03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í C-deild Alþingistíðinda. (4266)

175. mál, landssmiðja

Jakob Möller [óyfirl.]:

Þetta mál var nokkuð rætt við 1. umr., og hreyfði ég þá aths. við það; skal ég því ekki vera orðmargur núna.

Fyrst ríkið hefir í höndum sér þessa starfrækslu, sem hér um ræðir, þá er ekki nema eðlilegt, að til sé einhver lagasetning um þetta fyrirtæki, og út frá því sjónarmiði er ekkert við þessu að segja. En hitt er aftur á móti mikið vafamál, hvort þessi starfræksla er eins þýðingarmikil eins og meðmælendur þessa frv. vilja vera láta. Ég sé í rauninni engin rök fyrir því, að þessi starfræksla geti á nokkurn hátt orðið til þess að auka íslenzkan iðnað, því að allan þann iðnað, sem hér um ræðir, mundi auðvitað vera hægt að reka í öðrum smiðjum. Starfsmenn landssmiðjunnar mundu að sjálfsögðu geta fengið vinnu í öðrum smiðjum, ef verkefnið er fyrir hendi. Ég veit ekki til, að þessi smiðja hafi skapað sér verkefni, sem ekki getur skapazt í öðrum smiðjum.

Þá er talað um, að smiðjan eigi að smíða mótora í íslenzk skip. Því skyldi ekki vera hægt að smíða slíka mótora í öðrum smiðjum, ef mótorarnir eru á annað borð samkeppnisfærir við erlenda mótora? Þessi rök hv. meðmælenda frv. réttlæta ekki þessa sérstöku starfrækslu, og ég er mótfallinn því, að farið verði með sérstökum ráðstöfunum að vernda þessa framleiðslu, ef ekki fæst fullkomin trygging fyrir því, að hún sé að öllu leyti samkeppnisfær og sambærileg að verði og vörugæðum við það, sem hægt er að fá annarsstaðar, en um það atriði er ekkert í frv. Frá mínu sjónarmiði er höfuðagnúinn á þessari lagasetningu sá, sem ég lýsti á dögunum, og hv. meiri hl. n. hefir í rauninni viðurkennt, án þess að vilja taka afleiðingunum af því. Það var rætt um þetta hér í hv. d., og ég fór fram á það, að frv. yrði breytt þannig, að tryggt væri, að verð og gæði á smíðum smiðjunnar stæði í stöðugri samkeppni með því móti, að verkið væri unnið eftir útboði. Þetta fékkst ekki samþ. Hv. meiri hl. vildi ekki ganga inn á það, en nú þykist hann ætla að tryggja þetta með 1. brtt. á þskj. 649. En það liggur í augum uppi, að úr því að ekki er unnt að fá samkomulag um það, að þetta verði tryggt með ákveðnu orðalagi og með ákveðnum ráðstöfunum, þá stafar það af því, að hv. meiri hl. n. vill ekki taka afleiðingunum, sem þessu fylgja. Ég get ekki fallizt á frv. meðan það er þannig. Ég mun til 3. umr. koma með brtt. í þessa átt, til þess að ganga úr skugga um, hvort hv. meiri hl. þessarar hv. d. vill fylgja því, að þessi smiðja sé þannig lögvernduð, og að hún eigi heimtingu á allri vinnu ríkisstofnana þeirra, sem við smiðjuna skipta, án tillits til verðs og vörugæða annarsstaðar.

Um fjárhagshlið frv. er það að segja, að þótt ákveðið sé, að ríkissjóður leggi fram 100 þús. kr. í stofnfé, mundi ég ekki finna að því, ef ég áliti, að hér væri um heilbrigt fyrirtæki að ræða, sem miðaði til þjóðþrifa, en ég tel, að vonir um það séu svo litlar samkv. þessari lagasetningu, að óforsvaranlegt sé að leggja þetta fé fram.