04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (4069)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég tel að síðasta ræða kollega míns, hv. 2. landsk., hefði átt að byrja á því, sem hún endaði á. En betra er seint en aldrei. því að ef málið frá upphafi er á rökum byggt, þá hefði hann átt að tala um það, að það vantaði úti um land allt samskonar ákvæði og gilda um löggildingu kauptúna samkv. l. nr. 25 frá 1917. Það er atriði, sem má tala um. Því að þótt það almenna atriði virðist ekki koma því máli svo mjög við, sem hér er um að ræða, þá má alltaf tala um, að sviðið sé þröngt og nauður reki til að gera samskonar ákvæði víðar en gilda nú.

Nú er það kunnugt, að það er hvergi hægt að taka eignarnámi lóðir handa verzlunum og einstökum mönnum, nema þar, sem l. leyfa, og það er aðeins í kaupstöðum og löggiltum kauptúnum. Það hefir verið litið svo á í löggjöfinni frá upphafi, að með löggildingu verzlunarstaða og kauptúna ætti að skapa í framtíðinni meiri rétt á því svæði, vegna aðkallandi þarfa viðskipta- og verzlunarstofnana, meiri rétt en á svæðum landsins úti um jarðir héraðanna. Þetta er óskaplega eðlilegt. Í fyrsta lagi af því, að þegar komið er upp kauptún og það löggilt, þá er ekki að tala um sérstaka hagsmuni eins jarðarábúanda, eins og ávallt verður að vera - og ég fullyrði að eigi að vera ennþá og áfram - uppi í sveit, þar sem tilveran byggist á því, að menn búi á sínum jörðum og yfirleitt láti þær haldast. Þar er því allt öðru máli að gegna. Þar eru hagsmunir hinna einstöku búenda aðalhagsmunirnir. En í kaupstöðum og hinum löggiltu verzlunarstöðum eru það hagsmunir hins verðandi fjölda og viðskiptastofnana, sem löggjöfin hefir litið á og dæmt meira virði, og þess vegna yrði að gera eitthvað fyrir þá á kostnað eins manns, sem kannske ætti jörð að kauptúninu. Það hefði þess vegna fremur mátt búast við, að hv. 2. landsk., gamall og reyndur lögfræðingur, kæmi með breyt., sem mætti vera á l. frá 1917, um að þessi almenna heimild gildi lengra og víðar en fyrir almenna verzlunarstaði. Vitanlega hefði sú till. mætt mótspyrnu vegna þess, sem ég hefi tekið fram, og sérstaklega vegna þess, að enginn hefir sýnt fram á - né heldur getað það, og sízt með þessu eina tilfelli -, að almenningsþörfin sé svo rík á ýmsum stöðum úti um héruðin fyrir því, að eignir manna séu teknar og afhentar öðrum. Þetta liggur nú ekki fyrir, og það veit hv. þm. ofurvel. Og síðasta tal hans var sprottið af því, að hann var kominn í öngþveiti með þetta eina atriði. En það er ekki heldur hægt að færa rök að þessu almennt að svo vöxnu máli.

Ég vil minna á ákvæði stjskr. um eignarréttinn. Þau eru, sem kunnugt er, í 62. gr. og hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

En af því að sérstaklega hefir staðið á í vissum kringumstæðum, hafa l. verið sett, sem áhræra þetta atriði nokkuð. Það má segja í rauninni, að aðalatriði þeirra sé ekki vegna annars en þessarar lóðatöku í löggiltum kauptúnum og kaupstöðum. En ef ætti að setja slík l. sem þetta frv., eða jafnvel l. um útvíkkun l. um verzlunarstaði, þá er allt öðru máli að gegna. Og það er engum efa undirorpið, að ef ekki er hægt að sýna fram á um þetta eina atriði, að almenningsheill krefji - en það er ómögulegt og verði frv. samþ. og reki sig á stjskr., þá getur hlutaðeigandi skotið sér undir vernd stjskr. með því að láta dómstóla skera úr. Hinsvegar er rangt hjá hv. 2. landsk., að þeir, sem eiga að mæla út landið, meti almenningsþörfina. Engan veginn. Þeir meta landið og hvað mikið land þarf að taka.

Nú hefir verið sýnt fram á það af hv. 1. þm. Rang., að hinn mesti misskilningur hefir gripið þá menn, sem flytja þetta mál eftir beiðni. Það er langt frá því, að þeir fari rétt með það, sem stendur í grg. Þeir hafa ekki spunnið það upp, en fengið það uppgefið hjá þessum kaupfélagsstjóra, sem vill fara að búa á einn eða annan hátt og leggja undir sig land annara, sem hann ekki getur fengið ella. Hv. 1. þm. Rang. hefir sem sé upplýst, að þarna hafi alltaf verið nægilegt land undir hús. Mjólkurbúið, sem var þar áður, hafði nægilegt land. Þetta eru sömu húsin dálítið útvíkkuð, og hafði enginn á móti því. M. ö. o., það er upplýst, að kaupfélagið hefir lóðaréttindi meira en á við mjólkurbúið. Hefir það fengið óáreitt að beita hestum, en allajafna er stutt viðstaða þarna og hestum þá ekki einu sinni sleppt. Þarna sækja miklu færri menn en að mjólkurbúinu, því að verzlun er fyrir austan og utan. Og menn, sem hafa viðskipti langan veg frá, sækja sínar vörur mikið á bílum, ekki aðeins til Reykjavíkur, heldur einnig til hinna verzlananna. Þeir, sem stytzt koma að, eru með hesta, en sleppa þeim sjaldan, og þarf ekki undir þá beit nema örlitla spildu, sem þeir gátu fengið. Hinsvegar er upplýst, að hinumegin við lækinn hefir um langa hríð verið til boða nægilegt land fyrir tiltölulega lítið verð. Svo að allar ástæður, sem færðar eru fram, hrynja. Það er líklegt, að þarna sé um vísvitandi ósannindi að ræða af hálfu þeirra, sem gefa upp, hvernig aðstæðurnar séu, en ekki frá þeim, sem málið flytja. Því að ég geri ráð fyrir, að slíkir heiðursmenn hafi ekki vitað betur en þetta væri rétt.

Í öðru lagi er þess að geta, að hvernig sem háttað er þessu, þá er, samanborið við þau réttindi, sem að kaupstöðunum eru rétt með l. frá 1917 og hv. 2. landsk. vitnaði til, farið fram á langt of mikið land til þess að fullnægja nokkurri slíkri þörf. Hér er farið fram á jörð. 40 ha. lands, til þess að sleppa hestum á og byggja hús. Slíkt nær ekki nokkurri átt. Það kemur fram, hvað fyrir vakir. Maður ætlar að fá sér jörð úr annara landi, sem eigendur vilja ekki láta, og frá sjónarmiði almenningsheilla er ekki meiri þörf á að hann búi þar en þeir. Það er ekki almenningsþörf, hvort maðurinn heitir Pétur eða Páll, sem býr á jörðinni. Hér er greinilega skotið yfir markið.

Og það ætti hv. 1. flm. að vita, að það eru ákvæði til að ná í ræktunarland, og er að finna í jarðræktarl.; hefir búnaðarráðunauturinn væntanlega lesið eitthvað af þeim. 6. kafli jarðræktarl. frá 1923 fjallar einmitt um þetta, sumpart í sambandi við löggilta kaupstaði. Skal ég minna á 34. gr., sem hér á bezt við; hinar fjalla mest um opinberar jarðir, enda taka l. tillit til þess, hvort maðurinn býr á eign sinni eða opinberri jörð. Það er gert að skyldu að láta það land af hendi, vegna þess að löggjöfin ræður yfir þeim. En í 34. gr. segir:

„Ekki getur eigandi eða umráðamaður bannað, að óræktað land sé tekið til ræktunar eftir kafla þessum, nema svo sé ástatt sem hér segir: - a) að hann hafi sjálfur gert viðbúnað til að rækta landið á einhvern veg eða færi sönnur á, að landið sé honum nauðsynlegt vegna annara afnota“, o. s. frv.

Nú hefir það verið svo um jarðir hér og hvar, að mönnum hefir verið heimilt að telja sér jörðina nauðsynlega. Það hefir verið viðurkennt, að það er ekki hægt að skikka einn og annan kannske af pólitískum ástæðum og segja: Þú hefir ekki þörf á þessu, en hinn hefir þörf á hinu, - heldur verður a. m. k. allt að gerast samkv. þeim anda, sem löggjöfin er byggð á, að það megi ekki taka jörð af manni, sem hann á og notar, nema almenningsþörfin sé svo rík, að hún krefjist þessa. En það er ekki hér.

Væri nú þessi þörf fyrir hendi, gæti hún reyndar fallið undir jarðræktarl. frá 1923, og kæmi þá hlutaðeigandi maður, sem þarfnast landsins til ræktunar, og bæði um, að jarðræktarl. yrðu framkvæmd. Þess vegna er sízt þörf að flytja þetta frv. En að öðru leyti er málið út í hött, eins og ég hefi sýnt fram á og fleiri. Ef löggjöfin á að vera á viti byggð og á grundvallarreglum l., þá kemur ekki til mála að leiða ákvæði slíks frv. í l., og það hefir nú líka hv. 2. landsk. séð.