04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (4151)

153. mál, garðyrkjuskóli

Flm. (Bjarni Bjarnason):

Það er fyrir tilmæli hæstv. landbrh., að við berum þetta frv. fram. Hann gat þess fyrir nokkrum dögum í sambandi við annað frv. um sama efni, að sér hefði verið falið af ráðuneytinu að undirbúa slíkt frv. fyrir nokkru, og hefði hann síðan unnið allrækilega að undirbúningi þess.

Augu manna eru nú óðum að ljúkast upp fyrir nauðsyn garðræktar, og áhugi manna á henni fer sívaxandi, eins og allri jarðrækt. Garðyrkja getur verið fjölbreytt og því mjög vandasöm. Því er hin fyllsta þörf á leiðbeiningu í þessum efnum. Garðyrkjuskólinn á fyrst og fremst að verða til þess, að fjölga þeim, sem geta leiðbeint öðrum. Auk þess er ætlazt til, að um styttra nám geti verið að ræða fyrir hina eiginlegu framleiðendur.

Þeir, sem níu mánaða námið stunda, eiga fyrst og fremst að verða kennarar. Skólanum er ætlað að vera fræðslustofnun fremur en framleiðslustofnun. Þó verður skólinn það líka að einhverju leyti, svo að hann gæti, er stundir líða, ef til vill staðið straum af sjálfum sér að mestu eða öllu leyti.

Það er augljóst, að slík stofnun hefir mikið verk að vinna. Mönnum er t. d. æ að verða það ljósara, hve nauðsynlegt það er, að við getum sjálfir fullnægt kartöfluþörf okkar. Enn deila þó ráðunautar vorir mjög um það hvaða kartöflutegund gefi bezta sprettu, sé bragðbezt og þoli bezt sjúkdóma. Þessi stofnun ætti að geta fengið svo staðgóða reynslu um þetta, að hún gæti skorið úr þessum vandaatriðum.

Þessi skóli verður það langur, að rétt hefir þótt að takmarka tölu nemenda ár hvert. Gert er ráð fyrir fjölbreyttum rekstri og ætlazt til að nemendur fái fría skólavist.

Kostnaður ætti ekki að verða tilfinnanlegur, þar sem víst er, að garðyrkjuafurðir skólans myndu gefa töluverðar tekjur. Þyrfti ekki svo ýkjamikla kartöflu- og grænmetisframleiðslu til þess að skólinn beri sig. Ríkissjóður þyrfti því aldrei að leggja fram mikið rekstrarfé, þó nemendur fengju fría skólavist.