23.11.1935
Neðri deild: 81. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í C-deild Alþingistíðinda. (4307)

188. mál, sala mjólkur og rjóma

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Mér er það í minni frá því er stofnun mjólkurbúanna nýju fyrir austan Hellisheiði var í undirbúningi, að þá óttuðust þeir, sem að framgangi þess máls unnu, að þegar til ætti að taka, mundu miklir erfiðleikar einkum reynast um tvö atriði þar að lútandi. Annað var það, sem í hugum margra var meginatriðið, að ef stofna ætti með miklum tilkostnaði stór mjólkurbú þar eystra, eitt eða fleiri, þá mundu samgöngurnar, eins og þær voru þá og eru því miður að mörgu leyti ennþá, verða stór trafali öruggum framgangi málsins. Því að eiga sífelldlega á hættu að vetrarlagi að teppast með þá nauðsynlegu flutninga, sem þyrftu, ef vel átti að vera, að eiga sér stað alla daga árið um kring, var ekki efnilegt viðhorfs. Að vísu voru þá þegar uppi ýmsar till. um, að bæta mætti nokkuð úr þessum vanda, þó samgöngurnar væru nú ekki í betra horfi en raun var á, með einhverjum hjálpargögnum, snjóbílum eða öðrum tækjum til þess að slefa flutningunum yfir skaflana, þó á ófullkominn hátt væri. En málið var og er, eigi að síður, óleyst. — Hið annað, sem ég man, að mönnum hraus hugur við, var óttinn við það, að erfitt mundi að koma sölu framleiðsluvaranna í framkvæmd hér á aðalmarkaðinum í höfuðstaðnum, í samkeppni eða samræmi við aðra, sem byggju að þeim markaði. Var það að vísu eigi ástæðulaust heldur, þar sem hér voru nýliðar, er komast þurftu yfir markað í samkeppni við hina, sem fyrir voru og nær búa, með ákaflega erfiða aðstöðu að öðru leyti. Það var strax á frumbýlingsárum mjólkurbúanna farið að reyna eftir megni að vinna að samkomulagi um vörumarkaðinn hér sunnan heiðar, og þó það gengi allt saman seint og erfiðlega að ýmsu leyti, þá var samt viljann að virða, og mönnum skildist strax, að samkomulag og betra fyrirkomulag var nauðsynlegt í þessum efnum. Bændum eystra var ljóst, að leita þurfti samvinnu og skipulags við þá, sem fyrir voru á markaðinum, og ég geri ráð fyrir, að enginn hafi verið, sem ekki sá nauðsynina á einhverjum endurbótum og aðgerðum á þessu sviði. Þessi nauðsyn á umbótum í þeim atriðum, sem hægt var að bæta um án stórra fjárframlaga, nefnilega skipulagi sölunnar og samkomulagi um sameiginlegan markað, hefir alltaf verið vakandi mál fyrir öllum hlutaðeigendum, sem hér koma til greina. Eins og ég gat um í grg. frv. þess, sem ég hefi lagt hér fyrir hv. d., þá er þetta meginatriði. Þessi þörf á samkomulagi og skipulagi, bæði hvað snertir samstarf við aðra, sem markaðinn sækja, og samstarf við neytendurna um að gæta viðskiptaþarfanna sem bezt á báða bóga, og svo vitanlega fyrirkomulag sölunnar sjálfrar að því er snertir heilnæmi, hæfilegan búðafjölda, hæfilega álagningu, hæfilegan og sparneytinn tilkostnað og annað slíkt. Hinn vakandi vilja til aðgerða í þessu efni og viðleitni frá byrjun má telja undirstöðu þeirrar skipulagningar, sem framkvæmd hefir verið í mjólkurmálunum. Verð ég að halda því fram, að einhverskonar skipulagning, lögbundin, ef ekki vildi betur — ef ekki vildi betur, segi ég — hafi frá byrjun verið sameiginlegt áhugamál allra eða flestallra, sem hlut áttu að máli. Ég vil taka það fram, að langæskilegast hefði verið, ef tekizt hefði að koma skipun á mjólkurmálefni Sunnlendinga með tilliti til sölu á aðalmarkaðsstaðnum, án þess beina lagasetningu þyrfti til. Það hefði verið mjög æskilegt, að samkomulagið milli framleiðendanna allra annarsvegar og neytendanna hér í höfuðstaðnum og Hafnarfirði hinsvegar hefði verið svo gott og skilningurinn á báða bóga svo næmur og þroskamikill, að þetta mál hefði skipazt svo að segja af sjálfu sér eftir till. og fyrir forgöngu hinna beztu manna, sem þar eiga hlut að. Ef menn hefðu þannig fundið heppilegt útsölufyrirkomulag, þar sem heilbrigðisskilyrðum var fullnægt, komið sér saman um, að svona mikið væri hentugt að flytja af nýrri mjólk frá hverjum stað; þetta skulum við greiða til verðjöfnunar milli þeirra, sem betri aðstöðu hafa, til hinna, sem verri aðstöðu hafa, o. s. frv. Það hefði valdið minni tilkostnaði og óánægju, ef tekizt hefði þannig að skipa málinu af hlutaðeigendum sjálfum í þrengri merkingu. En ég geri ekki ráð fyrir, að þess hefði verið kostur, þó þrautreynt hefði verið, betur en gert var, og því hafi ekki verið að öðru að hverfa en semja lög um mjólkurmálið, eins og gert var. Þess vegna var líka undirbúningi mjólkurlaganna vel tekið af fjölda fólks. En það má segja, að Adam var ekki lengi í Paradís, eins og þar stendur. Hinn sameiginlegi tortryggnislausi velvildarhugur til málsins hélzt skamman tíma. Hið sama mein, sem mörgum þjóðþrifamálum hefir orðið að fótakefli fyrr og síðar, varð hér til skemmdar. Pólitískur flokkadráttur og sundrung komst þarna bráðlega inn á milli. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem stóðu að þessu máli, hafi haft vilja á framgangi þess, án tillits til hvar þeir skipa sér í þjóðmálum. Mér dettur ekki í hug að ætla annað en að þeir hafi sameiginlega viljað málinu vel og óskað, að hér mætti almenningur njóta góðs af. Hitt kom af sjálfu sér, þegar menn voru svo óvitrir að fara að deila um, hver ætti helzt dýrðina, þegar menn fóru að tileinka sér málið til flokkshagsmuna. Ég ætla ekki að nefna neinn sérstakan flokk í því sambandi, aðalatriðið er, að snurðan hljóp á, og þá var fjandinn laus. Framleiðendurnir kvarta yfir, að búskapurinn svari ekki nándar nærri kostnaði; neytendurnir aftur á móti vilja fá mjólkina sem bezta, sem greiðlegast senda út um bæinn fyrir sem sanngjarnast verð o. s. frv., sem ekki ætti síður að vera til hagsmuna framleiðendunum en neytendunum sjálfum. Þess hefði því mátt vænta, að menn hefðu sameinazt í einlægri viðleitni til að koma þessu í sem bezt horf að öllu leyti, og ekkert annað hefði komizt þar að. En við vorum því miður ekki þeir heppnismenn, að svo færi eða slíkt mætti verða til fulls.

Þá kem ég að því, sem ég læt, að þessum orðum sögðum, aðallega skipta máli hér. Spyrji menn sjálfa sig og svari síðan: Eru þau ákvæði sett með mjólkurlögunum, sem geta orðið til þess að gefa ágreiningi, hvort sem hann er pólitískur eða annars eðlis, undir fótinn? Ég held, að það megi svara þessu þannig, að það séu í mjólkurlögunum, eins og þau eru nú, ýms ákvæði, sem ekki eru a. m. k. til þess fallin að draga úr ágreiningi og pólitískum flokkadrætti, ef hann er einu sinni kominn fram. Og ég skal segja hv. þm., í hvaða ákvæðum mjólkurlaganna ég tel þá veilu fólgna. Fyrst og fremst er það, að fyrirkomulagið á meðferð og yfirráðum mjólkurmálanna, að því er kemur til samsölu og afskipta mjólkursölunefndar, er ekki nærri nógu vel skilgreint. Þetta vefst hvað inn í annað eftir ákvæðum laganna og getur í einstökum tilfellum orkað tvímælis, hver á með mál að fara, eins og komið hefir á daginn. Ég er ekki að kenna þetta lagasetningunni sjálfri, eins og hún var í upphafi, heldur segi ég, að reynslan hafi sannað, að ekki er eins skýr og greinileg sundurflokkun ríkjandi í þessu efni og æskilegt væri. Því hefi ég ætlað með þessu frv. að koma því til leiðar, að þetta yrði nánar flokkað niður. Vil ég láta haga þessari flokkun þannig, að hvert hinna sérstöku verðjöfnunarsvæða hafi stjórn fyrir sig, er fari með sérmál þess. Sé þessi stjórn skipuð fulltrúum hlutaðeigandi framleiðenda sjálfra. Hafa komið fram háværar raddir um það, að þessum málum ættu fulltrúar sjálfra framleiðendanna að ráða, og sé ég ekki, við hvaða rök eiga að styðjast mótmæli gegn því.

Ég geri það vísvitandi að kveða svo á, þar sem talað er um að skipa 1 eða 2 menn í þessa mjólkursölun., að þeir fulltrúar skuli kosnir á almennum fundi mjólkurbúanna og framleiðendafélaganna í hlutaðeigandi héraði. Ég álít heppilegast, að allir, sem þarna eiga hlut að máli, hafi hönd í bagga um skipun þessara fulltrúa. Ef aðeins fulltrúar mjólkurbúanna ættu að hafa val mjólkursölunefndar í hendi, er hættara við, að tortryggni kæmi upp manna á milli, og ætti hún þá auðveldara með að festa rætur.

Með hliðsjón til þess, er ég nú hefi sagt, felur frv. mitt í sér þá aðalbreyt. frá l., að stjórn mjólkurmálanna sé tvennskonar: annars vegar mjólkursölun. heima á verðjöfnunarsvæðinu, skipuð af hálfu framleiðenda og þannig, að hver fulltrúi í n. fái laun sín frá þeim búum eða framleiðendafélögum, er þeir eru kjörnir fyrir, því að það myndi vera þeim hvatning til að fara sem sparlegast með fé búanna. — Hinsvegar yfirstjórn á landsmælikvarða, sem ég nefni mjólkurmálastjórn, skipuð 3 mönnum, sem ég tel einnig, að framleiðendurnir ráði miklu um val á, eða réttara sagt, hinir eðlilegu forsvarsmenn þeirra. Tel ég, að Búnaðarfél. eigi að velja einn manninn, eða stjórn þess, bandalag mjólkursölun. annan, en landbúnaðarnefndir Alþingis þann þriðja. Ég álít, að síður ætti við að láta t. d. búnaðarþing skipa þennan síðastnefnda mann, þar sem stjórn Búnaðarfél. skipar annan mann, því að stjórn Búnaðarfél. og búnaðarþing eru þar of keimlíkir aðiljar.

Þá er það ekki nema sjálfsögð krafa, ef hér á að vera um að ræða raunverulega stjórn, sem láti málin til sín taka til hagsbóta fyrir fólkið, að einhver hafi þar sérþekkingu um hollustuskilyrði og meðferð mjólkurinnar. Því hefi ég stungið upp á, að maður sá, sem landbúnaðarn. Alþingis velja, skuli hafa þessa sérþekkingu til að bera.

Ég vil á þennan hátt gera mitt til, að málunum verði komið í viðunandi horf, án þess að nokkur flokkspólítík geti komizt þar að. Þeir, sem segja, að l. sé nú svo skipað, að ekki eigi flokkspólitík að geta komizt þar að, hafa það til síns máls, að l. mæla að vísu ekki svo fyrir, að flokkspólitík skuli ráða í málum þessum. En raunverulega hefir þó flokkspólítik blandazt þarna inn í, vegna ágalla laganna, þó að ég vilji ekki dæma um, hver eigi þar sök á. Ég vil reyna að koma málunum út fyrir möguleika þeirrar hættu.

Ég hefi gert það að verulegu atriði í þessum lagabreytingatill. mínum, að yfirstjórn þessara mála sé sem mest numin úr höndum landbrh., án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokki hann tilheyrir. Það getur verið hættulegt, að landbráðh. hafi á höndum yfirstjórn slíkra mála, því að þegar kemur kapp í málið, hlýtur hver ráðh. að vera veikur fyrir sínum nánustu í pólitíkinni. Því legg ég til, að mynduð sé þessi hlutlausa mjólkurmálastjórn. Hún á að skera úr um allan ágreining og ákveða verðjöfnunarsvæði. Henni eru ætluð ýms störf, sem sjálfsagt er, að mjólkurmálastjórn landsins gefi gaum að, t. d. að gera till. til Alþingis, ef til mála kemur að stofna ný mjólkurbú í landinu. Í þessu efni er mörgu ábótavant eins og nú er ástatt. Menn koma sér e. t. v. saman um að stofna mjólkurbú. En hvernig horfir þá á hverjum stað við um samgöngur, markaðsmöguleika o. s. frv., hvaða ráð á að gefa þeim mönnum, sem ráðast vilja í slík fyrirtæki? Er ekki nema sjálfsagt, að mjólkurmálastjórn hafi á hendi það hlutverk, því einhverja þarf þar til ráðuneytis. Ef slíkt er ekki felandi mönnum, sem landb.nefndir Alþingis og hinir aðiljarnir, sem ég nefndi, skipa, þá veit ég ekki, hverjum það er felandi.

Ég get svo látið máli mínu lokið um þetta fyrra atriði frv. Eins og hv. þdm. sjá, er það fjarri mér að leiða þessar brtt. mínar að samsölunni sjálfri. Þær lúta aðeins að því, hver eigi að hafa á hendi stjórn þessara mála fyrir hin sérstöku svæði og fyrir landið í heild.

Annað atriði, sem ég vil fá framgengt með frv., er nokkur rýmkun fyrir þá, sem eiga erfitt um sölu á framleiðslu sinni. Ætlast ég og til, að lögfest verði, að smjör- og rjómabú, sem fyrir eru, fái óhindrað að starfa áfram. Jafnframt vil ég láta nema burt úr l. þau ákvæði, sem heimila samsölunni að nema heil héruð undir umsjón sína og taka viðskipti þeirra í sínar hendur. Þessi ákvæði eru óþjál og mjólkurbúunum ekki til hagsbóta. Þá vil ég, að þeir, sem eiga illa aðstöðu vegna samgönguerfiðleika, megi selja skyr og rjóma beint til neytenda hvar sem er. Er þá sjálfsagt, að mjólkursölun. skeri úr því, hvað skuli teljast ill aðstaða í þessu tilliti, og því ekki mikið í hættu fyrir búin, fyrst ákvörðunarvaldið er þar. Manni blöskrar, að það skuli hafa átt sér stað, að menn, sem vegna örðugleika hafa ekki gengið inn í neitt mjólkurbú, skuli hafa verið teknir sem glæpamenn hér á vegunum, þó að þeir hafi haft meðferðis rjómabrúsa eða skyrdall. Og ef þeir geta svo ekki borgað sektina, er næsta ferð þeirra til Litla-Hrauns. Slíkt ætti ekki að geta komið fyrir, og það er til óvirðingar, að lögin skuli geyma ákvæði, er gera slíkt mögulegt.

Í þessu sambandi ber á það að líta, að álitamál getur verið, hvort rétt sé af mjólkurbúunum að þröngva inn fyrir sínar dyr sem mestu efni til vinnslu. T. d. get ég upplýst það um mjólkurbú Flóamanna, að þegar stofnendur vildu leggja sem mesta áherzlu á að „agitera“ menn inn í búið á fyrstu árum þess, þá var forstjórinn, Jörgensen, varkárari í því efni. Hann vildi líta frá víðara sjónarmiði á hagsmuni búsins. Hann sá, að það voru markaðsmöguleikarnir, sem á hverjum tíma áttu að segja til um, hvað mikilli málnytu búinu væri hollt að veita viðtöku. Þetta skildum við strax. — Hinsvegar verður að leggja fulla áherzlu á það, að búin fái nóg efni til vinnslu. En um þetta ættu fulltrúar af sjálfum verðjöfnunarsvæðunum bezt að geta skorið úr.

Andinn í þessum till. mínum er í fáum orðum sá, að nú skuli bændur sem mest fara sjálfir með mál sín, án þess að í nokkru sé hallað á neytendur. Ef einhver heldur því fram, að með þessum till. sé hallað á neytendur fremur en áður, þá er því til að svara, að reynslan hefir ekki sýnt, að þeir hafi mikinn sameiginlegan hag af fyrirkomulaginu eins og það er nú. Í Reykjavík, þar sem markaðurinn er mestur, hafa menn engan veginn verið á eitt sáttir, og hver höndin hefir þar verið upp á móti annari. Þar er sannarlega ekki úr háum söðli að detta. En ef framleiðendur ráða málunum, þá eru það þeirra hagsmunir að hafa neytendur ánægða.

Eftir því sem mjólkurpeningi fjölgar (fyrir austan fjölgar honum t. d. meira en sauðfé), hlýtur mjólkurframleiðsla að aukast mjög og jafnframt þörfin á aukinni mjólkurneyzlu. því hlytu n. þær, sem frv. mitt gerir ráð fyrir, að fá mikið starf að vinna í þá átt að gera neytendur ánægða, þ. e. alla neytendur, og fá þá þannig til að neyta meiri mjólkur. Þegar erfiðleikar aukast um erlendar vörur, verður þessi neyzla og önnur svipuð að aukast mjög, allra hluta vegna.

Ég hefi nú talað um málið á við og dreif, án þess að höggva nærri neinum, enda þótt heitt sé um málið um þessar mundir. Sá hiti sannar, að nauðsyn ber til að koma góðri skipan á þessi mál. Mætti nú reyna, hvort bændur yrðu ekki svo hamingjudrjúgir, ef þeir fengju málin í sínar hendur, að þeim tækist að koma málunum í betra horf en nú er, til endurbóta og samkomulags. — Vil ég svo að síðustu leggja til, að málinu sé vísað til landbn.