21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (4293)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að andmæla frv., en mér þykir það hinsvegar leiðinlegt, hvernig það er til orðið. Hv. þm. N.- Þ. sagðist sem nm. hafa fjallað um frv. til hafnarlaga fyrir Siglufjarðarkaupstað, en sagðist ekki hafa tekið afstöðu til 10. gr. þess, en hugleiðingar hans um það mál enda þó með þessu frv. Ég álit, að ef frv. er búið til af því, að hagur Siglufjarðar sé sérstaklega borinn fyrir brjósti, þá hefði átt að fylgja fram ákvæðum hafnarlagafrumv., í stað þess að koma með þetta. En skýringin á því, hvers vegna þetta frv. kemur fram, gæti hugsazt að væri sú, að á Raufarhöfn er síldarverksmiðja og Raufarhöfn er í kjördæmi hv. þm. N.- Þ. Það gæti þannig verið sprottið af pólitískri eigingirni. — En það er aðalatriðið, að með þessu frv. er Siglufjarðarkaupstað veittur möguleiki til þess að fá tekjur, sem hann gat ekki fengið áður, og ég fæ ekki séð neitt ósanngjarnt í því, þótt verksmiðjurnar hefðu í ár greitt 21 þús. kr. í bæjarsjóð Siglufjarðar. Ég sé ekkert á móti því, að Siglfirðingar fái að njóta þeirra sömu hlunninda sem þeir höfðu áður — meðan verksmiðjurnar voru reknar sem einkafyrirtæki og bærinn gat innheimt þessar tekjur með aukaútsvörum á eigendurna. Ég get ekki sér, hvers vegna síldarverksmiðjurnar ættu að vera betur settar en önnur samvinnufyrirtæki, sem þó verða að greiða 5% af nettóarði. En eins og hv. þm. Ísaf. sagði, er ekki hægt að taka þetta gjald á þann veg, og verður því að finna nýja leið. Hitt getur verið spursmál um, hvort 11/2% gjald sé réttlátt eða of hátt, en sósíalistar geta ekki réttlætt, að af þessum atvinnurekstri þurfi ekkert að borga í bæjarsjóð.

Hv. 3. landsk. sagði, að eigendur báta yrðu að borga um 1000 kr. á bát, eins og samvinnufélagsbátarnir ísfirzku, til þess að njóta þeirrar aðstöðu, sem þeir fengju við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði. Ég er ekki í vafa um, að bátaeigendur vilja vinna þetta til þess að geta notið þessara hlunninda, og á Siglufirði voru verksmiðjurnar reistar vegna þess, að Siglufjörður liggur þannig, að það var vitað og hafði sýnt sig, að hann var hentugasta höfnin.

Það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að ætlast til þess, að bæjarsjóður geti risið undir því, að hver atvinnugreinin af annari sé gerð útsvarsfrjáls. Þar hlýtur eitthvað að koma í staðinn. En fyrirtæki, sem veltir milljónum, munar ekki mikið um, þó það þurfi að borga 20 —30 þús. kr. á ári. Hv. 3. landsk. sagði, að í góðu meðalári mundi þetta verða um 58 þús. kr., í ár hefði það numið 21 þús., og eftir því sem honum sagðist sjálfum frá, má gera ráð fyrir, að það hafi verið um helmingur af því, sem venjulegt er, og væri það þá um 42 þús. á meðalári, ef þessar tölur, sem hann byggir á, eru réttar, sem ég hefi ekki athugað. — Ég vil eindregið mæla með því, að frv. þetta verði samþ., þó ef til vill megi deila um, hvort 11/2% sé sú réttlátasta upphæð.