23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (4055)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég heyri það á svörum 1. flm., að honum er ekki ljóst, hvort hér er um nýmæli í íslenzkri löggjöf að ræða, með því að „exploitera“ eignir einstakra manna með valdi til hagsbóta fyrir aðra einstaklinga í þjóðfélaginu. Ég veit, að eignir hafa verið teknar eignarnámi fyrir hið opinbera, ríkið, bæjarfélög og hreppsfélög. Hitt hefi ég ekki heyrt talað um, að eignir einstaklinga hafi verið teknar eftir mati, móti vilja eigenda, til þess að afhenda þær öðrum einstaklingum í þjóðfélaginu. Ég held, að þetta sé nýjung, og mér þykir hún ákaflega merkileg, þessi nýjung, því að það getur ekki með nokkru móti átt einungis við um land, ef - eins og hér er farið fram á - hægt er að taka land af eiganda þess með löggjöf, eftir mati, og selja það öðrum einstaklingi í þjóðfélaginu gegn vilja hans, því að ef þetta er ekki í ósamræmi við ákvæði stjskr., þá hlýtur þetta líka að gilda um allar eignir aðrar. Ég vildi benda á þetta þegar við 1. umr. Mér þótti mjög merkilegt að heyra 1. flm. lýsa því yfir, að sér væri það ekki ljóst, hvort hér væri um að ræða sérstakt princip í íslenzkri löggjöf, áður óþekkt þar, eða ekki. Ég álít fyllstu ástæðu til að gera sér slíkt ljóst, áður en flutt er frv. eins og þetta. Því að sú ástæða, sem hv. flm. færði fram fyrir því, að þetta frv. væri flutt hér, að hér væri um að ræða hagsmuni manna úr mörgum hreppum, sem liðu við það, ef ekki næðust samningar við landeigendur um þetta land þarna austurfrá, hún fær ekki staðizt sem rök fyrir því, að það sé réttmætt, að ríkisvaldið komi til og taki landið eftir mati og afhendi það nýjum eiganda.

Við skulum segja, að kaupfélagið þarna við Rauðalæk vanti land til hrossabeitar. Ég get vel trúað, að svo sé, en ég get bara ekki fallizt á, að þrátt fyrir það sé ástæða til þess fyrir löggjafarvaldið að koma þar til og taka tillit til nokkurra hreppsbúa í öðrum hreppum en landeigendur eru í og sjá þeim fyrir hrossabeit í kaupstaðarferðum sínum. Ég álít það ákaflega hlægilegt að fara með slíkt mál inn á þing í þeim tilgangi að fá því framgengt, að land sé tekið af nokkrum þegnum þjóðfélagsins og afhent fáeinum öðrum til eignar, vegna hrossabeitar.

Hv. flm. sagði, að hér væri um almenningsheill að ræða, vegna þess að menn úr mörgum hreppum ættu hér mál að, og þessi almenningsheill krefðist þess, að þetta land væri tekið eignarnámi. Ég sé ekki, að það geri neinn mun frá sjónarmiði laga, í hvaða hreppum eða hvar svo sem vera skal annarsstaðar menn eiga heima, sem vilja fá hrossabeit í landi einhvers jarðeiganda. Þetta, að mennirnir, sem vantar þessa hrossabeit, eigi heima í mörgum hreppum, eru því harla fánýt rök, sem ég vænti, að hv. d. virði að verðleikum. Ég get ekki hugsað mér, að slík rök vegi mikið hér í þessari hv. d.

Mér þykir fyrst og fremst slæmt að fá ekki upplýsingar um það hjá hv. flm. frv., hvort hér sé ekki um algert nýmæli að ræða í íslenzkri löggjöf, og ef svo er ekki, þá hvaða fordæmi er hægt að benda á fyrir slíkri lagasetningu sem þessari. Ég get skilið, að farið sé af stað með svona frv. af þeim mönnum, sem álíta - ef einhverjir álita það -, að kaupfélög séu orðin opinberar stofnanir, eins og ríkið sjálft, bæjarfélög eða hreppsfélög, og þess vegna beri kaupfélögum sami réttur í þessu tilliti. En fyrr en þetta liggur ljóst fyrir, sé ég ekki, að það komi til nokkurra mála að afgr. frv. eins og þetta einu sinni til 2. umr.