04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (4156)

153. mál, garðyrkjuskóli

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég bjóst ekki við að taka til máls í þessu máli, sem hér liggur fyrir. Grg. frv. er það ýtarleg, að við hana þarf varla að bæta. En vegna þess, hvernig umr. hafa snúizt, þykir mér rétt að segja fáein orð.

Það er út af fyrir sig næsta broslegt að vera að ræða um það, hverjir eigi hugmyndina að því að koma upp þessum skóla, og nota ræðutíma þingsins til þess að breiða sig út yfir það. Mér liggur við að segja, að þeir, sem það gera, sýni það og sanni, að það er ekki af áhuga, sem þeir bera fram málið, og að þeir eigi ekki hugmyndina að því. Aðalatriðið er það, að það hefir verið áhugi margra manna að koma upp garðyrkjuskóla. Og úr því farið er að ræða um þetta, þá er bezt að segja frá því eins og það er. Það er rétt, sem hv. 9. landsk. talaði um, að það hefir verið mikill áhugi hjá mörgum innan Alþfl. að koma þessu máli fram, og sjálfsagt verið samþ., eins og hann sagði, á þingi Alþfl. En síðan fellur málið niður, þangað til það er tekið upp í ríkisstj. og sérstaklega talað um að búa það undir þing. Ég segi einum Alþfl.manni frá þessu, en hann hleypur þá til Sigurðar Einarssonar og biður hann að bera málið fram. Og ég skal bæta því við, að hæstv. atvmrh., sem hafði fullan áhuga á að koma málinu fram, vissi ekki, að frv. var borið fram, og ríkisstj. var með hans fulla samþykki að undirbúa málið. En um það, hverjir hafi tekið þetta mál upp fyrst og hverjir eigi hugmyndina að því, þarf ekki að deila. Aðalatriðið er það, að málið komist í hendur þeirra manna, sem geta fjallað um það af meiri þekkingu en svo, að þeir álíti, að hver einstakur maður suður í Þýzkalandi borði 500 kg. af kartöflum á ári. Málið á vitanlega að fara til landbn. og síðan á að bræða þessi frv. saman, því að sjálfsögðu eru gallar á þeim báðum.

Hitt er óviðeigandi og ber ekki vott um þann áhuga, sem málið á skilið, að verið sé að deila um það, hvort málinu sé stolið frá þessum flokknum eða hinum. Málið hefir vitanlega átt fylgi hjá öllum flokkum á ýmsum tímum, en sagan um það, hvernig það er komið fram, er rétt sögð eins og ég hefi greint.