28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (4312)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég skaut því fram í ræðu hæstv. forseta, að ég teldi, að þessi breyt., sem hann fer fram á, að gerð verði á þingsköpunum viðvíkjandi atkvgr., sé beint brot á stjskr., og tel ég það svo augljóst, að um það ætti ekki að þurfa að deila. Hæstv. forseti tók það fram, að stjskr. mælti svo fyrir, að til þess að mál fengi löglega afgreiðslu, yrði að vera meira en helmingur þm. á þingfundi og taka þátt í atkvgr. En till. hans um breyt. eru þær, að þeir, sem ekki taka þátt í atkvgr., þeir sem neita að greiða atkv., skuli taldir greiða atkv. Hvað er augljósara brot á stjskr. en þetta? Eftir almennri málvenju að dæma nær það náttúrlega engri átt að halda því fram, að þeir, sem neita að greiða atkv. í máli, taki þátt í atkvgr. um það. Það verður því ekki um það deilt, að hér er um brot á stjskr. að ræða. Þar að auki er hér um skýlaust brot á tilgangi hennar að ræða, því að hún hefir ákveðinn tilgang, og hann er sá, að tryggt sé, að mál, sem ekki hefir fylgi meiri hl., nái ekki fram að ganga. Það getur t. d. staðið svo á, að stj.flokkur, sem hefir að sjálfsögðu meirihlutavald í þinginu, vilji koma fram einhverju máli, en geti það ekki vegna innbyrðis ósamkomulags um málið, og fái þá t. d. einn af sínum fylgismönnum til þess að vera fjarverandi meðan á fundi stendur. Í Ed. eru t. d. núna 9 stjórnarfylgismenn og 7 stjórnarandstæðingar. Til þess að lögleg afgreiðsla mála fáist, verður meira en helmingur af þessum 16 mönnum að greiða atkv. með eða móti málinu. Nú gæti staðið svo á, að stj. tækist ekki að fá einn af sínum fylgismönnum til þess að greiða atkv. með málinu, en þá getur hún fengið hann til þess að vera fjarverandi meðan á atkvgr. stendur. En geti stj. hinsvegar fengið þessa 8 til þess að vera með málinu, og verði svo hinir 7 á móti því, þá er málinu tryggður framgangur. En sé ekki tekinn þáttur í atkvgr. samkv. tilgangi stjskr. og þingskapa, þá er málið fallið. Af þessu er auðséð, að þessi breyt., sem hæstv. forseti fer fram á að gerð verði, er ekki einungis stíluð þvert ofan í bein ákvæði stjskr., heldur einnig ofan í augljósan og réttmætan tilgang hennar. — Þykist ég svo hafa réttlætt það innskot, sem ég gerði í ræðu hæstv. forseta.