15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (4195)

161. mál, sláturfjárafurðir

Gísli Guðmundsson:

Hv. þm. Borgf. hefir flutt tvær ræður síðan ég talaði áðan, og hefir mælzt skörulega eins og hans er vandi, - a. m. k. talaði hann í fullri hæð. En þrátt fyrir það hefir honum ekki unnizt tími til þess að svara fyrirspurninni, sem ég gerði til hans og taldi eðlilegt fyrir hann að svara, - nefnilega hverjir hefðu ráðið kjötverðinu á innlenda markaðnum áður en kjötlögin komu. Ég bar fram þessa spurningu í tilefni af því, að hv. 6. þm. Reykv. hafði lagt mikla áherzlu á það, að áður en kjötlögin komu hefðu félög bænda á Suðurlandi ráðið þessu verði. Ég benti á, að einmitt þá hefði verðið verið miklum mun lægra en síðan kjötl. komu. Því spurði ég hv. þm. Borgf., hvort rétt hafi verið hjá hv. 6. þm. Reykv., að bændur hefðu virkilega sjálfir ákveðið verðið. Hv. þm. Borgf. vildi ekki svara þessu, en sagði, að ég skyldi spyrja hv. 6. þm. Reykv. um það. Ég gerði það ekki, því að ég bjóst við, að hv. þm. Borgf. myndi vita þetta betur en hv. 6. þm. Reykv. Urðu mér það vonbrigði, að hv. þm. svaraði ekki. En ég veit raunar, af hverju tregða hv. þm. stafar.

Ég verð að segja það út af þeim umr., sem fram hafa farið upp á síðkastið, að mér þykir það undarleg staðhæfing hjá hv. þm., þegar hann talar um illvilja hjá þeim mönnum, sem eru að hreyfa því, að rétt væri að vinna að því, að færa niður sölukostnað hjá félögum bænda. Það er illvilji af einkennilegu tægi. Ég minnist þess, að hv. þm. Borgf. hefir talað mjög mikið um það á mannamótum, að hann vilji færa niður rekstrarkostnað ríkisins. Er það af illvilja í garð þjóðarinnar? Ég hefi ekki álitið þetta tal hans af illvilja sprottið, en samkv. hans orðum áðan má álykta sem svo.

Hv. þm. virðist viðurkenna, að kjötframleiðslan sunnanlands fullnægi ekki Reykjavíkurmarkaðnum, og þess vegna álítur hann óhjákvæmilegt að flytja að eitthvað af kjöti frá öðrum verðlagssvæðum, en þó ekki fyrr - segir hann - en séð er, hve miklu Reykjavíkurmarkaður tekur við af kjöti, sem framleitt er sunnanlands. Eftir því mætti ekki flytja neitt kjöt af öðrum verðlagssvæðum hingað fyrr en komið er það langt, að hægt er að sjá, hvað selzt hefir á markaðnum hér, því að eftir framkomnum upplýsingum liggja ekki fyrir ákveðnar tölum um það, hvers Rvíkurmarkaður þarfnast af kjöti. Hv. þm. Borgf. var spurður mörgum sinnum um það áðan, hvort honum væri kunnugt um þetta, eða hvort hann hefir gert nokkra rannsókn í þessu efni; og hann gat ekki svarað. Það er ekki von. Hann veit það ekki, og menn vita það yfirleitt ekki. Það liggja engar rannsóknir fyrir. Þess vegna verður kjötverðlagsnefnd að fara eftir áætlun, hugsa sér fyrirfram, hve mikið muni seljast á þessum markaði. Er augljóst, að óþörf eru stóryrði til ámælis í garð kjötverðlagsn., sem hefir þá eina aðferð, sem henni er skylt og hægt er að hafa.

Annars efa ég, að hv. þm. Borgf. geri bændum greiða með því að ræða þetta mál á þann hátt, sem hann gerir. Hann þykist tala sem fulltrúi þeirra og gerir það með hávaða og æsingu. Bændur eru hvorki hávaða- eða æsingamenn.

Þeir vilja láta ræða málin með rósemi og stillingu og að rök séu borin fram, en ekki tóm stóryrði né hávaði.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði út af orðum mínum áðan, að ef hann hefði ráðizt á hagsmuni norðlenzkra bænda í þessu máli, þá hafi hann gert það óvitandi. Ég skal náttúrlega taka það gilt sem afsökun af hans hálfu, að þau skaðræðisverk, sem hann hefir framið í þessu máli, hafi verið framin óafvitandi. Annars er það ekki í fyrsta sinni með flutningi þessa frv., sem þessi hv. þm. hefir ráðizt á hagsmuni manna í þessum landshlutum. Ég minnist þess, að bæði hann og flokksmenn hans héldu ýmsar ræður í fyrravetur á Suðurlandi um það, að það væri ákaflega óréttlátt, að sunnlenzkir bændur, sem aðallega nota sunnlenzka markaðinn, borga verðjöfnunargjald. Rökin voru þau, að það munaði svo miklu á kostnaði við að framleiða kjöt á Suðurlandi og Norðurlandi. T. d. sagði hv. 6. þm. Reykv. í þessum umr., að í einu sérstöku héraði, sem ég er kunnugur, væri framleiðsla á kindakjöti svo auðveld, að flest ár kæmu þessar skepnur ekki í hús, og þyrfti ekki að kosta neinu til þeirra. Svo vildi til, að við vorum seinna saman á fundi í þessu héraði, og minnti ég þm. á þau orð, sem hann hafði talað í fjarlægðinni, og óskaði eftir, að hann bæri sig saman við bændur um það, hvort hann hafi hermt rétt. Þá brá svo undarlega við, að hann fór hjá sér og vildi ekkert úr því gera, að hann hefði nein slík ummæli látið sér um munn fara, a. m. k. hefði hann þá gert það óafvitandi. Og þannig fór það þá, að hann færðist undan því að standa reikningsskap á þessum ummælum sínum. En mér finnst, að þetta hefði átt að kenna þessum hv. þm., að hann ætti ekki yfirleitt að halda þessari starfsemi sinni áfram, - að það er yfirleitt ekki ástæða til að sýna norðlenzkum bændum sérstakan fjandskap.