20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (4259)

175. mál, landssmiðja

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég tók svo eftir, að hv. þm. segði í lok ræðu minnar, að það væri ekki meiningin, að landssmiðjan tæki vinnu frá öðrum, eða drægi smiði frá öðrum fyrirtækjum. Er það ekki rétt skilið? (EmJ: Að landssmiðjan stundaði aðallega nýsmíði). En mér skilst, að ýms ákvæði frv. miði að því að ná allri þeirri vinnu, sem hægt er, undir landssmiðjuna. Það er t. d. sagt í frv., að allar ríkisstofnanir skuli skipta við hana um smíði, og í aths. þeim, er fylgja frv., er sagt, að þetta sé ekki alltaf gert nú, en því þurfi að kippa í lag og gera þeim það að skyldu, hvort sem það er hagkvæmara eða ekki. Til hvers er þetta gert, nema til að ná vinnu frá öðrum? Þá er ennfremur í frv. ákvæði um heimild fyrir ráðh. að bindst ríkisstyrk til fyrirtækja þeim skilyrðum, að þau skipti við landssmiðjuna. Til hvers ætli það sé gert, nema til að ná vinnu frá öðrum? Þá talar hann fagurlega um, að bæta þurfi aðstöðu landssmiðjunnar til þess að hún geti orðið samkeppnisfær, — en til hvers er þá verið að setja öll þessi ákvæði? Ég vil því eindregið mælast til þess við hv. frsm., að hann gangi inn á, að frv. þetta verði sniðið með það fyrir augum, að landssmiðjan starfi algerlega í frjálsri samkeppni. Það er ákaflega varhugavert að fá ríkisfyrirtækjum slíka sérstöðu og sérréttindi, sem hægt er að misnota alveg herfilega, þannig að selja ríkisfyrirtækjum og fyrirtækjum, sem njóta styrks frá ríkissjóði, óhæfilega dýru verði, og nota síðan þann gróða til að undirbjóða önnur fyrirtæki um aðra smíði. Ég vil líka benda á, að það er varhugavert, ef ríkið einskorðar þessi viðskipti vissra fyrirtækja við eina ákveðna stofnun, vegna þess að þá verða viðgerðir — t. d. skipaviðgerðir — dýrari og það getur haft afdrifarík áhrif á vátryggingar. Hér er nýafstaðin deila í þessu efni, mjög hörð deila, sem, eins og menn vita, sýndi fyllilega, hve mikið er í húfi. Þetta ákvæði um, að vinnan skuli framkvæmd á vissum stað hjá vissu fyrirtæki, er því mjög hættulegt, og það er rökrétt ályktun, að það geti haft í för með sér hækkun vátryggingargjalda.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál nú; til þess gefst tækifæri við 2. umr. En ég vildi gjarnan heyra, hvort hv. frsm. getur ekki fallizt á, m. a. af því að í grg. virðist tekið fram, að þess sé ekki þörf, að fella niður ákvæðin um, að ríkisfyrirtæki skuli skipta við landssmiðjuna.