15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (4193)

161. mál, sláturfjárafurðir

Páll Zóphóníasson:

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði síðast, langar mig til að spyrja hann einnar spurningar og vita, hvort hann vill svara mér eða ekki. Hann hefir ekki svarað því áður. Ég sagði, að Sláturfél. Suðurl. hefði breytt um starfsaðferðir, og það hefði áður starfað á kaupmannsgrundvelli. Hv. þm. mótmælti því og sagði, að það hefði ekki starfað áður sem kaupmaður. Þetta er vitleysa, því að það hefir rekið verzlun sína með tapi eða ágóða undanfarið, eftir því hvernig salan hefir gengið, - keypt kjötið ákveðnu verði á haustin, og aldrei borgað það eins og það sýndi sig að það varð að sölu lokinni. Nú hefir það áætlað verð á kjöti svo lágt, að það geti borgað bændum uppbót síðar. Ef það hefir ekki breytt um starfsaðferðir, þá er mér nú spurn: Ætlar félagið að starfa áfram eins og kaupmaður, og eiga bændur þá ekki að fá þá uppbót, sem þeim hefir verið lofuð? - Mér er spurn: Á það að verða þannig?