04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (4070)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég verð nú að segja, að ég er dálítið undrandi yfir því, hversu miklar umr. geta spunnizt um jafnsauðmeinlaust mál og þetta virðist vera. Það, sem hér er um að ræða, er nú ekki annað en það, að kaupfélag, sem yfirleitt er eign bænda í viðkomandi sveit, óskar eftir að geta tryggt sér lóðir undir byggingar til framhúðar og bithaga fyrir hesta viðskiptamanna sinna. Og svo að lokum ef til vill að geta haft möguleika til þess að sjá væntanlegum starfsmönnum félagsins fyrir einhverju lítils háttar jarðnæði. Það er ekki heldur svo, að hér sé um að ræða að gera neinum hlutaðeigandi manni verulegan miska með því, sem farið er fram á í frv. því að það er aðeins farið fram á að taka algerlega óræktað land, sem ekki eru neinar líkur til, að ábúendur þeirra jarða, sem þarna eiga hlut að máli, þurfi að nota. Svo er mér a. m. k. tjáð af mönnum, sem vita, sem ég hefi ekki ástæðu til að rengja. Ég skal fúslega taka fram, að ég er ekki nákunnugur þarna austur frá. En heimildin, sem ég hefi, er áreiðanlega ábyggileg.

Ég hjó eftir því hjá hv. 1. þm. Rang. áðan, að það mundi hafa gengið eitthvað erfiðlega - að hans áliti - að fá frv. flutt hér inn í þingið. Ég held hv. þm. hafi ekki aflað sér vitneskju um þetta. Ég held, að óhætt sé að fullyrða það, að ekki hafi verið nefnt við aðra að flytja þetta frv. en þá þrjá þm., sem það gerðu, að undanteknum einum manni. Það var einmitt hv. 1. þm. Rang. Ég gerði það, af því að ég taldi ekki rétt að flytja það án þess að það væri honum kunnugt, þar sem það snertir hans kjördæmi. Hann vildi ekki eiga við það, og er ekkert sérstakt við því að segja. En það, sem hann taldi sérstaklega mæla á móti, var það, að þetta land, sem farið er fram á að taka, væri svo ljótt í laginu, að hann teldi kaupfélaginu ekki samboðið að eiga það. Nú segir hann, að enga nauðsyn beri til að taka landið eignarnámi, af því kaupfélagsmenn geti fengið nauðsynleg afnot af því án þess, t. d. beitiland fyrir hesta. Ég skal ekki um þetta segja, en þó að svo hafi verið hingað til, sannar það ekki, að svo verði hér eftir. Mér er sagt, að landið sé eign margra manna. Meiri hluti þeirra vill selja það kaupfélaginu, en minni hlutinn vill ekki láta landið af hendi, og því er farið fram á eignarnámið. Þeir, sem á móti sölunni eru, hafa enga persónulega hagsmuni af að eiga landið.

Ég ætla ekki að fara að deila við lögfræðinga þá, sem hér hafa rætt um málið og ekki orðið sammála. En það er vitanlegt, að tíðkazt hefir að veita slíkar heimildir, ef það hefir verið talið nauðsynlegt vegna hagsmuna almennings. Og þegar slíkar heimildir eru gefnar, er auðvitað tilætlunin, að þær komi ekki sérstaklega þungt niður á þeim, sem fyrir eignarnáminu verða, og slíku er ekki heldur til að dreifa hér, eins og ég hefi sýnt fram á.

Mér finnst það næsta hlálegt, þegar sjálfstæðismenn fara að tala um það með miklum fjálgleik í sambandi við þetta mál, að eignarrétturinn sé friðhelgur. Þetta stendur að vísu í stjskr. og um það þarf hvorki ég né aðrir neinnar fræðslu við frá sjálfstæðismönnum. En það er margt í löggjöf síðustu ára, sem bendir á, að í framkvæmd sé eignarrétturinn ekki eins .friðhelgur og stjskr. segir. Ég vil í því sambandi benda á kreppulánasjóðslögin og frv. sjálfstæðismanna um skuldaskilasjóð. Aldrei hefir verið vikið lengra frá eignarréttarhugmyndinni en þar. (JJós: Hvað á hv. þm. við?). Ef meiri hluti lánardrottna ákveður svo, verður minni hl. að láta af hendi eign sína nauðugur. Ég gæti einnig nefnt frv. hv. 8. landsk. um frystingu beitusíldar, sem ganga mun harla nærri friðhelgi eignarréttarins. Mér finnst því mótstaða sjálfstæðismanna í þessu máli næsta hláleg og undrast, að svo miklar umr. skuli hafa orðið um það.