóðþef. Hv. 5. þm. Reykv. varð til þess að minnast þessa atburðar, og hann mun minnast þess vel, að það var ekki mjög fjarri þessum núv. hv. 9. landsk., að þau orð voru töluð, að rétt væri að drepa Pétur Halldórsson, núv. 5. þm. Reykv. Þetta er hægt að sanna hvenær sem er, enda mun enginn draga það í efa.

Þá vildi hv. 9. landsk. snúa sér alveg frá meginatriði þessu máls, um stofnun lögreglunnar, á þeim grundvelli, að ekkert atvik frá því lögreglan hefði verið stofnuð hefði réttlætt stofnun hennar. Nú veit þessi hv. þm. eins vel og aðrir, að ástæðan til þess, að þessi liðstyrkur lögreglunnar var kvaddur, var sú eina, að 9. nóv. 1932 voru flokkar í þjóðfélaginu þess albúnir að brjóta niður þjóðfélagsvaldið. Það, að þeir höfðu sig hæga á eftir, sannar ekkert um það, að lögreglan hafi ekki verið réttmætlega stofnuð.

Þá vildi hv. þm., eins og títt er um lýðskrumara, draga einhverja sameiginlega línu milli þeirra manna, sem fylgja nazistastefnunni, og okkar sjálfstæðismanna. Honum verður ekki kápan úr því klæðinu, því það er vitað, að þeir menn, sem þessari nazistastefnu halda uppi hér, ráðast á enga menn jafngrimmilega og einmitt sjálfstæðismenn, og þeir beinlínis ala allar sínar framtíðarvonir á því, að þeir geti vélað undan Sjálfstfl. nægilegt kjósendamagn til þess að fá einhver völd í landinu. Þeir byggja sína tilveru á því, að þeir geti rægt Sjálfstfl. nægilega mikið fyrir það, að hann er lýðræðisflokkur og beitir engu öðru valdi en lýðræðisvaldi til þess að mótmæla þeim aðgerðum, sem meiri hl. þingsins framkvæmir. En það mætti minna þennan hv. þm. á það, að hann, sem nú er í þeim flokki, sem þykist vera lýðræðisflokkur, er einmitt í félagsskap hér í Rvík, sem heitir Sovétvinafélag Íslands. Það er félagsskapur, sem dáir allt, sem fram hefir farið í Rússlandi síðasta áratug. Hvernig getur nokkur maður verið í þeim félagsskap, nema hann aðhyllist þær blóðsúthellingar, lýðræðisbrot og hermdarverk, sem þar hafa verið framin? Því verður vandsvarað. Og ég er sannfærður um það, að ef óhamingja þjóðarinnar yrði einhverntíma slík, að hv. 9. landsk. hefði einhver völd, þá mundi hann ekki víla fyrir sér að beita öllu því valdi, sem hans skaðlega ímyndunarafl gæti fundið upp á, til þess að knýja sinn vilja fram. Honum ferst því allra manna sízt að tala um það, að sjálfstæðismenn vilji ekki beygja sig undir rétt lýðræðisins í landinu.

Ég nenni ekki að taka þátt í þeim umr., sem hv. 9. landsk. boðaði til um háu launin í landinu og þau lágu. Hann vildi réttlæta allt ofbeldið 9. nóv. með því, að það hafi átt að klípa af launum þeirra lægst launuðu í landinu. En það hefir verið bent á í þessum umr., að þær aðgerðir, sem síðast hafa verið framkvæmdar af stjórnarliðinu — benzínskatturinn — geta auðveldlega orðið til þess, að klipið verði af launum bílstjóranna, sem vissulega eru ekki of há áður. Og ég vil spyrja hv. 9. landsk.: Hvað er 2 —25% hækkun á öllum tollum — sem hann hefir samþ. með sínu atkv. — annað en launalækkun í landinu? Ég óska þess, að hann svari því. Og ef það kæmi nú fyrir, að þeir menn, sem yrðu fyrir því „svívirðilega athæfi“ af hendi hv. 9. landsk., að þeirra laun lækkuðu um 2 —25%, heimsæktu hann og vildu berja hann eða jafnvel drepa, væri það þá fullkomlega lögmæt ráðstöfun?

Það þarf ekki lengi að ræða þetta. Öll fyrri rök sósíalista, þeirra manna, sem áður voru í stjórnarandstöðu og gátu sagt hvað sem þeir vildu án ábyrgðar, bitna nú á þeim sjálfum svo hart, að þeir tryllast og kunna sér ekkert hóf, þegar þeir eru minntir á það.

Hv. 9. landsk. sagði, að það væri einhver munur á aðgerðum Alþ. og bæjarstj., því bæjarstj. væri enginn löggjafi. En á þessu er enginn eðlismunur. Bæjarstj. er kosin á sama hátt og alþ., og hver sú ákvörðun, sem löglega kosinn meiri hl. bæjarstj. gerir, er jafnheilög í lýðræðislandi eins og sú ákvörðun, sem Alþ. gerir. Hver, sem reynir með valdi að hnekkja ákvörðun bæjarstj., er jafnsekur um uppreisn í þjóðfélaginu eins og sá, sem reynir að hnekkja ákvörðun Alþingis.

Ég skal ekki fara langt út í þær persónulegu svívirðingar, sem hv. 9. landsk. beindi til mín. Hann sagði það, að ég lifði á verkalýðnum. Ég skal vera fús til að viðurkenna það, að ég sem framkvstj. hjá stóru atvinnufyrirtæki lifi á verkalýðnum eins og verkalýðurinn lifir á mér, við vinnum þar sameiginlega í þágu atvinnulífsins og okkar aðstaða verður ekki aðskilin nema með lýðskrumi og lygum. En ég þekki menn, sem aldrei hafa gert neitt til þess að lyfta atvinnulífinu og á þann hált bæta kjör verkalýðsins í landinu, en samt sem áður lifa á verkalýðnum. Einn af þeim mönnum, sem það gerir og það einna greinilegast, er hv. 9. landsk. Hann hefir aldrei haft manndáð til þess að koma að neinu nýtu starfi, aldrei haft manndáð til þess að beita sér fyrir því, að neinum manni í þjóðfélaginu, öðrum en honum sjálfum, mætti líða vel. Ef til er greinilegt dæmi um mann, sem lifir á verkalýðnum og hefir fleytt sér áfram og brotizt til mannvirðinga á svita verkalýðsins, þá er það hv. 9. landsk.

Þessar umr., sem hér hafa farið fram, hafa að nokkru leyti skýrt þann mun, sem er á milli sjálfstæðismanna og andstæðinga þeirra í þessu máli. Deilan um lögregluna, um valdið, sem stendur á bak við ríkisvaldið, fær beztu sannanirnar á næstu tímum, á þann hátt, að þeir menn, sem nú ráða, munu fagna því, að þeir hafa eitthvert vald á bak við sig, og þeir munu verða fegnir að auka það eftir því, sem þeirra þörf krefur. Og allt hjal og allar blekkingar lýðskrumaranna á undanförnum árum munu falla eins og dögg fyrir sólu í ljósi þeirra staðreynda, sem á næstu tímum gerast í okkar þjóðfélagi.