21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (4295)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Páll Þorbjörnsson:

Þegar hv. 8. landsk. hóf mál sitt, undraðist hann yfir, að flm. frumv. skyldi koma fram með þetta frv., en fylgja ekki heldur fram ákvæðunum, sem eru í frv. til hafnarlega fyrir Siglufjarðarkaupstað. Hann gat þess, að það kæmi sennilega af því, að Raufarhöfn er í því kjördæmi, sem hv. flm. er þm. fyrir. Ég býst við, að þetta sé rétt hjá hv. 8. landsk. Mér þykir rétt að benda á, að svo gersamlega ranglátur sem sá skattur er, sem farið er fram á í frv. til hafnarlaga fyrir Siglufjarðarkaupstað, þá er þessi þó sýnu verri.

Því var haldið fram af hv. 8. landsk., að síldarverksmiðjurnar hefðu ekki verið byggðar á Siglufirði fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að bærinn vildi fórna til þess 200 þús. kr., heldur vegna hins, að höfnin þar lægi svo sérstaklega vel við og staðurinn þess vegna mjög tilvalinn. Ég býst við, að það sé rétt, að það hafi ekki ráðið úrslitum um val staðarins, þótt Siglufjarðarkaupstaður byði fram lóð, sem svaraði 200. þús. kr. Það var töluverð togstreita um þetta mál, og ég hygg, að það sé ekki ljóst, hvernig á því stóð, að þeir menn, sem um það fjölluðu, skiptu um skoðun. Hitt er a. m. k. víst, að það eru skiptar skoðanir um það og orkar mjög tvímælis, hvort Siglufjörður sé heppilegasti staðurinn. T. d. hefir Alliance heldur kosið að byggja sér stöð vestan við Húnaflóa, enda hafa þar verið einhver beztu miðin, þó það brygðist í sumar.

Við þetta má svo bæta því, sem öllum er ljós,, sem hafa stundað atvinnu á Siglufirði, að Siglufjarðarbær gerir sérstaklega mikið að því að auka útgjöld þeirra manna, sem þangað koma í atvinnuleit. Má í því sambandi minnast á það, að rafmagn er þar selt dýrara á sumrum en á vetrum, og auðvitað er þetta gert í þeim eina tilgangi að geta sem allra mest plokkað þá menn, sem koma þangað úr öðrum sveitum í atvinnuleit á sumrin.

Þá vil ég minnast á það, að jafnvel þótt ég vilji enga bót mæla því, að Raufarhöfn sé leyft að skattleggja verksmiðjuna á þennan hátt, þá væri það samt meiri sanngirni heldur en að Siglufirði sé leyft það, því Siglufjörður tekur af verksmiðjunum gjöld til hafnarinnar, og það þótt verksmiðjurnar noti ekki bólverk hafnarinnar nema að litlu leyti, því þær eiga sín sér stöku bólverk. Mér er ekki kunnugt um, að síldarverksmiðjurnar á Siglufirði njóti góðs fyrir bólverk sín frá bæjarins hendi, nema síður sé. Siglufjarðarkaupstaður er ár eftir ár að hrófa upp ónýtum bryggjum, sem hrotna í fyrstu haustveðrum og berast á aðrar bryggjur og verða þess valdandi, að aðrar bryggjur brotna.

Hv. þm. Ísaf. fór inn á það, sem hv. 8. landsk. sagði, að síldarverksmiðjur á Siglufirði hefðu verið reknar af einstaklingum, sem hefðu greitt gjöld í bæjarsjóð, svo ég þarf lítið að tala um það atriði. Hv. þm. Ísaf. benti á það, að tvær af þeim þremur verksmiðjum, sem nú eru í kaupstaðnum, hefðu verið byggðar af ríkinu og aldrei verið í annara höndum; sú þriðja hefði verið í höndum einstaklings, en ekki verið starfrækt um mörg ár áður en ríkið keypti hana.

Hv. 8. landsk. var að véfengja það, sem ég sagði, að það myndi nema um 58 þús. kr. í meðalári, sem síldarverksmiðjurnar yrðu að greiða í bæjarsjóð Siglufjarðarkaupstaðar, og studdi hann þá véfengingu sína við það, sem ég hafði sagt, að í sumar hefði þetta orðið 21 þús. kr., og færi þá fjarri sanni, að það kæmist upp í 58 þús. í meðalári. Ég vil nú upplýsa hann um það, að þegar áætlunin var gerð um rekstur síldarverksmiðjanna síðastl. ár, þá voru áætluð 350 þús. mál í bræðslu, en fengust svo ekki nema 150 þús. M. ö. o., þær fengu ekki helming af því magni, sem áætlað var. Við þetta bætist, að verð á sumum afurðum verksmiðjunnar hefir farið mjög hækkandi, og útreikningar mínir miðast við verðið eins og það er nú í dag, og eins og hægt er að semja um sölu í dag.

Þá er ekki úr vegi að minnast á það, sem hv. þm. Ísaf. kom inn á, hve miklar tekjur síldarverksmiðjurnar láta Siglfirðingum í té í vinnu. Ég hygg, að engir verkamenn séu betur tryggðir með tekjur heldur en þeir, sem vinna hjá síldarverksmiðjum ríkisins. Þær ábyrgjast verkamönnum sínum kaup í tvo mánuði, hvort sem veiði bregzt eða ekki, og slíkt hygg ég, að sé óþekkt hjá þeim síldarverksmiðjum, sem reknar eru af einstökum mönnum.

Ég vil ennþá undirstrika það, að sá skattur, sem lagður yrði á síldarverksmiðjur ríkisins samkv. þessu frv., er skattur á sjómenn og útgerðarmenn, sem koma til Siglufjarðar og leggja afla sinn þar á land og skaffa því fólki, sem þar býr, atvinnu. Eins og ég tók fram í gær, getur sá skattur, sem er milli 16 og 17 aurar á hvert mál, numið allt að 1000 kr. á mótorbát, og á stærri skip verður upphæðin meiri. Ég trúi því ekki, að þingheimur treysti sér til að bæta þessum skafti á útgerðina, með tilliti til þess, hvernig útlitið er nú.