15.11.1935
Neðri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í C-deild Alþingistíðinda. (4197)

161. mál, sláturfjárafurðir

Flm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Af því að hv. þm. N.-Þ. beindi til mín sérstökum orðum persónulega, stend ég upp. Ég ætlaði raunar að biðja um orðið til þess að segja mína skoðun um það, sem hv. þm. Borgf. hefir nú svarað, en þarf þess ekki frekar.

Ég hélt nú sannast að segja, að það væri alveg nóg fyrir þennan hv. þm. að bera fram sína þingmannlegu hryggðarmynd, þó að hann ekki drægi fram þá hryggðarmynd, sem hann hefir gefið á fundum utan þings. Hann þóttist herma það, sem ég sagði á fundi við sunnlenzka bændur. Ég hefi aldrei verið á fundi með þessum þm. með sunnlenzkum bændum. En þennan tilbúna þvætting bar hann á borð í Þingeyjarsýslu sér til framdráttar. Á fundi á Suðurlandi sagði ég það, sem ég hefi alstaðar sagt, að verðjöfnunargjaldið eigi því aðeins rétt á sér, að eitthvað komi á móti. Það vita allir, að verðjöfnunargjaldið er endurgreiðsla fyrir innlenda markaðinn. En ég hefi sýnt með frv., að ég vil láta það vera óbreytt á Suðurlandi, gegn því, að Sunnlendingar njóta nokkurrar verndar á markaðnum. Þetta hefi ég sagt sunnlenzkum bændum, og ekkert annað. Og ég get bætt við, að flestir bændur, sem ég hefi talað við, eru vel tilleiðanlegir til að borga þetta ríflega verðjöfnunargjald, ef þeir fá forgangsrétt að Rvíkurmarkaði.

Þegar þessi hv. þm. kom til kjósenda sinna, þurfti hann að gylla sig á allan hátt. Ég ámæli honum ekki fyrir það, ég sá þörfina fullkomlega. Það var það helzta, að hann væri svo mikill vinur bænda, - kannske einhver munur eða þessi höfuðfjandi bændanna, - og svo sagði hann sögur um það, hvernig ég hefði rægt bændur og afflutt þá á allan máta. Það var þá þetta, að ég hefði stælt sunnlenzka bændur upp í því að borga ekki verðjöfnunargjald til Norðlendinga, af því að þeir framleiddu kjöt miklu ódýrara. Ég fór nú ekki meir hjá mér en það, að ég bar það undir bændur sjálfa, hvort þeir framleiddu ekki ódýrara kjöt en Sunnlendingar. Auðvitað sagði ég um leið, að það væri ekki nema heilaspuni þessa manns, að ég hefði stælt Sunnlendinga gegn verðjöfnunargjaldi, og ennfremur að ég hefði sagt, að það kæmi aldrei kind í hús í Norður-Þingeyjarsýslu! Ég spurði þá, hvort sanngjarnt væri, að þeir hefðu engu meira fyrir sína vöru, sem framleiddu hana með meiri fyrirhöfn. Ég spurði þá, hvort þeir væru ekki samdóma um það, að ef Sunnlendingar borguðu verðjöfnunargjald, ættu þeir að hafa forgang að Rvíkurmarkaði. Og ég held, að hv. þm. N.-Þ. hafi haft hina mestu smán af þessari tilraun sinni til að gylla sig á minn kostnað. En innræti hans leiddi hann út í þá ófæru að ætla að ausa annan mann auri. Ef hann tyllir á sig lánuðum og stolnum fjöðrum, virði ég honum það til vorkunnar, en hitt verður hann að þola refsingu fyrir, þegar hann slettir úr klaufum sínum á saklausa menn.