21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

137. mál, fjáraukalög 1933

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja. Ég sagði mína meiningu um þetta mál, þegar það var hér fyrst á dagskrá, og hafði þá engu við að bæta. En það er sérstaklega eitt atriði, sem komið hefir fram í málinu síðan, sem ég tel rétt, að skýrt sé frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna. Það er sem sé það atriðið, sem mjög hefir verið haldið fast fram af þeim manni, sem hóf þetta mál, og að nokkru leyti líka af hæstv. dómsmrh., að reynslan hafi leitt það í ljós, að það hafi ekki þurft á þessari varalögreglu að halda, þar sem ekki hafi komið til neinna upphlaupa síðan 9. nóv. 1932. En það er hin herfilegasta hugsunarvilla að draga þá ályktun af þessu, að ekki hafi þurft neina varalögreglu, því það er einmitt þetta, að það var til öflug varalögregla, sem að öllum líkindum hefir valdið því, að ekki voru gerðar endurteknar tilraunir til upphlaupa og ofbeldisverka. Og ég geri ráð fyrir því, að ef þessi ályktun er rétt, — og það er meiri rökvísi að álykta svo heldur en eins og hv. sósíalistar hafa gert —, þá hafi á engri stjórnarráðstöfun græðzt meira heldur en einmitt á þessari.

Ég vil svo bæta við þessi orð, að það er ákaflega áberandi, hversu mikill fjandskapur alltaf logar upp hjá sósíalistum, sérstaklega þeim, sem hærra eru settir og komnir til vegs og valda, til varalögreglunnar. En veit nokkur til þess, að þessi varalögregla hafi nokkurntíma gert nokkuð af sér sem lögregla, sem verðskuldi óvild? Vilja menn þá skýra það, af hverju þessi fjandskapur stafar, og það löngu eftir að búið er að leysa varalögregluna upp? Það stafar ekki af neinu öðru heldur en því, að þessum sömu mönnum, og þar á meðal hv. 9. landsk., er það ljóst, að tilvera varalögreglunnar kom í veg fyrir, að þeir gætu haft framhald á atburðunum 9. nóv. Þeir hafa komið upp um sig með þennan ásetning sinn að taka hinn ímyndaða rétt sinn og stofna til ofbeldis- og hryðjuverka í landinu. Út frá þessu séð held ég, að ekki sé hægt að segja það, að varalögreglan hafi verið þessu landi of dýr. Það hefir líklega fátt borgað sig betur fyrir þjóðfélagið heldur en einmitt varalögreglan.