21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í C-deild Alþingistíðinda. (4301)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég legg ekki svo mikla áherzlu á að fá að tala aftur, og ég hefði ekkert sagt, þótt hæstv. forseti hefði neitað mér um að fá að gera aths., af því að hann lofaði flokksbróður sínum að tala aðeins 4 sinnum, hv. 3. landsk. 3 sinnum og hv. þm. Ísaf. 3 sinnum. (GG: Ég talaði ekki nema þrisvar). Fjórum sinnum stóð hann upp.

Þessir tveir sósíalistaþingmenn hér hafa lagt mikið upp úr því, að ég skyldi hafa þau ummæli, að rekstur ríkisverksmiðjanna hafi af bæjarsjóði Siglufj.kaupstaðar nokkrar tekjur. Ég hygg, að þetta geti nú engum dulizt nema þeim, að atvinnurekstur, sem er í höndum hins opinbera og er útsvarsfrjáls. hann hlýtur að svipta viðkomandi bæjarsjóð þeim beinu tekjum, sem bæjarsjóður mundi annars hafa, ef sá atvinnurekstur væri rekinn af einstaklingum. (PÞ: Ef það væri). Já, ef það væri. En hitt er annað mál, hvort ríkisverksmiðjurnar gefa óbeinar tekjur í bæjarsjóð, með því að auka atvinnu og þar með kaupgetu bæjarbúa. Ég vil benda hv. þm. á það í sambandi við það, að þeir eru að tala um, hve mikill þessi rekstur sé orðinn og að afkastamagn verksmiðjanna hafi aukizt síðan þær komust í ríkiseign. — ég vil benda þessum hv. þm. á það, að sú aukning og afköst eru að minnstu leyti til aukningar tekna þeirra, sem búa á Siglufirði. Ekki heldur beinir tekjustofnar fyrir bæjarsjóð. Það er vegna þess, að öll skipin, sem leggja upp síld í verksmiðjurnar, sem eru aðkomandi, eru útsvarsfrjáls til Siglufjarðarkaupstaðar, og sömuleiðis allir aðkomandi menn, sem vinna á Siglufirði á sumrin. Það þarf gáfnafar hv. þm. Ísaf. til þess að skilja ekki þessa hluti.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að dr. Pauls verksmiðjan hefði ekki verið starfrækt árum saman áður en ríkið keypti hana, og hefði þá sennilega staðið aðgerðalaus enn þann dag í dag. Til þess að upplýsa það, með hve mikinn sannleika hv. þm. fer, vil ég geta þess, að verksmiðja þessi var byggð árið 1025, en seld ríkinu 1933 g starfaði öll árin, nema síðasta árið. En svo segir hv. þm., að hún hafi staðið aðgerðalaus árum saman.

Skal ég svo ekki lengja þetta mál frekar, en aðeins benda á, að Goos-verksmiðjan, sem alltaf hefir verið rekin af einstaklingi, hefir aldrei staðið auð eitt einasta ár, mér vitanlega. — Þá vil ég líka benda hv. 3. landsk. á, að það er kenning, sem gildir í viðskiptalífi, eða a. m. k. veit ég ekki betur en verð einnar vöru hækki, ef eftirspurn eftir henni eykst. Ég skil ekki, hvers vegna hv. 3. landsk. er það dulið, að verð á rafmagni á Siglufirði hækkar, þegar eftirspurn er mest eftir því, vegna þess, að þörfin er mest fyrir það. Þetta er það, sem viðgengst alstaðar.