15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (4188)

161. mál, sláturfjárafurðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það var aðeins lítilsháttar aths., sem ég vildi gera við það, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði út af þeirri aths., sem ég gerði um þá skýrslu, sem hann gerði um verðsamanburð á kjöti 1933 og 1934. Ég hafði talið það víst, að þessi samanburður væri rangur, sérstaklega hvað snerti Hvammstanga.

Ég fékk að sjá bréf, sem hann studdist við, þegar hann staðhæfði, að þessi skýrsla sín væri rétt. Í þessu bréfi er skýrt frá því, að tekin hafi verið upp sú regla, að borga sérstaklega slátrunargjald, sem innleggjendur verða að borga úr sínum reikningi, en áður hefir slátrunarkostnaður verið færður inn sem hver annar kostnaður við kjötframleiðsluna. Það er því enginn vafi, að sú staðhæfing mín er rétt, að kjötverðið til framleiðenda hafi verið lægra 1934 en 1933. En eins og ég tók áður fram og vil endurtaka nú, þá er þetta frá mínu sjónarmiði engin ásökun á hendur n. um framkvæmd l., og því síður árás á l. sjálf, því að það er svo, að kjötlögin geta ekki fullnægt þeirri þörf framleiðenda að fá tilkostnaðarverð endurgreitt, og hækkun getur ekki heldur komið til greina, ef verð á útfluttu kjöti er mun lægra. Það er svo þýðingarmikið atriði í þessu efni, að framhjá því verður ekki gengið. Það, sem ég var að benda á í þessu efni, var því aðeins það, að upplýsingar þær, sem hv. þm. gaf, væru ekki réttar, og get ég vel viðurkennt, að hv. þm. væri vorkunn, þó að hann færi þar ekki með rétt mál, vegna þess að hann studdist við plagg, sem hann hafði ekki aðstöðu til að sjá á, að í raun og veru var ekki rétt skýrt þar frá, því að hann tók það fram, að verðmismunurinn hefði orðið 2 aurar, en það var ekki rétt, því að verðið til bænda varð lægra 1934 en 1933.

Ég hefði haft tilhneigingu til að gera nokkuð frekari aths. við þetta. M. a. vil ég benda á það, að árið 1933 var tekið meira af ærkjöti í þessu félagi en árið eftir, og verðlagið á því ærkjöti var óeðlilega hátt, vegna þess að bæði var léleg sala á því, sem út úr landinu var selt, og einnig var það, sem selt var hér á landi, selt með sáralágu verði. Varð því skaði á þessu kjöti, sem kom fram í lægra verði á dilkakjöti. Þá má geta þess, að verðið á ærkjöti varð 10 aurum lægra 1934 en árið áður, og þó að það sé ekki mikil upphæð á þessa vörutegund, þá miðar það þó allt á sömu hlið, til þess að draga úr verðinu til bænda árið 1934 miðað við árið 1933. Ég vil einnig taka það fram, að mér liggur við að ætla, þó að mér sé ekki vel kunnugt um það, að styrkurinn frá ríkissjóði hafi komið fram á árinu 1934, en ekki 1933.