24.10.1935
Neðri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (4131)

134. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég hefði vænzt þess, sérstaklega þar sem hv. þm. Borgf. er búinn að flytja ýtarlegar brtt. við þetta frv., að þá fengi það að fara til n. og till. hv. þm. Borgf. fengju þannig þá eldskírn, sem ég álít, að þær þurfi að fá. En af því að sá hiti hefir nú hlaupið í hv. þm. Borgf., að hann virðist hafa gleymt till. sínum og vilja láta fella frv. strax, þá þykir mér við eiga, sem annar flm. frv., að fara um það nokkrum orðum.

Það eru tvö aðalatriði, sem mér finnst, að hafi komið fram hjá hv. þm. og alltaf koma fram í sambandi við þetta mál. Það er afstaðan til Dana annarsvegar, að það sé verið að greiða fyrir þeim með rýmkun á banni gegn dragnótaveiðum, og hinsvegar þvílíkur háski þetta geti verið fyrir smáútgerðina. Hvað fyrra atriðinu viðvíkur, þá sé ég ekki, að það hafi við mikið að styðjast, því það er vitanlegt, að Danir halda þegar uppi allstórum flota veiðiskipa hér við land, bæði þá mánuði, sem heimilt er að veiða í landhelgi, og þegar það er ekki heimilt. Þeirra innflutningur til Englands er takmarkaður eins og okkar, og er erfitt að auka veiðina, ef slíkar takmarkanir haldast. Ég get því ekki séð, að það sé mikil ástæða gegn þessu máli, að með því sé verið að gera Dönum léttara fyrir með veiðiskap hér við land. Hin ástæðan, að dragnótaveiðarnar spilli svo mjög fyrir öðrum veiðiskap, og þá líklega helzt línuveiði á smábáta, er atriði, sem fiskifræðingar nú a. m. k. halda fram, að hafi ekki við neitt að styðjast, og ýmsir skynbærir menn víðsvegar um land láta í ljós þá skoðun, að þar, sem dragnótaveiðar hafa verið stundaðar, sé ekki hægt að merkja, að annar afli sé neitt minni en áður var.

En mér finnst, að það hafi ekki enn komið fram í þessu máli, sem að mínum dómi er aðalatriði, að það er bókstaflega ekki hægt að halda uppi þessum lögum. Eftir því sem fleiri bátar fá tækifæri til þess að stunda dragnótaveiðar, verða þau meira og meira brotin án þess að hægt sé að koma fram sektum eða öðrum refsiákvæðum. Það er kunnugt, að hér við Faxaflóa var farin fyrir nokkrum árum herferð inn í landhelgina af mörgum bátum samtímis. þeir voru teknir og sektaðir, en ég efast um, að nokkur þeirra hafi borgað seklina. Mér er sagt, að slíkar sektir séu í flestum tilfellum gefnar eftir, enda eru þær svo háar, að bátarnir hrökkva ekki einu sinni fyrir þeim við fyrsta brot. Ég sé því ekki annað en grundvöllurinn undir þeim samþykktum um héraðabönn, sem heimilaðar hafa verið, sé horfinn burtu, og geta því slík ákvæði orðið okkur hættuleg á sama hátt og bannlögin voru á sínum tíma, vegna þess að lítið var farið eftir ákvæðum, sem þar giltu. Þetta eru bannlög á sinn sviði, sem brotin eru stórkostlega, og sektirnar fást ekki inn. Það virðist ekki spilla annari veiði, þó notaðar séu dragnætur, en hinsvegar getur það gefið mönnum talsvert í aðra hönd, þar sem það fyrirkomulag er, að togararnir kaupa aflann til útflutnings. Frá sónarmiði þjóðarheildarinnar geta slíkar veiðar hæft afkomuna, því aflinn er verðmeiri heldur en annar fiskur og eykur þannig fjármagnið, sem við fáum að selja fyrir í útlöndum. Þar við bætist, að þessi héraðabönn geta ekki byggzt á neinni verulegri sanngirni. Útgerð landsmanna er, eins og menn vita, aðallega samansöfnuð í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa yfir sáralitlu af strandlengjunni að ráða; hún er í höndum sveitabænda, sem varla nokkra útgerð reka. Það eru aðeins bændurnir, sem búa úti við sjóinn, sem róa á litlum bátum fram frá bæjum sínum. Allur þorri sveitabænda er hindraður frá að stunda veiðiskap, - og því þá að hindra aðra í að notfæra sér miðin með dragnótum, þegar sýnt er, að það spillir ekki annari veiði á nokkurn hátt, en getur hinsvegar stutt útgerðina í bæjunum og aukið útflutningsmagn landsmanna að því er verðmæti snertir? - Ég ætla svo ekki að hafa þetta lengra, en skora á hv. þm. Borgf. að greiða atkv. með frv. til 2. umr. og sjá til, hvort ekki verður hægt að taka till. hans til greina að einhverju leyti.