15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (4185)

161. mál, sláturfjárafurðir

Flm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Ég er hálft í hvoru feginn því að vera búinn að gleyma nokkru af því, sem hv. 2. þm. N.-M. hefir sagt, því það er nóg eftir af þeim graut samt. Ég veit líka varla, hvort það er rétt hjá mér að vera að leggja mig fram til þess að svara honum eftir útreið þá, sem hann hefir fengið, enda stóð lítið eftir af rökum hans eftir að þeir 2 hv. þm. voru búnir að tala, sem staðið hafa upp til þess að andmæla honum. Hann reyndist þar hafa farið með ósannindi í öllum atriðum, og var ekki hægt að sjá, hvort það var af ásetningi eða fávizku. Hann veður hér uppi með rangar tölur um hluti, sem skýrslur liggja fyrir um, af því að hann hirðir ekki um að afla sér upplýsinga um þá, eða þá að hann fer að hætti þeirra manna, sem eru í vandræðum með að styðja mál sitt, og grípa til ósanninda, þegar þeir hafa ekki öðru til að tjalda. Hann fór með ósannindi um það. hvað birgðirnar hefðu verið miklar, hvað sumarslátrunina snerti og hvað verðhækkunina snerti. Allir vita, að hann fer með ósannindi, þegar hann segir, að í 12 sýslum hafi aðeins 5 menn verið óánægðir með kjötsölulögin. Hv. þm. Borgf. sýndi fram á, að sá félagsskapur nær yfir 6 sýslur, sem hefir orðið á einu máli um að lýsa óánægju sinni yfir framkvæmd kjötsölulaganna. Það hefir líka verið svo, að það er varla hægt að finna einn einasta mann, sem er ánægður með kjötsölulögin.

Fjöldi manna er ekki einungis óánægður með þau, heldur segir beinlínis, að það sé búið með þeirra búskap, ef ekki fæst breyt. á þeim. Einn misskilningurinn hjá hv. þm. er sá, að hann er alltaf að mótmæla því, að kjötsölulögin séu afnumin, og mótmæla því, að það þurfi ekki að hafa kjötsölulög. En það er ekki verið að ræða um það hér, heldur hvort það þurfi ekki að breyta þeim. En þetta hefir aldrei komizt inn í höfuð hv. þm., og getur það staðið í sambandi við þau ummæli hans, er hann hafði áðan, er hann hneykslaðist á því, að menn skuli ekki sjá annað en það, sem komizt hefir í heila þeirra. Hann sér líklega eitthvað, sem er ekki í hans heila. Okkur hefir nú verið sagt það, að maðurinn þurfi að fá mynd hlutarins inn í heila sinn til þess að geta dæmt um hann.

Þegar ég mælti fyrst fyrir breyt., þá gekk ég framhjá einstökum atriðum í l. sjálfum, en það er rétt, að ég komi inn á þau atriði, sem gerð hafa verið að umtalsefni. - Það hefir verið talað réttilega um það, að gallar þeir, sem fram hafa komið á l., hafa verið framkvæmdarávirðing. Ég viðurkenni fyllilega, að þrátt fyrir það, þó l. séu meingölluð frá mínu sjónarmiði, þá hefði tilgangurinn náðst og l. orðið að liði, ef þau hefðu verið framkvæmd á skynsamlegan hátt. En af því að reynslan hefir sýnt, að ekki hafa fengizt menn, sem treystandi var til þess að framkvæma l. á skynsamlegan hátt, þá hafa þau orðið að verulegu tjóni, og vil ég láta breyta l. þannig, að hendur þessara manna séu sem mest bundnar. Brtt. þær, sem ég hefi borið fram. ganga í þá átt, að gera kjötverðlagsnefndinni að skyldu flest af því, sem ætlazt er til, að hún geri. En í l. er ákaflega mikið af heimildum. T. d. er í 3. gr. talað um, að kjötverðlagsn. megi úthluta sláturleyfunum, en með till. minni er það ráð tekið að nema þetta burt, svo að ekki sé hægt að misbeita sláturleyfunum. Og til þess að menn skili það, að leyfunum hefir verið misbeitt, vil ég endurtaka það, sem segir í einn bréfi, sem prentað er í grg. frv. Manni þeim, er það skrifar, var leyfð heimaslátrun í fyrra haust. vegna staðhátta. En nú í haust var honum bannað að slátra heima hjá sér. Honum var skipað að láta slátra fé sínu hjá kaupfélagi, sem þó ekkert slátrunarhús hefir og slátrar því bara á gamla mátann.

Þessi framkvæmd kjötlaganna er vísvitandi rangsleitni. Það er gengið á hlut þessa manns og honum gert mikið fjárhagslegt tjón, og það ekki í öðrum tilgangi en þeim að pína hann til þess að vera viðskiptamaður þar, sem hann kærði sig ekki um, nefnilega hjá þessu kaupfélagi. Það er ekki hægt að neita því, að þessi l. gefa tilefni til þess, að miður grandvör kjötverðlagsnefnd fari svona að ráði sínu, þegar gera skal greinarmun á því, hverjum skuli heimila að slátra og hverjum megi heimila að slátra.

Það er líka annað atriði, sem ég vildi drepa á í sambandi við framkvæmd þessara l., þar sem einmitt er í I. sjálfum fólgið tilefni til þeirra mistaka, sem átt hafa sér stað hjá kjötverðlagsnefnd um framkvæmd þeirra. Það er viðkomandi verndun markaðsins. Í l. stendur í 10. gr.: „Kjötverðlagsnefnd gerir þær ráðstafanir, sem hún telur þurfa, til þess að innlendi markaðurinn notist sem bezt. Hún hefir eftirlit með því, að gætt sé hagsýni og sparnaðar við slátrun og í allri meðferð sláturfjárafurða og verzlun með þær.“ Svo kemur þar á eftir: „Í því skyni getur nefndin takmarkað fjölda útsölustaða“ o. s. frv.

Þetta er hugsunarvilla, að ætla að greiða fyrir sölunni með því að loka sölustöðum, og ekkert annað en vitleysa. Svo síðar í gr. stendur, að n. megi takmarka flutning á milli verðlagssvæða, ef hún telur hættu á því, að markaðurinn ofhlaðist á einhverjum stað. Hvers vegna er n. ekki skipað að gera þetta? Annaðhvort af því, að þeir, sem sömdu lögin, hafa treyst n. of vel, eða að þeir hafa - sem ég vil þó ekki gizka á - ætlað n. að misbeita þessu. En nefndin hefir misbeitt þessu. Það var engum til gagns að offylla kjötmarkaðinn hér í Reykjavík. En það hefir leitt af sér stórtjón fyrir þá, sem búa í nágrenni Reykjavíkur og í nærliggjandi héruðum og hafa borgað verðjöfnunargjaldið til verndunar markaði sínum hér í Reykjavík, sér til handa.

Hv. 2. þm. N.-M. las hér upp heillanga runu um það, hvað verðið hefði hækkað á kjötinu. Þeir, sem sæti eiga hér í hv. d. og kunnugleika hafa á hverjum stað, hafa staðið upp og sagt það tilhæfulaus ósannindi. Bæði hefir hv. þm. Borgf. gert það, og hv. þm. V.-Húnv. að því er viðkemur verðlagssvæðinu kringum hann.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að það væri skoplegt, að ég skyldi lesa hér upp verð á kjöti af 12 kindum. eins og það hefði nokkurt gildi sem heildarútkoma. En þetta dæmi er um bónda, sem lagði inn kjöt sitt hjá einu kaupfélagi. Og þetta gildir fyrir allt það kjöt, sem lagt var inn hjá því kaupfélagi. Þetta dæmi sýndi, að bóndi þessi fékk til jafnaðar 581/2 eyri pr. kg. fyrir sitt kjöt. Ég býst við, að útkoman hafi verið svipuð hjá öðrum. Vitanlega er þetta áætlað verð, og við það bætist svo uppbót, bæði verðjöfnunargjald og uppbót, sem fékkst með ríkissjóðsstyrknum.

Ég vil leggja áherzlu á það, að þótt allur söngur hv. 2. þm. N.-M. hefði verið réttur, þá miðaðist hann eingöngu við útflutt kjöt. En verðinu á útlenda markaðinum ráðum við ekki. Eða heldur sá hv. þm., að verðhækkunin á erlenda markaðinum nú stafi frá kjötlögunum? Hér kemur fram hjá þessum hv. þm. annaðhvort skilningsleysi eða að hér er um útúrsnúning að ræða. Það er innlenda verðið, sem átti að hafa vald yfir með kjötlögunum. Og mínar brtt. eru stílaðar til þess, að það geti gengið sem jafnast yfir.

Ég veit ekki, hvort það er þess vert að eyða orðum að því, sem þessi hv. þm. sagði um neytendafélagsskapinn hér í Reykjavík. Þeir hljóta að vera meiri málamenn en ég, sem hafa skilið hv. þm., þegar hann var að skýra frá samtalinu, sem hann gat um. Og hitt þykir mér jafnlíklegt, að hann hafi sjálfur ekki skilið rétt manninn, sem hann þóttist hafa átt tal við, eða þá að hv. þm. blandi þar dálítið málum, þar sem hann er einn til frásagna. Það er ekki í fyrsta sinn nú, að það er sagt, að sjálfstæðismenn hafi myndað samtök um að hætta að borða kjöt. Þessi rógur held ég að hafi komið fyrst í blöðum Framsfl., og var hann vitanlega tilraun til að rægja sjálfstæðismenn úti um sveitir landsins. Þessi rógur er nú löngu dautt mál.

Mér þykir ekkert undarlegt, þó að menn vilji hafa að viðskiptamönnum vini sína. Ég vil heldur skipta við vandaðan mann og góðan heldur en mann, sem ég ekkert þekki eða ég þekki að hinu gagnstæða. Nú er það svo, að flestir þeir góðu viðskiptamenn, sem ég þekki og hér koma til greina, eru í Sjálfstfl., af því að ég er kunnugastur mönnum í þeim flokki. Ég hefi fengið kjöt frá sjálfstæðismönnum og mun gera það, svo lengi sem ég hefi tök á. Ég vil hafa þessi viðskipti frjáls, því að ég er viss um, að það mundi stórum auka kjötneyzlu í landinn, ef neytendurnir fengju að velja sér sjálfir viðskiptamenn.

Það væri æskilegt, að hv. 2. þm. N.-M. og aðrir þeir, sem eru á móti mínum brtt., reyndu að sanna, að möguleikum kjötlaganna til þeirrar gagnsemi, sem þeim er ætlað að koma til leiðar, verði að einhverju leyti raskað með því að samþ. þessar breyt. á l. Það er málið, sem hér er um að ræða, en ekki verðlag á erlendum markaði. Hv. 2. þm. N.-M. verður þá að sýna fram á, að það verði til hins lakara, að Búnaðarfélag Íslands og bæjarstjórn eða sveitarstjórn ráði menn í kjötverðlagsn., í staðinn fyrir iðnaðarmannasambandið og Alþýðusamband Íslands, og að það verði til þess, að innanlandsmarkaðurinn notist verr. Hann verður þá einnig að sýna, að frjáls verzlun, bein sala án milliliða, verði til þess, að markaðurinn innlendi notist verr en ella. Hv. þm. verður ennfremur að sýna fram á, að það spilli notkun innanlandsmarkaðarins, að menn borgi misjafnlega hátt verðjöfnunargjald, eftir því hvað þeim er skammtaður góður markaður. Ennfremur, ef þessi hv. þm. vill, að brtt. mínar verði felldar, verður hann að sýna fram á, að það gæti orðið til tjóns á einn eða annan hátt, ef það væri lögfest, að þess skyldi fyllilega gætt, að markaðurinn fyrir kjötið væri hvergi á landinu offylltur. Það var hinn upphaflegi tilgangur þessarar lagasetningar að byggja fyrir, að kjötverðið á innlendum markaði félli við það, að markaðurinn á einstökum stöðum á landinu, og þá ekki sízt hér í Rvík, yrði ofhlaðinn. En slíkt hefir þó átt sér stað. Það er sannað, að kjötmarkaðurinn hefir verið offylltur hér í Rvík nú, eftir það, að kjötsölulögin komu til framkvæmda.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði hér um skipun kjötverðlagsnefndar, vildi ég bæta því við, að mér er það ekkert sérstakt kappsmál, hvort bændur skipi einir alla stjórnarnefndarmennina, eða þetta verður haft eins og ég legg til að verði. En ef bændur ráða vali þeirra allra einir, þá eiga þeir auðvitað að bera kostnaðinn einir af þessari stjórnarnefnd. En ef ríkisstj. á mikla hlutdeild í tilnefningu þeirra, þá á að greiða kostnaðinn af ríkisfé.

Hv. þm. V.- Húnv. setti út á þá till. mína, að haga skuli verðuppbót á útflutt kjöt þannig, að útflytjendur fái jafnhátt nettóverð fyrir kjöt, sem er jafngott að uppruna, hvort sem það er kælt, fryst eða saltað. Sagði hann, að með því væri því kjöti, sem saltað er, gert of hátt undir höfði. En kjötverðlagsn. hefir framkvæmt kjötlögin þannig, að hún hefir leyft mönnum, sem enga aðstöðu hafa til að frysta kjöt sitt, að selja 25-30% af því innanlands. Hitt verða þeir að salta til útflutnings. En af því að saltkjötsverðið er miklu lægra en verðið á frysta kjötinu, þá er beiting l. á þennan hátt sama sem að taka af þeim slátrunar- og verzlunarleyfi. Þetta er stórkostleg misbeiting l., og fyrir slíkt verður að girða. Ef þeir, sem hafa jafngott kjöt og hinir, sem selja það fryst á erlendum markaði, eru neyddir til að selja það saltað á útlendum markaði, þá eiga þeir að fá þeim mun meiri uppbót, að þeir fái jafnhátt nettóverð fyrir sitt kjöt og hinir, sem selja það fryst. Það er fyrir mér aðalatriðið, að menn séu ekki beittir misrétti í þessum sökum.