20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í C-deild Alþingistíðinda. (4254)

175. mál, landssmiðja

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti. Ég sá, að enginn hafði kvatt sér hljóðs, en ég vil ekki, að málið fari til 2. umr. án þess að bornar séu fram nokkrar aths. við það. Það er sýnilega tilgangurinn að gera að voldugu ríkisfyrirtæki þessa litlu landssmiðju, sem sett var upp hér á árunum að tilhlutun vegamálastjóra til að annast ýmiskonar smásmiði, og nú á síðari árum stærri smiði, svo sem brúarsmiði. Nú á að gera þessa smiðju á sósíalistiska vísu að voldugu fyrirtæki ríkisins, sem smám saman á að leggja undir sig alla vinnu á þessu sviði. Í fyrsta lagi á að skylda allar ríkisstofnanir til að skipta við þessa smiðju, og í öðru lagi öll þau fyrirtæki, sem njóta nokkurs ríkisstyrks. Þar sem í 1. gr. frv. segir: „Ríkisstj. lætur starfrækja smiðju . . .“, eru allar líkur til, ef smiðjan fær ekki nóg að starfa, að tekin verði upp svo öflug samkeppni við önnur samskonar fyrirtæki, að þau geti ekki staðizt. — Hv. frsm. hugsar sér þetta sem einskonar sjálfseignarfyrirtæki, einskonar syndikalistískt fyrirtæki, því að frv. ætlast til, að þeir, sem þarna vinna, geti smám saman orðið eigendur þess, og er í sjálfu sér ekkert við því að segja, nema það, að það er ekki í verkahring ríkisins að stuðla sérstaklega að slíku.

Það er full ástæða til, að þetta frv. fari í fleiri n. en iðnn., því að þetta er ekki eingöngu iðnaðarmál, heldur líka fjárhagsmál, frá sjónarmiði ríkissjóðs að minnsta kosti. Með þessu lagi verður að gera ráð fyrir því, að ef þetta fyrirtæki verður gert að stórri stofnun, þá komi fljótt að því, að hún verði að vera sér úti um önnur verkefni en þau, sem eru á vegum ríkisins. Það má því gera ráð fyrir, að þarna verði fjöldi starfsmanna, sem ekki hefir nægilega vinnu í þarfir ríkisins. Það er allt annað að reka lítið fyrirtæki með þarfir ríkisins fyrir augum, og má þá hafa nægilegt verkefni handa nokkrum mönnum, enda er það allt annað heldur en að sjá stórfyrirtæki fyrir nægilegum verkefnum. Það er stefnt að því hér að gera lítið fyrirtæki að stórfyrirtæki á kostnað ríkisins, og seilast þá svo langt eftir verkefnum, að tekin sé upp hörð samkeppni við aðra, sem reka svipuð fyrirtæki. Annars er hitt fyrir hendi, að það verði ekki nægileg starfræksla nema nokkurn hluta ársins, svo að fyrirtækið geti alls ekki borið sig. Mér virðist, að í grg. frv. sé gert ráð fyrir þessu, því að þar segir: „Virðist það hentug og eðlileg regla, að framleiðslufyrirtæki, er ríkið á eða kann að eignast, séu rekin með þeim hætti, að stjórnendum fyrirtækjanna sé það ljóst, eigi síður en viðskiptamönnum þeirra, að ríkið taki eigi að sér ábyrgð á skuldum þeim, sem fyrirtækin kunna að efna til, heldur séu eignir fyrirtækjanna einar til öryggis greiðslu skuldanna.“ Hér er verið að gefa í skyn, að tilgangurinn sé sá, að reyna að komast hjá því, að ríkissjóður beri ábyrgð á fyrirtækinu, og er hér verið að stefna inn á nýja braut. En mér er sem ég sjái, að til þess komi, að ríkissjóður telji sér ekki skylt að sjá um það, að hver, sem skuld á hjá fyrirtækinu, fái sitt. Enda getur það varla verið, að ríkið láti sig engu skipta, þó að menn tapi fé hjá því fyrirtæki, sem ríkið hefir stofnað. Hér er því farið inn á þá braut, að gera lítið fyrirtæki að stórkostlegu atvinnufyrirtæki, sem ríkið á að bera ábyrgð á, og má telja fyrirsjáanlegt, að þetta fyrirtæki verði baggi á ríkissjóði á sínum tíma. Ég vil benda á, að þetta er ekkert smámál, heldur verulega athugavert mál, og getur orðið stærra en hv. frsm. vill vera láta.