15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (4190)

161. mál, sláturfjárafurðir

Páll Zóphóníasson:

Það er í raun og veru ekki ýkjamikið, sem ég þarf að svara hv. þm. Borgf., því hann var með tómar fullyrðingar og engar sannanir. En áður en ég byrja að svara honum, langar mig til þess að spyrja hann að einn, og ég gef honum leyfi til þess að grípa fram í. Hvað seljast venjulega mörg tonn af kjöti á Reykjavíkurmarkaðinum frá þessum tíma og þangað til í júnímánuði? Hvað eru þau mörg? - Hv. þm. getur ekki svarað, og þó leyfir hann sér að vera með fullyrðingar um það, sem hann hefir enga hugmynd um. Það er von, að hv. þm. og áheyrendur hlægi að flónsku hans og ráðaleysi nú, þá sýnt er af honum sjálfum, að hann veit ekkert um það, sem hann hefir talað um hér í deildinni og byggt á mikið af kröfum sínum og fullyrðingum. Svona er þessi hv. þm.; hann fullyrðir og fullyrðir og kemur með staðhæfingar, en reynir ekki að færa nokkur rök fyrir þeim.

Það eru nú til í landinu 710,5 tonn af freðdilkakjöti og 16i,5 tonn af geldfjárkjöti, sem ætlað er til sölu í landinu. Þetta er 100-200 tonnum minna heldur en seldist í landinu í fyrra, og birgðirnar, sem liggja fyrir í Rvík, er 2 mánaða minni forði heldur en seldist í Rvík í fyrra. Hv. þm. Borgf. getur komið með nýjar tölur, ef hann vill, en þetta er sannleikur. Og stafar það að nokkru leyti af því, að slátrað hefir verið 40 þús. fjár færra nú í ár heldur en í fyrra. Það er rétt, að minna var slátrað hjá Sláturfél. Suðurl. að tiltölu í sumar en í fyrra, en meira t. d. í Nordalsíshúsi. Ég hefi bent hv. þm. á, að neytendafél. hafi átt sinn þátt í þessu.

Hvort þm. styrkir félagið, veit ég ekki, en að Sjálfstfl. geri það, er sannanlegt, og ég fullyrði, að Sjálfstfl. stóð að þessu, og ég leyfi mér enn að telja hv. þm. Borgf. einn af leiðandi mönnum í þeim flokki. Ennþá leyfi ég mér það, en hvort breyt. verður á því, læt ég ósagt.

Hv. þm. hélt því fram, að hjá mér kæmi í ljós illvilji í garð þeirra félaga, sem selja kjöt sitt á Rvíkurmarkað. En það er nú eitthvað annað. Það, sem ég á einmitt verst með að verja af störfum n., er, að þeim bændum, sem fengu mest verð heim til sín í fyrra, skyldi ekki vera leyft að selja allt sitt kjöt á þennan markað. Engu að síður ætla ég að reyna það á þeim grundvelli, að þeir áttu stytzt að flytja og annars hefði orðið mikill aukakostnaður innanlands á flutningi kjötsins, sem mátti spara, og ég vona líka, að félög þeirra geti lagað svo rekstur sinn, að þau verði samkeppnisfær með verð til bænda.

Hv. þm. Borgf. segir, að það hafi verið rétt, að þessi kjötflokkur frá kaupfélaginu í Norður-Þingeyjarsýslu, sem borgaður var út til bænda á 105 aura kg., hafi verið reykt kjöt. Ég geri líka ráð fyrir, að það sé rétt. Ég geri ráð fyrir, að svo hafi verið í þessu eina tilfelli. En þetta kjöt var afreiknað til félagsins eins og annað kjöt, sem selt var á Rvíkurmarkað, á 1 kr. 7,7 aur. Öll sambandsfélögin fengu þetta verð fyrir 1. fl. kjöt, sem S. Í. S. seldi fyrir þau á innlendum markaði, en þar var með dilkakjöt, og skapaði það hækkun á meðalverðinn hjá hverju einstöku félagi, en kom hvergi fram greinilega í verðinu til bænda nema í kaupfél. N.-Þ., þar sem allt kjöt sömu tegundar var selt af S. Í. S. Ef S. Í. S. hefði haft þá aðstöðu að geta látið allt sitt kjöt til sölu, eins og félögin hér syðra, þá hefði það skilað til bænda hærra verði en þau, líklega um 10 aurum.

En sá sorglegi sannleikur er til staðar með þessi félög, að þó að heildsöluverð hér á Reykjavíkurmarkaðinum væri kr. 1,15 og þó að búið væri að taka við kjötinu á því verði og svo leyfð 15% verðhækkun í smásölunni, þá er samt svo mikill kostnaður, sem leggst á það hjá Sláturfél., að það getur ekki svarað til bænda nema 92 og 83 aurum. - Þetta er sá sorglegi sannleikur.

En nú í haust er það í fyrsta skipti, að Sláturfél. Suðurl. hættir að reka starfsemi sína sem kaupmannastarfsemi. Nú um nokkur ár hefir það keypt kjöt af bændum, og haft tap eða hagnað af því, eftir því hvernig salan var. Og hv. þm. Borgf. þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess að finna, að Sláturfél. varð fyrir miklu tapi, af því það gat ekki selt kjötið á veturna fyrir það verð, sem svaraði til þess, er borgað var fyrir kjötið á haustin. Hv. þm. þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna það. En nú er það í fyrsta skipti, sem þetta breytist, og vegna sunnlenzkra bænda vil ég gjarnan spyrja hv. þm. Borgf. að því, hvort bændur eigi ekki víst að fá kjötverðið borgað eins og það verður, eða hvort félagið ætlar að færa það yfir á næsta ár, sem það vanborgar bændum við áætlaða verðinu. Í fyrra - þegar það varð fyrir mestu tapinu, að dómi þm. Borgf. - færði það 17 þús. yfir um áramót sem tapað. Ætlar það nú að færa ágóðann yfir til næsta árs um áramótin, eða borga bændum uppbót? Hún hlýtur að verða nokkuð mikil nú, því það borgar bara 80 aura út, en ætti að geta borgað um 88 minnst. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að áætlaða verðið, sem nú er, myndi vera sama og endanlega verðið, sem bændur fengju. En sú breyt. er einmitt orðin á starfsemi Sláturfél., að það greiðir það verð, sem fyrir kjötið fæst, og endurgreiðir til bænda, ef það fer fram úr áætlaða verðinu. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þessar breyt. á lögunum væru eðlilegar og til mikilla bóta, og hann hélt því fram, að ég hefði alltaf gengið út frá að leggja til, að lögin yrðu felld úr gildi. En það er langt frá því. Ég hefi talað um allar brtt., eða þær þrjár, sem hv. þm. vill gera á l., og ég hefi sýnt fram á, að 2 af þeim eru óframkvæmanlegar, ef að l. yrðu. Önnur er ef til vill ekki óframbærileg, sú, að láta mann koma austan af Norðfirði í byrjun sláturtíðar til að setjast í n., en hún er a. m. k. lítt framkvæmanleg. Ég hefi sýnt fram á, að það er erfitt nú að segja, hvað þau 1103 tonn af freðkjöti, sem eftir er að flytja úf gefa bændum nettó.

Það er sama um saltkjötið, að það er erfitt að segja, fyrir hvaða verð seljast þær á 2. þús. tunnur, sem til eru í landinu. Það er ekki auðvelt að segja fyrirfram, hvað bændur endanlega fá fyrir þær, eða reikna út prósenturnar af nettóverði, sem er óþekkt þegar prósenturnar eiga að reiknast út og borgast, sem sé í sláturtíð að haustinu, eftir frumv. höfundar.

Ég vil ennfremur benda á 3. brtt., sem hv. þm. leggur mikið upp úr, að leyfð séu bein viðskipti, og um hana vil ég segja, að hún er ekki til annars en að skapa einstökum bændum sérréttindi, láta nokkra menn sitja að hærra verði, en láta hina fá lága verðið. Það er auðvelt að sýna, að þar er verið að koma á stað misjöfnu kjötverði handa bændum, í stað þess að núv. ástand miðar að því, að allir fái sem jafnast verð. Af þessum ástæðum bað ég hv. 6. þm. Reykv., ef hann væri sá drengskaparmaður, sem hann hældi sér af um daginn, að hann sýndi drengskap sinn í því að taka aftur þessa brtt. Ég kalla hann dreng góðan, ef hann gerir það.

Annað, sem fram hefir komið við umr., hefi ég hrakið áður, því að þó sagt sé hér á Alþ., að eitthvað sé svo eða svo, eða eins og krakkar segja, „af því“, þá er ég ekki að eltast við það. (HannJ: Vill hv. þm. vefengja það, sem ég sagði um samanburð hans?). Hv. þm. N.-Húnv. veit, að stjórn kaupfélags Húnvetninga hefir gefið upp þetta verð, sem ég nefndi. (HannJ: En það er rangt). Ég get ekki sagt um það, hvort stjórn kaupfél. hefir gefið mér rangar skýrslur. En hv. þm. hefir sjálfur séð bréfið og veit, að það, sem ég sagði, er rétt. (HannJ: En niðurstaðan verður samt röng).

Kjósendaræðu þm. Mýr., sem vitanlega var flutt fyrir þá kjósendur hans, sem hér eru nú á pöllunum, sé ég ekki ástæðu til að svara sérstaklega.