08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (4207)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Sigurður Kristjánsson:

Út af síðustu orðum hv. flm., að hann hefði ekki orðið var við það, að frv. okkar í fyrra hefði átt að vera til þess að halda við togaraútgerðinni, heldur hefði það miðað að því einu að halda útgerðarmönnunum við. Vil ég segja það, að ég fæ ekki séð, hvernig á að efla útgerð án einhverra útgerðarmanna. Þetta sýnir berlega, að það er ekki hægt að koma því inn í hugsunarhátt þessa hv. þm., að það sé nauðsynlegt að efla atvinnurekstur án tillits til þess, hverjir reki hann. Það, sem vakti fyrir okkur flm. frv. í fyrra, var það, að efla lánsstofnun, svo hægt yrði að endurnýja veiðiskipin, bæði stór og smá. Að auka skipastólinn frá því sem hann er nú, vakti ekki fyrir okkur, heldur aðeins að halda honum við, og auka hann svo smátt og smátt, eftir því sem þörfin fyrir aukningu hans kynni að skapast. En það, sem fyrir hv. flm. virðist vaka, er bein aukning veiðiflotans, en til þess að hún geti talizt nauðsynleg, verður það jafnframt að liggja fyrir, að hægt sé að koma hinni auknu framleiðslu í verð.

Að síðustu get ég ekki látið vera að láta í ljós vanþóknun mína á þeim loddaraleik, sem flm. frv. þessa eru að leika. Þeir hljóta að sjá það mennirnir, að þeir standa sem afhjúpaðir loddarar fyrir þingheimi, því að það er öllum ljóst, að það er ekki af umhyggju fyrir útgerðinni, að þeir bera frv. þetta fram. Hér er aðeins um pólitíska varnarráðstöfun að ræða. Þeir halda, þeir góðu menn, að nú reki að því, að það fari að slitna upp úr vinskapnum á kærleiksheimilinu, og sú stund nálgist, að þeir þurfi að ganga til nýrra kosninga, og því sé betra að hafa æft eitthvert loddaraleikrit til þess að leika við það tækifæri.