02.11.1935
Neðri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (4093)

113. mál, heimild til að kaupa Ás í Kelduneshreppi

Gísli Guðmundsson:

Ég flutti þetta frv., um heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa jörðina Ás í Kelduneshreppi, á þessu þingi síðastl. vetur, rétt áður en þingi var frestað. því var þá vísað til landbn., og hefir henni nú unnizt tími til að semja álit það um málið, sem hér liggur fyrir á þskj. 443.

Ég verð að segja það, að mér þykir leitt, að n. skuli ekki hafa getað fallizt á, að heimild þessi verði veitt, sem farið er fram á í frv. Og mér þykir það dálítið undarlegt, ekki sízt þegar þess er gætt, að auk þess, sem í grg. er tekið fram, hafa fyrir n. legið nokkur gögn önnur í þessu máli, nefnilega umsögn manna, sem full ástæða er fyrir Alþ. að taka tillit til, bæði skógræktarstjóra ríkisins og sandgræðslustjóra ríkisins. Umsögn þessara manna um heimild til kaupa á þessari jörð hefir legið fyrir landbn. Báðir þessir trúnaðarmenn ríkisins leggja eindregið til, að heimild þessi sé veitt.

Hv. frsm. tók nú fram nokkur atriði af þeim rökum, sem í grg. frv. eru færð fram fyrir því, að rétt sé, að ríkið eignist þessa jörð. Ég þarf þess vegna ekki að rifja þau upp. En ég verð þó að gera þá aths., t. d. við 3. lið, viðvíkjandi þeim vatnsréttindum, sem heyra undir jörðina Ás, að í landeign jarðarinnar eru ekki eingöngu vatnsréttindi henni tilheyrandi í Dettifossi. Ég skal taka það fram, að ég býst við, að mönnum þyki ekki sérlega líklegt, að Dettifoss verði virkjaður í næstu framtíð. En það eru aðrir fossar í Jökulsá á Fjöllum, sem tilheyra þessari jörð og nefndir eru í grg. frv., sem vel getur komið til mála að virkja. Sérstaklega er annar þeirra líklegur til virkjunar, minni foss en Dettifoss.

N. byggir sína rökst. dagskrá að allverulegu leyti á þeirri forsendu, að jörðinni muni vera eins vel borgið í eign hrepps þess, sem nú á hana, eins og þó ríkið keypti hana. Mér virðist, að í þessu kenni nokkurs misskilnings hjá hv. n. Má vera, að málið hafi ekki verið gert nægilega ljóst. Máli þessu er þannig háttað, að það má gera ráð fyrir, að ef ekki verður úr því; að ríkið taki boði Kelduneshrepps og kaupi jörðina, þá verði jörðin seld. Þessi hreppur er lítill hreppur og fátækur, sem ekki hefir efni á að eiga þessa eign án þess að hafa svo sem neitt verulegt upp úr henni. Ég geri þess vegna alveg fastlega ráð fyrir, að ef Alþ. vill ekki heimila þessi kaup, þá verði jörðin seld úr eign þess opinbera og í einstaklingseign, þannig að þær forsendur, sem n. gengur út frá í sínu áliti í þessu sambandi, eru fallnar.

Mig undrar það mjög, þegar þessar upplýsingar eru komnar fram, ef hv. nefndarmenn - a. m. k. undrar það mig um suma þeirra - hugsa sig ekki um tvisvar áður en þeir setja sig algerlega á móti því, að þessi heimild skuli veitt. Ég vil þess vegna koma fram með þau tilmæli til hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá og fresti þessari umr., þar sem ég álít, að fyrir geti legið í málinu atriði, sem geti sannfært hv. landbn. um, að rétt sé að veita þessa heimild.