26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (4013)

97. mál, opinber ákærandi

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 11. landsk. heldur því fram, að hæstv. dómsmrh. og hv. 1. landsk. hafi haldið fram í vetur, að ekki mætti taka einstök atriði út úr réttarfarslöggjöfinni og gera breyt. á þeim. Ég tók nú ekki þátt í umr. þá og man því ekki nákvæmlega, hvað sagt var. En ég efast stórlega um, að hægt hafi verið að skilja orð þeirra á þennan veg. A. m. k. hefði ég ekki talað þannig, þó ég hefði tekið þátt í umr. Mín skoðun er, að þetta mál heyri eingöngu til hinu opinbera réttarfari, og það veit hv. þm. sjálfur, að er aðalatriði. Ég tel ekki rétt að káka neitt í hinu opinbera réttarfari, fyrr en það hefir verið tekið til ýtarlegrar athugunar í heild, þar sem sú athugun stendur nú einmitt fyrir dyrum.

Það er að nokkru leyti rétt hjá hv. 11. landsk. að meiri þörf ræki til að rannsaka og undirbúa meðferð opinberra mála heldur en einkamála. Hinsvegar álít ég ekki, að fyrr en nægileg trygging sé fengin fyrir grundvellinum sé hægt að ganga frá einstökum atriðum eða leggja í kostnað við þau. Ég legg svo mikið upp úr frv. um hæstarétt vegna þess, að brýnasta nauðsyn rak til að bæta þann rétt. Og þó ekki væri hægt að breyta réttarfarinu til fulls, þá var sjálfsagt að hjálpa þessari þrautalendingu, og að svo stöddu var það meira virði að breyta hæstarétti heldur en að undirbúa og rannsaka undirréttarfarslöggjöfina, þó á sínum tíma verði auðvitað að gera henni góð skil. Ég skal líka taka það fram, að sá hluti réttarfarslöggjafarinnar, sem að mínu áliti þarf langmestrar rannsóknar og breyt., er meðferð opinberra mála. Og þess vegna er alveg sérstök ástæða til að láta það bíða sem lengst, svo sá undirbúningur geti orðið sem fullkomnastur, en vera ekki að koma með einstakar kákbreyt. Ég skal taka það fram, að ég er í sjálfu sér ekkert á móti því að hafa opinberan ákæranda. Það gæti vel komið til mála og yrði þá að gerast í samræmi við aðrar breyt. á réttarfarslöggjöfinni. En ég held, að nú, þegar von er á róttækri endurskoðun á meðferð opinberra mála, þá sé full ástæða til að láta þetta bíða þangað til komnar eru fullkomnar rannsóknir um þessi efni.

Það er ekki af neinni vanþekkingu hjá hv. 11. landsk., þó hann komi með þetta inn í þingið, en ég álít það óheppilegt og alveg órétta leið að taka eitt atriði út úr áður en búið er að ganga frá öllum undirstöðuatriðum.

Hv. 11. landsk. bjóst ekki við, að við í lögfræðinganefndinni mundum verða búnir að skila áliti fyrir næsta þing. Auðvitað hefir það ekki verið rétt orðað. Hann hefir átt við næsta þinghluta. - þegar þing kemur aftur saman eftir frestun. Það getur verið, að þetta reynist svo, og ég ætla ekki að gefa neinar tyllivonir um, að við getum þá verið búnir að ganga frá öllu því, sem okkur langar til að koma frá til fulls. Hann talaði um siglingu í sambandi við þetta. Ég álít, að ef hægt væri að koma því við, þá gæti það verið mjög heppilegt, að þeir menn, sem eiga að gera till. um þessi mál, fengju að kynnast því og sjá það með eigin augum, hvernig með þau er farið annarsstaðar. Annars er mjög lausleg öll áætlun í sambandi við það, hvernig þessum störfum verði hagað. Það verður farið að eftir því, sem heppilegast þykir.

Ég held það hafi svo ekki verið fleira, sem ég þurfti að svara hv. 11. landsk. Það, sem skilur á milli mín og hans, er í raun og veru það, að hann vill gera sérstakar breyt. á opinberri réttarfarslöggjöf. En eins og á síðasta þingi álít ég rétt að bíða, samkv. yfirlýstum þingvilja, sem kom fram á síðasta vetri, þegar samþ. var að skipa nefnd til að athuga alla réttarfarslöggjöfina.