08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (4219)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég heyrði að vísu ekki niðurlagsorð hv. þm. Hafnf., en mér hefir skilizt, að það hafi verið ádeila á okkur, sem fluttum frv. um fiskveiðasjóð 1934. Till. okkar hafi átt að koma of seint til framkvæmda, — þær hafi ekki verið nógu fljótvirkar. Það getur vel verið, að ganga hefði mátt lengra en þar var gert. En þess ber að gæta, að með frv. þessu voru aðeins lögð drög að málinu, en það var á valdi þingsins, og þá sérstaklega meiri hl., að láta ganga lengra, gera það öflugra og fljótvirkara en við gerðum. En ég varð ekki var við, þegar þessi mál voru rædd, að t. d. flokksmenn hv. þm. Hafnf. bæru sérstaklega fyrir brjósti till. þær eða það, sem laut að stórútgerðinni. Það er öllum vitanlegt, að með öðru frv., um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, útilokuðu stjórnarflokkarnir stórútgerðina algerlega frá öllum stuðningi, en létu þessa löggjöf aðeins ná til vélbátaflotans, en því miður kemur í ljós, að þau eru svo illa úr garði gerð, að þau koma fáum einum að notum. Ásakanir í okkar garð eru því ekki réttmætar, en hv. þm. Hafnf. ætti að beina þeim til sinna eigin flokksmanna, því þaðan hefir fjandskapurinn komið berast í ljós gegn togaraútgerðinni, sem þeir e. t. v. eru að éta ofan í sig með þessu frv., sem eins og hv. þm. G.-K. sagði er nýtt viðhorf þeirra manna. Við litum jafnt í þessum málum til vélbátaútvegsins og togaranna og þurfum því engan kinnroða að bera fyrir ásökunum þeim, sem hv. þm. Hafnf. beindi hér til okkar. Það var á valdi hans og hans flokksmanna að bæta úr, en það hafa þeir ekki gert.