05.11.1935
Neðri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (4164)

157. mál, meðferð einkamála í héraði

Stefán Jóh. Stefánsson [óyfirl.]:

Það er langt síðan fóru að heyrast raddir um það, að ýms ákvæði í íslenzkri réttarfarslöggjöf væru að verða næsta úrelt, enda er það ekki að undra, þegar sum þeirra má rekja til löggjafar Kristjáns konungs V. frá 1687. Dómarar og málaflutningsmenn, sem mest eiga við þetta að búa, hafa lengi fundið til þess, að við Íslendingar erum orðnir langt aftur úr öðrum þjóðum í þessum efnum. Þeir hafa æ meir og meir fundið til þess, að mörg réttarákvæði okkar eru orðin úrelt og óheppileg. Það er því ekki að undra, þó horfið sé nú að því ráði að taka til gaumgæfilegrar athugunar og endurskoðunar okkar réttarfarslöggjöf.

Í fjárl. fyrir árið 1934 var veitt nokkur fjárupphæð til þess að endurskoða réttarfarslöggjöfina, og urðu það samningar milli þingflokkanna, að gagngerð endurskoðun færi fram í þeim efnum, bæði um meðferð opinberra mála og einkamála. Var ákveðið á þinginu 1934 að skipa þriggja manna n. til þess að vinna þetta. Var sú n. skipuð 12. des. síðastl., og hefir hún unnið síðan.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er frá þessari n. Eru þrjú grundvallaratriði í gildandi l. um þetta efni, sem n. vill með þessu frv. kippa í lag. Það var fyrst og fremst það, að fá í eina heild alla íslenzka réttarfarslöggjöf um einkamál. En þessi löggjöf hefir til þessa tíma verið dreifð í mörgum lagafyrirmælum allt frá 17. öld og til vorra daga. Munu þau vera um 40-50 talsins þau lagafyrirmælin, sem að meira eða minna leyti snerta íslenzka réttarfarslöggjöf eða meðferð einkamála í héraði. Það er miklu hentugra fyrir alla, sem eiga með slík mál að fara, að um eina kerfisbundna löggjöf sé að ræða, ekki aðeins fyrir dómara og málflm., heldur allan landslýð, og þá ekki sízt fyrir þá, sem leggja stund á lögfræðileg efni.

Í öðru lagi hefir það komið fyrir við framkvæmd íslenzkra réttarfarsmála, að mál hafa dregizt óhæfilega lengi, verið að flækjast fyrir undirrétti svo árum skiptir, og það eru dæmi til þess, að mál hafi legið undir dómi hjá dómurum í marga mánuði án þess að talið væri vitavert eftir gildandi löggjöf. Þetta frv. á einnig að bæta úr þessum megingalla núv. réttarfarslöggjafar, sem er óhæfilegur dráttur á málum í héraði. Að þessari endurbót miða mörg ákvæði frv., eins og að koma á munnlegum málflutningi, sem á að flýta fyrir afgreiðslu mála og stytta ýmsa fresti, svo sem stefnufrest, dómsuppkvaðningarfrest og frest þann, sem málflm. mega halda málum.

Ég er ekki í neinum vafa um, að ákvæði frv., ef að l. verður, geta komið því til leiðar, að ljúka megi málum miklu fyrr heldur en átt hefir sér stað, og tei ég það geysilegan kost á frv. eins og það liggur fyrir. Það hefir jafnvel verið orðað svo af lögfróðum mönnum, að betri væru skjót úrslit mála og vafasöm heldur en langur dráttur á málum, jafnvel þó á endanum kæmi rétt niðurstaða. Það er ekki lítið óhagræði fyrir þá, sem eiga í málum, að ekki sé skorið úr þrætuefninu fyrr en mörgum árum eftir að tilefnið til málshöfðunar kom fram.

Í þriðja lagi er það tilgangur frv. að auka tryggingu fyrir því, að niðurstaða allra dómsúrskurða megi vera sem réttust og í samræmi við landsins lög og reglur og í samræmi við almennar siðferðisreglur, ef svo mætti að orði komast. Að þessu miða mörg ákvæði í frv., m. a. munnlegur málflutningur, sem ég minntist á áðan, og þá ekki sízt það atriðið, sem ég tel merkilegast, og það eru hinar svokölluðu aðiljaskýrslur. En það er svo með réttarfarsmál vor nú, að málsaðilar koma hvergi nærri dómsstólunum, ef þeir flytja ekki málin sjálfir, og þess er enginn kostur að yfirheyra þá fyrir dómi, en þess eru mörg dæmi, að þeir þegja yfir mörgu, sem nauðsynlegt væri, að fram kæmi, og jafnvel segja umbjóðendum sínum rangt frá málavöxtum og þræta fyrir staðreyndir. Nú er gert ráð fyrir, að aðilar séu teknir fyrir dóm eins og vitni og þeir þar spurðir spjörunum úr, og með því móti efast ég ekki um, að það náist siðferðislega réttari niðurstöður í málum en verið hefir oft hingað til, þar sem aðilunum hefir haldizt uppi að mótmæla og jafnvel skýra rangt frá um málavexti án þess að það hafi bakað þeim ábyrgð, eða án þess, að dómarar ættu kost á að rannsaka afstöðu aðiljanna sjálfra til málanna. - Einnig tel ég, að það miði til þess að fá tryggari niðurstöðu mála, að vitnaleiðslan verður með nokkuð öðrum hætti en áður, þannig að málsaðilum gefst tækifæri til þess að spyrja vitnin meira heldur en áður hefir tíðkazt. - Einnig má teljast til þessa atriðis það nýmæli í frv., að sérfróðir menn sitji dóm í vissum flóknum málum, sem sérþekkingu þarf til, eins og í ýmsum verzlunarmálum, sama og gildir um sjódómsmál.

Þetta eru 3 höfuðatriði, sem ég tel, að liggi til grundvallar þessu frv., og hvert atriði fyrir sig er svo mikilsvert, að ég tel, að það væri nægilegt til þess að gera það æskilegt, að slíkt frv. yrði að lögum.

Ég mun svo með örfáum orðum víkja að frv. sjálfu eins og það liggur fyrir, en mun stikla á stórum atriðum, því þau eru sum þannig, að þau eru meira lögfræðilegs efnis, enda útskýrð rækilega í grg., sem fylgir frv. - Frv. er í mörgum köflum og byrjar á undirstöðunni, sem er fyrir dómsmálum yfirleitt, sem eru sáttir og sáttanefndir. Það er tiltölulega litlu breytt um skipun sáttanefnda og valdsvið þeirra. Þó má geta þess, að færð er til samræmingar kosning sáttanefndarmanna, þannig að hún verði eins um land allt, í stað þess, að gilt hafa sérákvæði um þetta hér í Reykjavík, þar sem sáttanefndarmenn eru komir af bæjarstjórn, en riti um landið tilnefndir af héraðsdómara. Okkur í n. þótti rétt að færa þetta til samræmis og meira í lýðræðisáttina, þannig að hreppsnefndir og bæjarstjórnir kjósi þessa fulltrúa, sem fjalla um sáttir. - Þess má líka geta í sambandi við þennan kafla, að þeim málum hefir verið nokkuð fækkað, sem skylt er að leggja fyrir sáttanefnd, því það er fyrirfram vitað um mörg mál, að sáttir muni ekki takast, og þá virðist það óþarfa tímaeyðsla að leggja þau fyrir sáttanefnd. Hér ætti ekki að vera hundrað í hættunni, því sáttatilraunir eru ekki þar með afnumdar, heldur falla þær á dómarana, sem leita sátta milli aðiljanna. Og um sáttatilraunir dómara, sem hafa tíðkazt í mörgum málum, má segja það, að þær hafa ekki síður leitt til sátta heldur en hjá sáttanefndunum sjálfum. - Ég tel svo ekki þörf á að fjölyrða frekar um þennan kafla, sem er að mörgu leyti líkur því, sem verið hefir til þessa.

Næsti kafli er um dómara o. fl. - Í frv. er haldið þeirri dómskipun í undirrétti, sem verið hefir, því okkur þótti ekki fært að leggja til að gerbreyta um dómskipun í landinu, því það gæti leitt til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð og einnig orðið til þess að torvelda það, að lausn fengist á málum, því ef aðskilið yrði dómsvald og umboðsvald, þá yrði það til þess að fækka héraðsdómurunum allverulega, en það hefði aftur í för með sér, að mál gætu dregizt of lengi. Þó að það væri mikill kostur og að sumu leyti ómetanlegur að aðskilja dómsvald og umboðsvald, þá sá n. ekki fært að leggja það til, af þeim ástæðum, sem ég hefi drepið á.

Í þessum kafla er vert að geta nýmælis í 32. gr. frv., þar sem lagt er til, að lögfræðikandidat megi ekki skipa í héraðsdóm nema hann hafi fengið þar til greinda reynslu. Þessa nýbreytni byggjum við á því, að nú er orðinn góður kostur löglærðra manna, og er því eðlilegt að láta þá ganga fyrir, sem hlotið hafa reynslu í þessari fræðigrein. Það er bæði sanngjarnt gagnvart lögfræðingunum sjálfum og nærgætni við þá, sem hlíta eiga lögsögu þeirra, því það má gera ráð fyrir, að þeir hafi öðlazt reynslu og þekkingu við að hafa á hendi lögfræðileg störf í 3 ár. En þeim, sem nýkomnir eru frá prófborðinu, verður erfiðara um vik að gegna vandasömum dómarastörfum. Ég ætla því, að þetta get ekki orðið til neins óhagræðis, en geti hinsvegar orðið til hagræðis bæði fyrir þá, sem stunda lögfræðinám, og þá, sem eiga eitthvað undir héraðsdómurum og sýslumönnum yfirleitt.

Þá má geta þess, að í 35. gr. er nýmæli, sem ekki hefir áður verið í h, sem sé það, að dómsmrh. getur selt dómara frá embætti af vissum ástæðum um stundarsakir, en þó má ekki svipta þá embætti, nema að gengnum dómsúrskurði.

Okkur þótti rétt og eðlilegt, að hægt væri að víkja úr stöðu til bráðabirgða dómurum jafnt sem öðrum, ef það þætti einsýnt, að þeir brytu í bága við embættisskyldur sínar, en að réttur þeirra væri tryggður með því, að ekki mætti gera það til fullnustu, nema að undangengnum dómi.

Þá kem ég að 3. kaflanum, sem er um þinghöld, þingbækur, þingvotta o. fl. - Þar er um lítil nýmæli að ræða. Þar eru felldar niður gamlar úreltar leifar frá afgömlum tíma um það, að 4 skuli vera þingvottar í bæjarþingi, en nú skulu þeir vera 2 bæði á bæjarþingi og annarsstaðar á héraðsþingum yfirleitt. - Þá eru nokkur smáatriði í þessum kafla, sem eru nýmæli, sem ég tei ekki þörf á að rekja hér.

há er I. kaflinn um sakaraðilja. Þar eru í raun og veru lögfest atriði, sem talin hafa verið gildandi eftir íslenzkum réttarfarsreglum yfirleitt. Um þennan kafla tel ég ekki ástæðu til að ræð, hér, þar sem hann er meira lögfræðilegs efnis, enda er hann skýrður rækilega í grg. frv.

5. kaflinn er um málflytjendur. Þar er sú regla upp tekin, að gerð eru skilyrði til málflutningsmanna meiri heldur en áður, og er þar gert ráð fyrir því, að í kaupstöðum - eða sérstaklega í Reykjavík - geti ekki aðrir en lögfróðir menn farið með mál fyrir aðra, þó að hver aðili um sig og náin skyldmenni geti farið með málefni sín sjálf fyrir dómstólum. Hér er upp tekin sama regla fyrir héraðsdóm eins og nú gildir um meðferð mála fyrir hæstarétti. Það er reynsla allra dómara, sem fengizt hafa verulega við dómarastörf, að mál séu betur upplýst og meiri líkur til þess, að réttur úrskurður náist, ef þau eru sótt og varin af sérfræðingum eða lögfróðum mönnum. Mörg dæmi eru til þess, að menn hafa sjálfir af þekkingarskorti ónýtt málflutning sinn, þannig að þeir hafi beðið óbætanlegt tjón af. Þó er því haldið, að úti um land og í kaupstöðum, þar sem ekki er nægur kostur lögfróðra manna, megi fela hverjum góðum og hæfum manni flutning mála. Ég hygg, að þetta miði einnig að því að fá eðlileg og réttlát úrslit mála og til að flýta fyrir þeim.

Í þessum kafla eru einnig ákvæði um það, að velja skuli einskonar oddamenn til þess að standa fyrir hagsmunum stéttarinnar gagnvart dómstólum, og þeir menn eiga að vera einskonar samvizka málflutningsmanna og sjá um, að þeir hegði sér í sínum trúnaðarstörfum sem allra bezt. Ég tel, að þetta sé til mikilla bóta og miði í svipaða átt og lagt var til í frv. um fimmtardóm.

Þá kem ég að 7. kaflanum, sem er um varnarþing. Ég get verið fáorður um hann, því þar eru að mörgu leyti sömu ákvæði og gilt hafa, en þó er bætt við nokkrum nýmælum, sem ég hirði ekki að rekja sérstaklega, en þau eiga öll að miða að því að tryggja fljótari úrslit mála, og til þess að málsmeðferðin þurfi ekki að dragast óhæfilega, er nokkuð breytt til með varnarþing, sem snertir það, en ákvæðin um höfuðvarnarþing haldast óbreytt. Ég get nefnt sem dæmi, að breytt hefir verið frá l. nr. 59 frá 1905, sem heimila verzlunum að höfða mál gegn skuldunautum sínum á varnarþingi verzlunarinnar, en þessi heimild nær aðeins til viss tíma árs, þar sem ekki má nota hana yfir vetrarmánuðina, og var hugsunin með þessu sú, þegar gengið var frá l., að erfitt væri um samgöngur á vetrum, en eftir því sem samgöngur hafa batnað er engin meiri ástæða til að undanskilja veturna heldur en aðra tíma árs, og nær því þessi regla skv. frv. til alls ársins.

8. kafli frv. ræðir um stefnur. Þar er ekki ýkjamörg nýmæli að finna, og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um hann.

Í 9. kaflanum, þar sem er þungamiðja nýsköpunar á réttarfarinn, eru reglur um meðferð mála í héraði. En þar sem ég hefi þegar minnzt á þessi höfuðnýmæli frv., get ég verið stuttorður um þau. Höfuðnýmæli eru sem sé munnlegur málflutningur, yfirheyrsla aðilja, nokkuð breyttar aðfarir við vitnaleiðslur og það, að dómara ber að fylgjast með málum frá upphafi og þar til dómur er genginn. En eins og nú er háttað um skriflegan málflutning, hefir dómari ekki aðstöðu til þess að fylgjast með máli frá því að það er þingfest og þar til hann tekur það til dóms. En það er eðli munnlegs málflutnings, að dómari á kost á að fylgjast með máli, því þegar það fyrst kemur fyrir, eiga aðiljar að skýra frá því eða umboðsmaður þeirra, á hverju hann byggi kröfur og hvaða kröfur hann geri. Varnaraðili getur þess, hvað hann hafi út á málsóknina að setja, hvaða kröfum hann neiti og hvaða vörnum í aðalatriðum hann ætli að halda uppi í málinu. Þegar þetta hefir verið framkvæmt, er ákveðinn frestur til fyrirtöku málsins, og skal honum varið til þess að afla sönnunargagna. Og þegar svo málið kemur fyrir, þá eiga að liggja fyrir öll þau gögn, sem talin eru nauðsynleg, og dómari hefir þá tök þess að kynnast þeim og síðan metur hann, eins og nú er í hæstarétti, bæði varnir og sóknir. - Ég ætla strax að taka það fram, að sú reynsla, sem fengin er hér fyrir hæstarétti, er á þá lund, að hver og einn einstakur málflutningsmaður, sem hefir haft með höndum flutning mála, óskar þess, að óbreyttur megi haldast munnlegur málflutningur, og það, sem ekki er minna um vert, að hver dómari, sem situr í hæstarétti, hefir látið svo um mælt, að hann telji munnlegan málflutning betri fyrir dómarana og líklegri til þess að skýra málin vel. Ég ætla því, að þeir, sem mesta hafa reynsluna í þessum efnum, málflutningsmenn og dómarar, séu á einu máli um það, að munnlegur málflutningur sé heppilegri og betri, enda er hann víða upp tekinn fyrir undirrétti, eins og t. d. í nágrannalöndunum, Danmörku og Noregi, þar sem málflutningur hefir verið munnlegur fyrir það, sem kalla mætti undirrétt. - Ég ætla, að ekki þurfi að skýra þetta nánar. Ég tel ekki þörf á að drepa á þá kosti, sem ég tel, að þessi munnlegi málflutningur og annað, sem stendur í sambandi við hann, hefir fram yfir þær reglur, sem áður giltu um meðferð einkamála í héraði.

Ég get orðið stuttorður um þá kafla frv., sem eftir eru. Það er nú áliðið venjulegan fundartíma, en ég hefði heldur kosið að ljúka máli mínu áður en fundi er frestað eða slitið.

10. kafli fjallar um sönnun og sönnunargögn. Er þar aðallega fyllt út í þær eyður, sem hingað til hafa verið í lagafyrirmælum um þessi efni. Tel ég ekki þann kafla þurfa neinna sérstakra skýringa við.

Þá er 11. kafli um gjafsókn. Um hann er að miklu leyti það sama að segja. Þar eru sumpart orðuð um eldri lagafyrirmæli og að nokkru bætt um og fyllt út í þar, sem vanta þótti í, að fenginni reynslu í þessu efni. Tel ég ekki þörf á að fara nánar út í það.

12. kafli ræðir um málskostnað fyrir héraðsdómum. Þar eru í höfuðatriðum teknar upp reglur þeirra 1., sem áður hafa gilt, enda eru þau lagafyrirmæli ung, samanborið við aðra hluta réttarfarslöggjafarinnar, eða frá 1917.

13. kafli er um réttarfarssektir og þarfnast eigi skýringa.

14. kafli er um dóma og úrskurði, og þarf ég ekki heldur næsta mikið um hann að segja. Ég vil aðeins vekja athygli á, að dómsuppsagnarfresturinn er hér styttur úr 6 vikum niður í 2 vikur. Þetta miðar í sömu átt og áður er á minnzt; allt frv. hnígur að því, að málin megi sem fyrst ljúkast. Að vísu er gert ráð fyrir, að ef miklar annir hjá dómaranum eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, megi fara fram yfir þennan tiltekna frest, en þó ætla ég, að þetta verði til þess, að í málum verði fyrr dæmt en verið hefir. Þetta er um það, þegar málin eru skriflega flutt, því þegar munnlega er flutt, skal dómur upp kveðinn þegar í stað, eða áður en næsta mál er tekið fyrir, eins og nú er í hæstarétti.

15. kafli er um málskot til æðra dóms. Áfrýjunarfresturinn er styttur úr 6 vikum niður í 3 vikur. Allt miðar að þessu sama, að greiða fyrir fljótri úrlausn mála. - Í þessum kafla er nýtt atriði, sem ég tel allmerkilegt, um kæru. Þar er gert ráð fyrir, að áfrýja megi til hæstaréttar sérstökum atriðum úr málum án þess þau fari þangað í heild. Það er oft slæmt, þegar um er að ræða, hvort máli á að frávísa eða ekki, ef flytja þarf málið fyrir hæstarétti eftir að dómur er genginn í héraði, bæði hvað snertir frávísunina og efni málsins. Ef niðurstaðan verður frávísun, hafa málflytjendur lagt fram vinnu að óþörfu og dómstólarnir einnig. Hér er því stungið upp á, að áfrýja megi einstökum atriðum mála eða kærum út af dómsathöfnum. Svipuð ákvæði gilda í réttarfarslöggjöf Dana og Norðmanna, sem á sínum tíma var sniðin eftir löggjöf Þjóðverja og Austurríkismanna.

16. kafli er um sjó- og verzlunardómsmál. Þar eru óbreytt að mestu gildandi ákvæði um sjódómsmál, en hitt er nýmæli, að í vissum málum, sérstaklega málum milli kaupsýslumanna, iðnfyrirtækja, firma, samvinnufélaga og hlutafélaga, skuli vera meðdómendur með héraðsdómara, valdir á sama hátt og meðdómendur í sjódóm hafa verið valdir til þessa. En þó þetta sé nýmæli í okkar löggjöf, er það margreynt í nágrannalöndunum og hefir þótt gefast vel. Eftir því, sem viðskiptamál okkar verða flóknari, verður erfiðara fyrir dómara, sem ekki hafa sérþekkingu í öðrum greinum en lögfræði, að skera úr málum, sem liggja á sviðum verzlunarsérþekkingar. Ef menn með sérstaka verzlunarþekkingu koma þar til, er líklegra, að dómsniðurstaðan verði í samræmi við þær reglur, sem myndazt hafa í viðskiptalífinu, og að allt komi fram, sem máli skiptir.

17. kafli er um víxilmál, og gildir þar um það sama og áður.

18. kafli er um mál til faðernis óskilgetinna barna og þarfnast eigi skýringa.

19. kafli er um ógildingu heimildarbréfa og annað þessháttar. Eru þar engin sérstök ákvæði, sem þurfa þykir að benda sérstaklega á, enda eru þau flest óbreytt frá því, sem gilt hefir.

Þá kemur loks 20. kaflinn, niðurlagsákvæði um það, hvenær reglur þær, sem í frv. felast. öðlast gildi og koma til framkvæmda, ef samþ. verður, hvaða lagafyrirmæli falla úr gildi, þegar frv. væri að lögum orðið, o. s. frv.

Ég hefi þá með nokkrum orðum rakið efni þessa frv. og tel óþarfa að bæta þar fleiru við. Ég vil enda mál mitt með því, að ég tel, að í þessu frv. sé um að ræða stórmerkilega réttarbót, sem getur haft í för með sér mikið hagræði, bæði fyrir allan almenning í landinu og þá menn, sem sérstaklega eiga að fara með þessi mál, dómara og málflytjendur.

Ég legg til, að þessu máli verði að umr. lokinni vísað til hv. allshn. Ég vildi mega vænta þess, að hv. d. greiði fyrir því, eftir því sem aðstæður leyfa, að frv. verði sem allra fyrst að 1. - Þess skal getið, að þó ég hafi staðið dálítið að samningu frv., þá er að sjálfsögðu ekki loku fyrir það skotið, að ég gæti verið með brtt., sem fram kæmu, bæði formsbreyt. og jafnvel efnisbreyt. Frv. er byggt á samkomulagi innan þeirrar n., sem um málið fjallaði, og stendur hún að því óskipt, þó nm. greindi örlítið á í smáatriðum. Það eru því atriði í frv., sem ég nú þegar kysi fremur að hafa öðruvísi, og auk þess kunna hv. þm. að koma auga á eitthvað, sem ég og aðrir sæju, að betur mætti fara, því hér sannast sem víðar, að betur sjá augu en auga.