04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (4066)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það var aðallega út af því, sem tveir hv. þdm., sem báðir eru lögfræðingar, en það eru þeir hv. 1. landsk. og hv. 2. landsk., höfðu út á það að setja, sem ég hafði haldið fram um, að þetta væri nýmæli í íslenzkri löggjöf, að gera eignarnám á þennan hátt til hagsmuna fyrir einstaklinga eða félög. Þeir vildu mótmæla því og vísuðu til l. frá 1917, um eignarnám, en til þeirra er vísað í 2. gr. þessa frv. Ég get nú ekki betur séð en að þau l. eigi eingöngu við, að tekið sé eignarnám fyrir ríki, sveitarfélög eða bæi. Ef þau l. heimila þetta, þá get ég ekki betur séð en að l. um þetta einstaka tilfelli séu óþörf, því þá er hægt að framkvæma þetta án sérstakrar lagasetningar, þar sem þau l., sem hér um ræðir, eru almenns eðlis. Ef þetta fellur undir þau l., þá er hægt að framkvæma eignarnámið samkv. þeim.

Ég óska eftir því, að fá upplýsingar um þetta atriði hjá lögfræðingum d., og finnst mér, að það væri fróðlegt fyrir okkur leikmennina að heyra eitthvað meira um þetta atriði frá lögfræðilegri hlið.

Ég hafði spurzt fyrir um, hvort þetta væri ekki einsdæmi, sem hér er farið fram á, en 1. flm., sem leitaðist við að svara fyrirspurninni, og nokkrir fleiri, sem talað hafa um málið, hafa lýst því yfir, að þeim væri ekki kunnugt um það, hvort þetta væri nýmæli í íslenzkri löggjöf eða ekki. Mér þótti þetta furðulegt, ef svo er sem ég álít, að hér sé verið að brjóta friðhelgi eignarréttarins, sem verndaður er með stjórnarskránni, og það mjög háskalega, ef frv. nær fram að ganga. En ef hægt er að sýna fram á það með rökum, að þetta sé ekki nýmæli og að fordæmi sé til fyrir því, þá fellur niður sú ástæða, sem ég hélt fram áðan, að þetta myndi vera einsdæmi.

Það væri fróðlegt fyrir þessa hv. d. að fá frekari frásagnir um þetta hjá lögfræðingum þeim, sem talað hafa í þessu máli, og fá skýringu á því, hvort hér sé um mál að ræða, sem ekki er varhugavert fyrir Alþingi að láta ganga fram.