24.10.1935
Neðri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (4128)

134. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. fyrri flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, sagði, að það væri í rauninni óþarft að tala um þetta mál. Ég get tekið undir það með honum, að það, sem hann sagði um málið, var óþarft, og miklu betur látið ósagt. En svo óþarft sem það er, þá er ennþá óþarfara að flytja slíkt frv. sem þetta, því ég býst við, að hv. flm. þessa frv. séu ekki svo skyni skroppnir, að þeim detti í hug, að þeir fái því framgengt hér á þingi, að felld verði niður ákvæði í núgildandi 1. um þetta efni, sem heimila héraðsstjórnum að gera þær samþykktir hjá sér að banna dragnótaveiði í landhelgi frekar en 1. gr. l. heimilar. Þessar samþykktir hafa verið gerðar á mörgum stöðum hér á landi og eru vitanlega byggðar upp af samhuga samtökum þeirra manna, sem eiga lífsuppeldi sitt undir aflabrögðum á sjónum. Og það, að flm. þessa frv. ætla sér að knésetja gersamlega margra ára reynslu þessara manna, nær vitanlega ekki nokkurri átt, og þingið mun við afgreiðslu þessa máls sýna þeim, hvílík fjarstæða flutningur þessa frv. er.

Hin hlið þessa máls, um að lengja tímann, sem leyfilegt sé að veiða með dragnót innan landhelgi, þar sem það er ekki bannað með héraðssamþykktum, er fyrst og fremst gerð fyrir Dani, því það, sem hefir verið því til fyrirstöðu, að þeir hafa ekki notað sér meira heldur en raun er á slíka veiði hér við land, er vitanlega það, að þeir hafa ekki haft leyfi til að vera hér yfir sumarmánuðina. Það er ekki fyrr en farið er að halla sumri og veður er farið að versna, að þeir mega koma inn í landhelgina. Af þessum sökum er það, að sá floti, sem þeir hafa sent hingað til dragnótaveiða, er ekki nema lítill brothluti af þeim flota, sem þeir mundu hafa sent, ef þeim hefði staðið opið að stunda þessar veiðar yfir sumarmánuðina, eins og þetta frv. mun hafa í för með sér. - Ég skal ekki segja, hver hugur manna er nú til þess að fara að bæta aðstöðu Dana, sem skv. sambandslögunum, meðan þau gilda, hafa jafnan rétt til atvinnurekstrar hér á landi og í landhelgi við íslenzka ríkisborgara. En ég hefði búizt við því, að í samræmi við það álit, sem komið hefir fram á þingi, að sjálfsagt væri á sínum tíma að segja upp sambandinu við Dani, myndu menn vilja gera sem minnst úr þessu hættulega ákvæði, að þeir hefðu jafnan rétt til atvinnurekstrar hér á landi við íslenzka ríkisborgara. En að Dönum sé á þennan hátt beinlínis rétt höndin til að auka atvinnurekstrarmöguleika sína hér við land, þykir mér ótrúlegt að verði ofan á hér á þingi. Það er líka alkunnugt, að Danir, sem eru miklir dragnótaveiðimenn, hafa lengi stundað slíkar veiðar við strendur Danmerkur, og þar hefir orðið sama reynslan og hér. Þeir hafa orðið að setja svipaða löggjöf hjá sér og banna veiðar með dragnót á vissum stæðum, nema á ákveðnum tímum árs, og hafa veitt viðkomandi héraðsstjórnum heimild til þess að loka fyrir þessa veiði á sumum tímum árs. - Þetta mundi því ýta undir Dani að leita frekar hingað til Íslands, ef þeir hefðu leyfi til slíkrar veiði á þeim tíma, sem þeim væri mögulegt veðráttunnar vegna að stunda veiðar hér við land.

Ég vildi nú aðeins vekja athygli á þessum tveimur atriðum þessa frv., til þess að sýna fram á þegar í upphafi, hvaða óskaplega fjarstæðu hér er verið að fara fram á með flutningi þessa máls. Í fyrsta lagi að ætla að tak, af héraðsstjórnunum allt það leyfi, sem þær hafa haft til þess að verja sig fyrir ágengni innlendra og útlendra manna inni á grynnstu miðum, og í öðru lagi að ætla að fara að opna landhelgina þannig fyrir Dönum og gera þeim á þann veg hægra fyrir að nota þau atvinnurekstrarskilyrði, sem þeir hafa hér til jafns við okkur Íslendinga sjálfa eftir sambandslögunum.

Ég vil grípa það tækifæri, sem gefst við flutning þessa frv., til þess að leiðrétta leiðinleg mistök, sem orðið hafa hjá Alþingi á tveimur síðustu árum, þar sem nokkuð hafa verið skert ákvæði l. um bann gegn dragnótaveiðum að því er snertir viss svæði hér við suðurströndina. Alþingi er nú með flutningi þessa frv. gefið tækifæri til þess að lagfæra þetta á auðveldan hátt, ef það vill snúa frv. upp í það form, sem brtt. mínar fara fram á. Ég ætla ekkert að fara út í að ræða þær að svo stöddu; það tilheyrir 2. og 3. umr. En ég vænti, að sú n., sem að sjálfsögðu fær málið til meðferðar, taki mínar tillögur til athugunar jafnhliða frumvarpinu sjálfu.