15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (4196)

161. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég ætla bara að segja hv. þm. N.-Þ. það, að honum ferst ákaflega illa að gerast siðameistari í þessari hv. deild og tala til manna um það, hvernig þeir skuli haga framkomu sinni. Ég hefi áður við annað tækifæri bent á, að honum ferst þetta e. t. v. allra manna verst.

Það getur verið, að ég misskilji þá fyrirspurn, sem hann segist hafa borið fram út af orðum hv. 6. þm. Reykv. En það er ekki þannig, að ég vilji ekki svara þessu. Ég er reiðubúinn til þess. Það er rétt, að bændur hafa haft á Rvíkurmarkaði ákvörðunarrétt um útsöluverð um langt skeið, allar götur frá 1907. Verðið hefir verið mismunandi hátt, eftir því, hver aðstaðan hefir verið til sölu á innanlandsmarkaði. Nú var það svo 1932, að verðið komst þá einna mest niður á erlendum markaði, t. d. á frystu kjöti. Og m. a. varð afleiðing þess, að verð á innanlandsmarkaði lækkaði nokkuð árið 1933. Og þá voru það vitanlega sömu bændurnir, sem ákváðu verðið. Verðið hefir sem sagt gengið upp og niður eftir atvikum. Ég hefi aldrei mælt á móti því. Og á því byggist minn stuðningur við kjötsölulögin, að ég vildi veita framleiðendum aðstoð til að halda verðinu jöfnu, eða jafnara en ef slík l. ekki væru til. Þess vegna þarf ekki að toga úr mér neina viðurkenningu þess, að kjötlögin hafi veitt stuðning í þessu efni, enda er ég stuðningsmaður þeirra l. Það eina, sem ég átaldi kjötverðlagsn. fyrir, er það, að hún hefir dregið niður verðið bjá þeim bændum, sem selja á Rvíkurmarkaði, frá því, sem ákveðið var um haustið, með þeim ráðstöfunum, sem ég lýsti.

Hv. þm. þóttist hneykslast á því, að ég hefði beint til hv. 2. þm. N.-M., að hann hefði sýnt illvilja til þessara félaga. Ég hefi ekki beint neinu slíku til hv. þm. N.-Þ., og var ástæðulaust fyrir hann að taka upp þykkjuna fyrir hv. 2. þm. N.- M. En orð mín voru rökstudd fullkomlega, og þarf engu við að bæta.

Hv. þm. kvað ekki hægt fyrr en löngu seinna að sjá fyrir, hvað mikið þyrfti að flytja á Rvíkurmarkað til viðbótar því, sem fyrir væri. En þetta er rangt. Strax þegar áætlað er í félögunum um slátrun á haustin, er hægt að sjá, hve mikil hún muni vera á þessu svæði. Í lok sept. og byrjun okt. er hægt að sjá nokkurn veginn með vissu, hvað þurfi að flytja á markaðinn til viðbótar. Þess vegna var tal þm. um þetta einskis virði. - Fleira þarf ég víst ekki að taka fram út af orðum hv. þm. N.-Þ.