14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (4235)

168. mál, fiskimálanefnd

Sigurður Kristjánsson:

Það er engin ástæða fyrir hv. 2. þm. Reykv. að halda því fram, að við viljum ekki spara, þótt forstjórarnir séu hátt launaðir og starfsfólkið margt. Flm. þessa frv. vildu aldrei hafa svo fjölmenna stjórn. (HV: Stjórnarnefndin hefir engin laun tekið ennþá. Hv. 6. þm. Reykv. vildi ekki að forstjórarnir hefðu lægri laun en þetta). Það er rétt, að ég vil launa forstjórum samlagsins vel, en ég vil hinsvegar ekki safna neinu óþarfa rusli kringum þá stofnun. Ég veit ekki betur en að auk þess, sem hv. 2. þm. Reykv. tekur yfir 5000 kr. í fiskimálanefnd fyrir að „leiðbeina“ um málefni fiskeigenda, ætlist hann einnig til ríflegra launa fyrir að eiga sæti í stjórnarnefnd S. Í. F. Þó hefi ég aldrei heyrt, að útgerðarmenn hafi sótzt eftir fiskimálaþekkingu þessa manns. Honum væri því bezt að líta í sinn eiginn barm og þeirrar stjórnar, sem hrúgað hefir alóþörfum mönnum kringum þessa stofnun.