23.12.1935
Sameinað þing: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

137. mál, fjáraukalög 1933

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hreyfði því hér við 1. umr., að nokkrir liðir í frv. þessu væru þess eðlis, að þeir hefðu að ástæðulausu verið teknir upp í frv. Ég benti á, að um suma þessara liða væri þannig háttað, að þeir hefðu tvisvar áður verið teknir upp í fjáraukalög, en í bæði skiptin verið felldir niður aftur. Það var því bein afleiðing þess, sem áður hafði verið gert, að taka þessa liði nú út af frv., því það er sjálfsagt að hafa samræmi í afgreiðslu fjáraukalaga og fylgja settri reglu; og reglan var mörkuð með afgreiðslu fjáraukalaga árið 1921 eða 1922 — ég mun ekki með vissu, hvort árið. Sú sama regla var svo endurtekin nokkru seinna, mig minnir árið 1929, og síðan hefir verið fylgt nokkuð fastri reglu um þessi efni, og þeirri reglu ætti að fylgja áfram, meðan engin ný regla er tekin upp, og ef tekin væri upp ný regla, ætti það helzt að vera sú, sem Danir hafa, að taka upp í fjáraukalög allt það, sem í landsreikningum vikur frá því, sem er í fjárlögum.

Ég vil nú benda á þessa liði, sem hér eru teknir upp, en eiga samkv. eðli sinn og áður viðtekinni reglu að fara út aftur. Ég ætlast þó ekki til, að þessu verði breytt nú, heldur að það verði til athugunar framvegis fyrir ríkisstj. og endurskoðendur.

Í 5. gr. eru tveir liðir, sem alltaf hafa verið teknir út af fjáraukalögum aftur, ef þeir hafa slæðzt þangað inn. Þessir liðir eru 18. d. (bólusetningarkostnaður) 450 kr., og 18. g. (varnir gegn kynsjúkdómum). Báðir þessir liðir eru greiddir samkv. ákvörðun laga, og eiga þeir ekki að takast inn í fjáraukalög. Í 7. gr. eru líka tveir liðir, sem eiga að fara út. Eru það töluliðirnir 6 og 7 undir staflið b. Embættiskostnaður presta (tölul. 6) er greiddur samkv. lögum nr. 36 1931 og á samkv. gildandi reglu ekki heima í fjáraukalögum. Sama er að segja um tölulið 7, til húsabóta á prestssetrum 24 þús. kr. Það er greitt samkv. lögum nr. 63 1931, og er greitt á þessu ári, þótt það heyri til árinu á undan, en var þá ekki hægt að inna greiðsluna af hendi. En þetta er greitt samkv. því, sem lög segja fyrir, og á því ekki að koma í fjáraukalög. — Þá er í sömu gr. XIV. stafl. 2., til héraðsskóla 4430 kr. Þetta er greitt samkv. lögum nr. 37 1929 og stj. hafði enga aðstöðu til að takmarka þessu greiðslu, sem er ákveðin með lögum. — Þá er einnig í sömu gr. XVI., til kennslu heyrnar- og málleysingja 9051.44 kr. Þetta er greitt samkv. lögum nr. 24 1922 og á ekki að koma í fjáraukalög.

Þá er einnig í 9. gr., vegna ráðstafana um tilbúinn áburð 13018 kr. og 50 au. Þetta er greitt samkv. lögum nr. 12 1922 og á samkv. eðli sínu ekki að koma í fjáraukalög, og hefir ekki heldur verið tekið þar upp fyrr. Þá er loks í 10. gr. tillag til ellistyrktarsjóðs, 3771 kr. Þessi greiðsla er einnig bundin með lögum og ekki hægt hjá henni að komast.

Ég hefi viljað benda á þetta, ef það gæti orðið til athugunar framvegis, þegar fjáraukalagafrv. eru samin, og ég vil endurtaka það, sem ég hefi áður sagt, að ég tel það ekki rétt, að stj. taki við tillögum endurskoðenda án þess að athuga þær á nokkurn hátt. Það er oft breytt um endurskoðendur, og hætt við, að þeir, sem koma nýir, fylgi ekki alltaf sömu reglum, sem áður hafa gilt. Stj. ætti því að hafa þá reglu að láta fara yfir till. endurskoðenda og taka út úr fjáraukalagafrv. alla þá liði, sem eru þess eðlis, að þeir eiga þar ekki heima samkv. þeirri reglu, sem fylgt hefir verið. Það kann nú einhver að segja, að ekki sé þægilegt að fylgja þessari reglu, því takmörkin séu óljós, en ég hygg samt, að það sé fremur vandalítið að fara svo að, að nokkurnveginn föst regla haldist.

Ef ég hefði haft tíma til þess, þá mundi ég hafa komið með brtt. við þetta frv. Ekki af því, að ég hafi nokkra tilhneigingu til að breyta þeirri upphæð, sem frv. sýnir, heldur vegna hins, að ég tel nauðsynlegt að halda þeirri föstu reglu, sem verið hefir um samningu fjáraukalagafrv., á meðan ekki er tekin upp sú rétta regla, að taka upp allar frávikningar frá fjárlögum, eins og gert er hjá Dönum, en þeir taka upp allar frávikningar, hvort heldur sem greiðslan er meiri eða minni en hún er sett í fjárl., og það er sú eina regla, sem ekki er hægt að gagnrýna. En þessi regla, sem hér hefir gilt, er búin að vinna sér hefð með því, að eftir henni hefir verið farið í 12 —14 ár, og ástæðulaust að breyta frá henni á meðan ekki er horfið að öðru, sem betur fer.

Ég gat ekki látið þessa umr. líða svo, að ég vekti ekki athygli á þessum liðum, sem ég tel, að ekki eigi heima í fjáraukalögum.