21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (4001)

96. mál, Líftryggingastofnun ríkisins

Thor Thors [óyfirl.]:

Þetta frv. er flutt af meiri hl. allshn. Það er komið frá skipulagsnefnd atvinnumála, og allt, sem frá þeirri n. kemur, virðist fá greiða leið gegnum allshn., enda lætur það að líkum, þar sem hv. 2. þm. Reykv. er formaður beggja nefndanna.

Ég skal að svo stöddu ekki fara rækilega út í þetta mál, enda gefst tækifæri til þess síðar. Aðalatriði þess er, að það á að stofna hér til nýrrar einkasölu - einkasölu á líftryggingum. Þegar fitjað hefir verið upp á nýjum einkasölum hér á þinginu, hafa þau rök einna tíðast komið fram, að það sé eðlilegt, að ríkið taki þessi mál í sínar hendur, vegna þess að það megi vænta mikilla tekna af þeim. Það er með öllu óvíst um, hvað mikil ágóðafyrirtæki þessar tryggingar eru hér á landi.

Þá hefir einnig sú röksemd komið fram, að það sé æskilegt, að ríkið hafi einkasölu á ýmsum vörum, til þess að draga úr framboði þeirra. Slíkar röksemdir eru mjög notaðar, einkum þegar um er að ræða einkasölu á áfengi eða tóbaki. Geta allir verið sammála um það, að verzlunin er hvergi betur komin en í höndum ríkisins út frá því sjónarmiði, að nauðsynlegt sé að draga úr framboði. En hér gegnir allt öðru máli. Hér er um að ræða fyrirbrigði, sem full þörf er á, að breiðist út. Það eru allir sammála um, að líftryggingarnar séu mjög þarfar, og það er beinlínis ástæða fyrir ríkisvaldið að óska, að sem flestir einstaklingar leggi í þann kostnað, sem af líftryggingum leiðir, því að líftryggingar eru í raun og veru ekki annað en nokkurskonar sparifjárinnlegg þeirra tryggðu. Enda er það jafnvel ljóst hér á landi, því að núv. ríkisstj. leggur hina mestu áherzlu á líftryggingar, sbr. loforð, sem gefin hafa verið um að lögfesta almennar tryggingar. En ég hygg, að öllum megi vera það ljóst, að einkasala á líftryggingum muni miða mjög að því að draga úr þeim. Það er einmitt hin harða samkeppni á sviði líftrygginganna, sem hefir orðið til þess, að jafnmargir einstaklingar með þjóðinni hafa látið tryggja sig eins og hingað til hefir átt sér stað. Það er þessi harða samkeppni, sem hefir leitt til þess, að fleiri og fleiri einstaklingar hafa látið til leiðast að tryggja líf sitt. Einmitt af þessari ástæðu tel ég, að þetta frv. stefni í ranga átt.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi einnig telja það sem röksemd fyrir framgangi þessa frv., að það væri nauðsynlegt, að það fé, sem menn greiddu í iðgjöld af líftryggingum, héldist kyrrt í landinu. Ég vil benda hv. þm. á, ef hann ekki veit það, að allflest þau erlendu líftryggingarfélög, sem hér starfa, láta verulegan hluta af iðgjöldunum í fyrirtæki hér innanlands. Þannig veit ég til þess, að líftryggingarfélagið „Thule“, sem mun hafa hlotið í iðgjöld um 2 millj. kr. frá því að það hóf starf sitt, hefir aðeins flutt út úr landinu um 200 þús. kr. Þessum hv. þm. ætti að vera kunnug starfsemi þessa félags, þar sem það fyrirtæki, sem hann hefir borið mjög fyrir brjósti, þ. e. a. s. verkamannabústaðirnir, hefir fengið mjög ríflegt lán hjá þessu félagi. - Það sama má segja um hin önnur líftryggingarfélög hér á landi, að þau ávaxta fé sitt innanlands. En hafi orðið misbrestur á þessu, er hægðarleikur fyrir löggjafarvaldið - og ég vil telja það réttlátt - að kveða ríkara á um þetta og setja sérstaka löggjöf, sem skyldar þau tryggingarfélög, sem hér starfa, til þess að ávaxta mestan hluta iðgjaldanna hér innanlands. Það má einnig segja, að þetta frv. sé ótímabært, ef það er sérstaklega stílað gegn erlendum vátryggingarfélögum, að því leyti, að það er fram borið á þeirri stundu, sem íslenzkt félag, Sjóvátryggingarfélag Íslands, er mjög að hafa sig í frammi með að taka líftryggingarnar í sínar hendur.

Það er gert ráð fyrir, að ríkið eigi að standa í ábyrgð fyrir öllum þessum líftryggingum. Þegar það er athugað, hversu miklar ábyrgðir hvíla nú á ríkinu, verður það að teljast varhugavert að leggja svo víðtæka ábyrgð, sem kynni að leiða af þessu máli, ofan á allar þær ábyrgðir, sem nú hvíla á ríkinu.

Það er stefna í tryggingarmálum alstaðar í heiminum að dreifa tryggingunum sem mest, til ábyrgðar á sem flesta aðila. Það miðar að því að tryggja hina tryggðu. Það miðar að því að tryggja það, að þeir fái vátryggingu sína goldna, ef illa fer.

Þessi stefna, að dreifa tryggingunum, hefir alstaðar rutt sér til rúms, en þetta frv. miðar í gagnstæða átt, þar sem taka á upp ríkisrekstur á tryggingum, sem hvergi mun tíðkast nema í Sovét-Rússlandi og Uruguay. Getur verið, að hv. þm. þyki þessi ríki til fyrirmyndar, en við ættum a. m. k. að líta okkur nær og fara heldur eftir þeim ríkjum, er í kringum okkur eru.