21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (4294)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

4294Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki miklu að svara af ræðu hv. þm. N.-Þ. Hann sagðist hafa glaðzt af þeim undirtektum, sem ég hefði veitt frv., og hafði eftir mér, að þetta væri sanngirniskrafa. Það má um þetta segja, að „litlu verður Vöggur feginn“. Ég sagði aðeins það, að ef til vildi væri það ekki með öllu ósanngjarnt, að Siglfirðingar fengju eitthvert gjald af verksmiðjunum. Ef hv. þm. vill taka þetta sem mjög góðar undirtektir, þá hann um það. — Upplýsingar hans um það, hvernig útsvarsskyldu samvinnufélaga er háttað, voru óþarfar. Það er vitað, að meginhluti þeirra samvinnufélaga, sem njóta skattfrelsis, eru samvinnufélög bænda. Hitt datt mér ekki í bug að segja, að engin fleiri en aðeins þau nytu þess, en ég benti á, að síldarverksmiðjurnar eru einskonar lögboðin samvinnufélög sjómanna og útgerðarmanna, og þess vegna væri engin sanngirni í því, ef skatt ætti að setja á síldarverksmiðjur, að hafa hann hærri en þann skatt, sem önnur samvinnufélög greiða. Mér er kunnugt um það, að síldarverksmiðjurnar hafa ekki verið reknar sem samvinnufélagsskapur undanfarið, en það hefir verið tilgangurinn, og á síðasta Alþ. var gerð breyt. á lögunum í þá átt að gera það betur framkvæmanlegt, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að ef sæmilegt verð verður á afurðum verksmiðjanna, þá verður þetta gert. Ennfremur hefir það mjög verið uppi innan Framsfl. að kosta kapps um, að þetta fyrirkomulag væri tekið upp, og situr þá illa á hv. þm. N.-Þ. að leggja mjög þunga skatta á þetta fyrirtæki — þyngri en á önnur samvinnufélög í landinu.

Hv. 8. landsk. lýsti mjög skringilega afstöðu sinni til málsins. Ég hélt hann ætti að vera kunnugur á Siglufirði og gæti byggt skoðun sína á öðru en því, sem hann lagði fram. Hann sagði, að síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði hefðu verið reknar sem einkafyrirtæki. Nú er það vitanlegt, að þessar verksmiðjur hafa aldrei verið reknar, hvorki á einn né annan veg, áður en ríkið starfrækti þær, nema aðeins ein þeirra, og það er verksmiðja dr. Paul,, sem ríkið keypti eftir að hún hafði verið ónotuð í 2 ár, og hefði sennilega verið ónotuð enn, ef ríkið hefði ekki keypt hana vegna tilmæla bæjarstj. Siglufjarðar. Það er því fráleit firra, að ríkið hafi tekið þennan atvinnurekstur úr höndum einstakra manna, sem hafi verið útsvarsskyldir.

Mig furðar á því, að hv. 8. landsk. skuli bera fram slíka vitleysu, því það hafa engir tekjustofnar verið teknir af Siglufjarðarkaupstað, en með byggingu verksmiðjanna hafa bænum verið veittar margfaldar atvinnubætur á móts við það sem öðrum bæjum hefir verið veitt. Ég skal benda á það, að langmest af þeim byggingum, sem gerðar voru á Siglufirði í sumar, eru vegna ríkisverksmiðjanna, og bærinn fær marga óbeina tekjustofna og mjög miklar tekjur í gegnum ríkisverksmiðjurnar.

Hv. 8. landsk. sagði, að við jafnaðarmenn gætum ekki réttlætt það, að þessi fyrirtæki ættu ekki að greiða útsvar. En það eru fleiri en við jafnaðarmenn, sem hér eiga óskilið mál; þál er allur þingheimur. Ég veit ekki til, að á þeim þingum, sem ég hefi setið, hafi nokkurntíma komið fram till. um að gera þetta fyrirtæki útsvarsskylt. Ég þori að fullyrða, að í þeim brtt. frá hv. þm. G.-K. og hv. þm. Vestm., sem komu fram við frv. það, sem ég flutti í fyrra, var hvergi talað um útvarsskyldu. Ég skora á hv. 8. landsk. að benda á það, ef nokkur rödd hefir komið fram um útsvarsskyldu ríkisverksmiðjanna, og ég álít, að hafi það verið ætlun hv. 8. landsk. að beina því til okkar jafnaðarmanna, að við hefðum sérstöðu í þessu máli, þá fari hann með rangt mál. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en legg áherzlu á, að frv. verði vísað til sjútvn.