08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (4216)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. talaði hér alllangt mál og lagði mikla áherzlu á það, að samvinnufélag Ísfirðinga væri atvinnubótafyrirtæki og til þess hefði verið stofnað sem atvinnubóta. Það kann að mega kalla það svo. En mér skilst, að honum sé nú mjög umhugað um að kalla það svo, vegna þess hvernig það er farið. Hann vill kalla það atvinnubótafyrirtæki af því, að allir sjá nú, að útvegurinn á við fleiri örðugleika að stríða heldur en hv. flm. þessa frv. og þeirra flokksmenn vilja viðurkenna. Það mætti með sama rétti kalla öll slík fyrirtæki atvinnubótafyrirtæki, þar sem þau láta mönnum í té atvinnu. Það mun nú vera einsdæmi, að nokkurt bátafélag sé stofnað með eins miklum ríkisstyrk og samvinnufélag Ísfirðinga. Í fjárl. fyrir árið 1928 segir, „að stj. sé heimilt að ganga í ábyrgð fyrir lánum til félagsmanna í samvinnufélagi Ísfirðinga til kaupa á fiskiskipum, samtals allt að 320 þús. kr., enda nemi lánin eigi meiru en 4/5 af kaupverði skipanna fullbúinna til fiskiveiða“. Ég ber þetta saman við það, þegar einstaklingar eða félög hafa knúð út úr fiskveiðasjóði dálitla upphæð af því litla fé, sem hann hefir til umráða, til bátakaupa, og þessa 4/5, sem ríkið ætlaði að ábyrgjast til þess að koma samvinnufélagi Ísfirðinga á fót. Hitt er annað mál, að ríkissjóður mun nú vera kominn í borgunaraðstöðu og verður að standa skil á ábyrgðinni. Hv. þm. vildi leggja áherzlu á, að þetta væri atvinnubótafyrirtæki. Ég tel þetta ekki frekar atvinnubótafyrirtæki heldur en hvert annað mótorbátafélag á landinu. Það gefur ekkert meira af sér fyrir sjómenn að vinna hjá þessu félagi en annarsstaðar.

Hv. þm. minntist á það, að menn hefðu flúið af Ísafirði og skilið bændur eftir á heljarþröminni. En hvers vegna flúðu menn af Ísafirði? Það var af skilningsleysi þeirra manna, sem voru þar við stjórn. Það var af því, að þeir menn, sem voru þar við stjórn, sýndu svo lítinn skilning á þörfum manna, að þeir gátu ekki haldizt þar við. Og svo mun verða þegar menn treystast ekki lengur til þess að standa undir því, sem á þá er lagt, að þá munu þeir verða að gefast upp. En hjá sósíalistum er hugsunarhátturinn sá, að stofna til félagsskapar og gerast forstjóri fyrir honum, en forstjórinn vill aldrei vera í persónulegri ábyrgð fyrir félagið. En það er almennt svo, að þeir atvinnurekendur, sem ekki hafa þennan sósíalistahugsunarhátt, eru, eins og hv. þm. G.-K. lýsti því, með allar sínar eignir í ábyrgð fyrir því, sem þeir skulda. Ég veit, að á þeim þrengingartímum, sem nú eru, er aðstaðan betri fyrir þá, sem eiga fjármuni sína tryggða, heldur en hina, sem leggja allt í hættu. En það er ólíkt heilbrigðari sá hugsunarhátturinn, þar sem atvinnurekandinn leggur út á djúpið og hefir á herðum sér fulla ábyrgð, en lætur ekki allt skella á bænum eða ríkinu.

Hv. þm. Ísaf. hafði alllangan formála fyrir máli sínu og var þar aðallega stefnt að öðrum hv. þdm., en með því að hann mun nú vera búinn að tala sig dauðan, en ef um nokkra sök er að ræða, þá hvílir hún eins þungt á mér og hv. 6. þm. Reykv., þar sem ég var einn af flm. að frv. því, sem hv. þm. Ísaf. gagnrýndi með mikilli frekju, en minni skilningi og ennþá minni sanngirni. Þetta frv. er frv. um fiskveiðasjóð Íslands, sem ég var flm. að ásamt 6 flokksbræðrum mínum á þinginu 1934. Í því frv. kom fram viðurkenning á þeirri þörf, sem virðist nú almennt viðurkennd, að það þurfi að sjá fyrir því, að báta- og togaraflotinn sé endurnýjaður. Þar er bent á leið og lögð drög að endurnýjun togaraflotans. Um þetta segir hv. þm. Ísaf., að það sjáist nú bezt, hvað hv. 6. þm. Reykv. risti grunnt, þegar hann sé að tala um þetta frv. sem nokkra meinabót, og hvað hann sé heill í garð útgerðarinnar, þegar hann sé að benda á frv. um fiskveiðasjóð sem hjálparhellu í þessu efni, vegna þess að það sé tekið fram í frv., að hámark lánveitinga má ekki fara fram úr 30 þús. krónum. Hann sagði, að allir sæju, hvað það myndi hjálpa til þess að endurnýja togaraflotann. Hv. þm. Ísaf. hefir gert sig sekan í því að fara hér með rangt mál. Frv. um fiskveiðasjóð var flutt samhliða öðru frv., um skuldaskilasjóð. Þessi frv. fara fram á þær leiðir m. a. að taka um visst árabil útflutningsgjaldið af sjávarafurðum og láta það fyrstu 6 árin renna í sjóð til þess að efla skuldaskilasjóðinn, en síðan átti það að renna í 10 ár í fiskveiðasjóð Íslands. Frv. um fiskveiðasjóð Íslands var miðað við næsta tímabilið, þegar útflutningsgjaldið átti ekki að renna í skuldaskilasjóðinn, heldur fiskveiðasjóð Íslands. Og hámarkið, sem nefnt er í frv., var miðað við vélbátana, því frv. var samið með þá bráðaþörf fyrir augum að hjálpa upp á vélbátaflotann, og með tilliti til þeirrar þarfar var ætlazt til þess, að útflutningsgjaldið kæmi ekki fyrstu 6 árin í fiskveiðasjóð. Um þetta segir svo í grg. fyrir frv. til l. um fiskveiðasjóð Íslands:

„Ekkert vit er í því að loka augunum fyrir þeim háska, sem þarna blasir við. Verður ekki séð, að annað ráð sé tiltækilegra til þess að forðast þann ófarnað en að efla lánsstofnun, sem veitt gæti hagfelld lán til endurnýjunar flotans. Virðist ekkert eðlilegra en að útgerðinni sjálfri sé leyft að vinna þetta nauðsynjaverk, ef hún reynist þess megnug. Nefndin leggur því til, að útflutningsgjaldið af sjávarafurðum verði í 10 ár látið renna í fiskveiðasjóð. Gert er ráð fyrir, að útflutningsgjaldið verði ekki undir 750 þús. kr. á ári, eða 71/2 milljón króna í 10 ár. Með þessu móti telur nefndin, að fiskveiðasjóður mundi verða fær um að annast stofnlánastarfsemi allrar útgerðar landsmanna. En með því að nefndin hefir í öðru frv. gert ráð fyrir því, að gjald þetta verði næstu 6 ár notað til skuldaskila og fjárhagslegrar viðreisnar útgerðinni, þá er ekki reiknað með því, að fiskveiðasjóður fái þessar tekjur fyrr en að liðnum þeim sex árum, eða í fyrsta sinn árið 1941. Ætlazt er til þess, að nánari fyrirmæli um tilhögun lána til togara og línugufuskipa verði sett í viðbótarreglugerð, er gefin verður út um leið og sjóðurinn verður fær um að hefja þessa grein lánastarfseminnar.“

Það er skýrt tekið fram, að flm. hafi af ásettu ráði ekki sett ákvæði í frv. um lán til línuveiðagufuskipa eða togara, en það er gert ráð fyrir, að það verði gert, þegar fiskveiðasjóður fer að njóta tekna af fé því, sem lagt var til, að hann yrði aðnjótandi næstu 10 árin. Hv. þm. Ísaf. hefir því gert sig sekan í því að fara með villandi staðhæfingar og rangar getsakir í garð okkar, sem fluttum frv.