20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í C-deild Alþingistíðinda. (4261)

175. mál, landssmiðja

Frsm. (Emil Jónsson):

Ég þarf ekki miklu að svara. Umr. hafa færzt yfir á það eina svið, sem andstæðingar málsins hafa til þessa getað haldið sig á, en það er fjárhagshlið málsins. Því var haldið fram af hv. 5. þm. Reykv., að það væri ekkert að marka reikninga, sem gefnir væru út af hinu opinbera. Að það væri í sjálfu sér ekkert undarlegt, því að það færi engra í milli, og ríkissjóður gæfi sjálfum sér reikning. En þar sem það eru tveir menn, sem sé umboðsmaður kaupanda og forstjóri landssmiðjunnar, sem verða að undirskrifa reikninginn, þá ætti að vera fyllsta ástæða til þess að ætla, að varan sé seld með sanngjörnu verði. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að kaupa vöruna dýrari hjá landssmiðjunni heldur en hægt er að fá hana annarsstaðar. Ég sé ekki, hvaða tilhneigingu starfsmenn ríkisins ættu að hafa til þess að kaupa vöruna við dýrara verði hjá landssmiðjunni en öðrum, því þeir hafa ekki verið neyddir til þess. Ég hygg, að það sé eins mikið að marka þá reikninga, sem landssmiðjan gefur, og þá, sem einkafyrirtæki gefa. Ég hugsa, að það megi finna dæmi, og þau ekki svo fá, þar sem einstaklingar hafa seilzt í vasa ríkissjóðs um greiðslu fyrir vinnu sína.

Þá kom hann að trésmíðadeildinni og var að tala um, af hverju hún hefði verið lögð niður. Hann sagði, að það væri hættulegt að stofna til slíkra fyrirtækja, ef því væri slegið föstu, að það mætti ekki leggja þau niður, þó að tap væri ár frá ári. Ég veit ekki, hvaðan hann hefir þær upplýsingar, að tap hafi verið á trésmíðadeildinni, því ekki er hægt að sjá það á reikningum landssmiðjunnar. Hitt er rétt, að stjórn fyrirtækisins sá ástæðu til þess, að hún væri lögð niður. Það sést, hvar nettóarðurinn var árið 1933 og nokkuð af árinu 1932, en þá var hún ekki almennilega komin á laggirnar, en það er ekki sérstaklega skipt niður gjöldum, vaxtakostnaði og skrifstofukostnaði á trésmiðadeildina og járnsmíðadeildina, svo ég get ekki séð, hvaðan hv. þm. hefir það, að tap hafi orðið á henni. Og þeir, sem keyptu hana, hafa getað rekið hana með góðum árangri. Þeir mundu vinna eins, hvort sem þeir ættu hana eða ríkið. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda, að tap hafi verið frekar, þegar ríkið átti hana, þar sem það eru sömu menn, sem vinna, og áður. Ég hefi því ekki ástæðu til þess að halda, að tap hafi verið, heldur hafi annað komið til greina, þegar hún var lögð niður.

Ég get verið stuttorður við hv. 3. þm. Reykv. Hann taldi það vera samkeppnisstarf hjá landssmiðjunni, ef tekinn væri upp sá háttur, að skylda ríkisstofnanir til þess að verzla við smiðjuna. það er að vissu leyti rétt. Ég hélt því fram, að atvinnuaukningin við landssmiðjuna ætti að koma fram vegna nýsmíðinnar þar. En sú vinna, sem skapast með tilfærslu frá einkafyrirtækjum til landssmiðjunnar, er ekki atvinnuaukning. En ef landssmiðjan á að geta unnið að nýsmíði og tekið á sig þá áhættu, sem henni er samfara, þarf hún að vera styrk, og má a. m. k. ekki hafa verri aðstöðu en aðrar smiðjur. Það er rétt, að með þessu móti getur nokkuð af smíði, sem nú er hjá einkafyrirtækjum, færzt yfir á landssmiðjuna, en það verður ekki nema hún sé samkeppnisfær. Ég get bent á það, að það er eitt ríkisfyrirtæki, sem hefir sömu aðstöðu og þessu er ætlað að hafa, ef frv. verður samþ., en það er ríkisprentsmiðjan Gutenberg. Ég hefi aldrei heyrt, að hún hafi notað aðstöðu sína til gróða eða til þess að undirbjóða einstaklingsfyrirtæki. En það er margt líkt með þessu, því hvorttveggja er taxtavinna, bæði prentun og járnsmiði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta, og geri ekki ráð fyrir, að ég taki aftur til máls. Ég hefi ekkert á móti því, að fjhn. athugi málið, því þetta er fjárhagsmál fyrir ríkissjóðinn. En ég vona, að hún geri það svo fljótt og vel, að þetta nauðsynjamál nái fram að ganga á þessu þingi.