03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (4265)

175. mál, landssmiðja

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Meiri hl. fjhn., sem skilað hefir nál. á þskj. 649, leggur til, að þetta frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem getið er um á þskj. 649. Meiri hl. n. telur eðlilegt, að sett sé löggjöf um þetta efni, þar sem kunnugt er, að landssmiðjan hefir starfað undanfarin ár án fastra reglna, en það hefir leitt til þess, að starf smiðjunnar hefir ekki komið að eins miklum notum og skyldi. Finnst meiri hl. n. því eðlilegt, að sett verði lagafyrirmæli um starf og fyrirkomulag þessa fyrirtækis.

Fyrir utan almennar ákvarðanir um þetta efni hefir frv. að geyma merkileg nýmæli, sem gera smiðjunni mögulegt að víkka starfssvið sitt, því að samkv. ákvæðum 3. gr. er gert ráð fyrir því, að ríkið hjálpi smiðjunni um lóð til þess að reisa viðbótarbyggingu á, til aukinnar starfsemi, og í annan stað — sem er í beinu áframhaldi af þessu —, að ríkið ábyrgist allt að 100 þús. króna lán til þess að smiðjan geti komið upp byggingunni og vélum til aukinnar starfrækslu og, eins og getið er um í grg. frv. og tekið hefir verið fram af hv. þm. Hafnf., sem var frsm. þessa máls við 1. umr., er sérstaklega til þess ætlazt, að þessi starfræksluaukning sé miðuð við það, að smiðjan geri tilraunir til þess að smíða mótora í íslenzk skip, og hefir verið gerð tilraun í þá átt, sem gefið hefir góðar vonir um sæmilegan árangur, og þar sem hér er um að ræða merkilega tilraun til aukins iðnaðar, sem leiða ætti til mikils sparnaðar á útlendri „valútu“, þá telur meiri hl. n., að hér sé stigið mjög þýðingarmikið og nauðsynlegt framfaraspor. Eins og tekið er fram í grg. frv., flytjast árlega til landsins mótorar í íslenzka báta fyrir ca. 530 þús. kr. Ef takast mætti að gera þessa framleiðslu innlenda, þá mundi skapast veruleg vinnuaukning í landinu, þar sem talið er, að 2/3 af kostnaðarverði mótoranna liggi í vinnulaununum. Meiri hl. n. telur því mikla þörf á því, að sett sé löggjöf, sem gerir landssmiðjunni kleift að leggja út í þessar nýju framkvæmdir.

Þá hefir meiri hl. n. lagt til, að gerðar verði þær breyt. á frv., í fyrsta lagi, að í 2. gr. frv. sé sett nýtt fyrirmæli um það, að þau fyrirtæki ríkisins, sem skylt er að leita til landssmiðjunnar, þurfi þó því aðeins að hafa viðskipti við smiðjuna, að vinnubrögð og verðlag sé ekki verra þar en annarsstaðar, og á í því efni að fara eftir áliti stj. Okkur þótti rétt að slá þennan varnagla, til þess að ríkisstofnanir þyrftu ekki að sæta verri kjörum hjá landssmiðjunni en hægt væri að fá annarsstaðar. Einnig þótti okkur rétt, að ríkisstj. úrskurðaði um það, hvort verð og vinnubrögð smiðjunnar væru í samræmi við það, sem tíðkaðist annarsstaðar, þar sem ríkisstj., hver sem hún væri, vildi að sjálfsögðu kosta kapps um, að ríkisstofnanirnar sættu sem beztum kjörum. — Í annan stað leggur n. til, að felldar verði niður 6. og 7. gr. frv., sem gera ráð fyrir því, að starfsmönnum sé heimilt að leggja nokkuð af vinnukaupi sínu inn í verksmiðjuna, Við töldum ekki heppilegt að leggja út á þessa braut, því að gera má ráð fyrir, að slíkt væri lítið raunhæft, þar sem búast má víð, að flestir starfsmenn smiðjunnar hafi það lág laun, að þeir geti ekki lagt neitt verulegt af mörkum til að lána smiðjunni. Í samræmi við þetta hefir meiri hl. n. lagt til, að felldar yrðu niður 6. og 7. gr. frv. og sömuleiðis 2. málsl. í 8. gr., sem vísar til 6. og 7. gr.

Með því að gerð var ýtarleg grein fyrir þessu frv. við flutning málsins hér í þessari hv. d., þá sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja um málið frekar, en ég vil þó að lokum endurtaka þá till. meiri hl. fjhn., að frv. nái fram að ganga með þeim brtt., sem eru á þskj. 649.