26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (4014)

97. mál, opinber ákærandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen) [óyfirl.]:

Ég hefi nú engu nýju að svara. Hv. þm. Barð. sagði ekkert nýtt. Hann sagði, að breyt. um opinberan ákæranda væri kákbreyt. Þessu vil ég mótmæla. Ég álít, að hún sé mjög þýðingarmikið spor í meðferð opinberra mála. Ég býst við, að hv. þm. viðurkenni, að ákæruvaldinu hafi verið beitt þannig á undanförnum árum, að það sé fullkomið hneyksli. A. m. k. hafa frá hans flokki komið fram ásakanir um misbeitingu á ákæruvaldinu, og frá mínum flokki hafa komið fram ásakanir um, að ákæruvaldið væri notað til pólitískra ofsókna. Þetta mun hv. þm. viðurkenna, þó að hann vilji halda því fram, að þessi skipun opinbers ákæranda sé kákbreyt. Hann talaði um, að ekki ætti að taka einstök atriði út úr réttarfarslöggjöfinni. Ég benti á það í fyrri ræðu minni, að fyrirkomulagið á þessari stofnun gæti vel fallið inn í þá réttarfarslöggjöf, sem nú er og hlýtur að verða með svipuðum hætti, þó róttæk breyt. verði á réttarfarslöggjöfinni. Það er því ekki hægt að segja, að það sé að taka út úr. Þetta atriði er svo samstæð heild, að það mun standa óhaggað, þótt aðrar breyt. verði gerðar síðar. - Ég hefi svo ekki fleiru að svara, en endurtek þá ósk mína, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.