26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (4015)

97. mál, opinber ákærandi

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Það er engin ástæða til að fara að rifja það upp nú á þessari stundu, hvernig farið hefir verið með ákæruvaldið. Í því sambandi gæti ég vitanlega bent á mál eins og „kollumálið“ fræga. En ég sé enga tryggingu fyrir því, að opinber ákærandi hljóti að verða ópólitískur. Það er engin trygging, þó að hann uppfylli þau skilyrði, sem þarf til þess að geta verið hæstaréttarmálaflutningsmaður. Við flutning mála í hæstarétti eru sérstaklega pólitískir menn. Veit ég, að hv. þm. mun ekki neita því, að það er langt frá, að þessir menn séu ópólitískir. Líka er það alkunna, að til eru menn í þúsundatali, sem eru miklu pólitískari heldur en við, sem erum hér inni í þessum sal, - menn, sem eru miklu æstari og hatursfyllri, þótt þeir aldrei komi fram á pólitískan vígvöll. Sumir þessara manna hafa átt sæti hér við hæstarétt, og sé ég þess vegna enga sönnun þess, að þessi ákvæði verði til þess að bjarga ákæruvaldinu úr pólitískum vargaklóm.