28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (4313)

191. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) [óyfirl.]:

Við hv. 3. þm. Reykv. getum vafalaust komið okkur saman um það, að æskilegt væri, að orðalag þessarar gr. stjskr., sem hér um ræðir, væri öðruvísi. (JakM: Nei). En frá því að hún var sett og fram að 1915 var þetta ákvæði öðruvísi, og þingsköpin mæltu svo fyrir, að þm., sem ekki greiðir atkv., skuli teljast til meiri hl., hvort sem sá meiri hl. er með eða móti máli. Þeir voru þannig með nærveru sinni, eins og þeim var skylt nema sérstök forföll bönnuðu, taldir þátttakendur í atkvgr., enda þótt þeir sætu hjá. Sömu skyldu hafa Danir hjá sér í þessu efni, því að þeir hafa nákvæmlega sama orðalag á sinni stjskr. í þessu tilliti, og þeir hafa einnig sama orðalag á sínum þingsköpum og hér er lagt til, sem sé að þótt þm., sem viðstaddir eru, greiði ekki atkv., þá teljist þeir samt þátttakendur, og m. a. styðst þetta við það, að þm. er lögð sú skylda á herðar að greiða atkv., og geri þeir það samt ekki og geti ekki fært fram lögmætar ástæður, sem teknar eru gildar, þá brjóta þeir lög og þingm.skyldur sínar í þessu efni. Ég hygg, að við hv. 3. þm. Reykv. getum verið á eitt sáttir um það, að æskilegt væri, að þessi gr. í stjskr. væri öðruvísi orðuð, og þegar litið er á þessar ástæður, þá er í alla staði eðlilegt, að einmitt slíkt ákvæði sem þetta gildi um afgreiðslu mála. Ef þm. vilja ekki láta mál ná fram að ganga, þá er þeim ekki einungis í sjálfsvald sett, heldur einnig skylt að greiða atkv. á móti því. Og mér finnst, að samkv. þingsköpunum hér hjá okkur sé ekki rétt að hafa þá tilhögun, að menn geti skotizt undan því að greiða atkv., eins og þeim er þó skylt, og tafið með því afgreiðslu mála. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp einn málsl. í 40. gr. stjskr. Þar stendur:

„. . . Þegar Alþingi skipar eina málstofu, þarf meira en helmingur þingm. úr hvorri þingdeild að vera á fundi og eiga þátt í atkvgr. til þess að fullnaðarsamþykkt verði lögð á mál; ræður þá atkvæðafjöldi úrslitunum um einstök málsatriði“.

Svo fjallar endirinn á málsgr. um það, hverrar tegundar málin eru og um það, hvort einfaldan meiri hluta þarf til þess að samþ. þau eða ekki; en það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Samkv. þeim skilningi, sem ég vil leggja í þetta ákvæði stjskr., þá verður að telja, að þm., sem er á fundi, eigi þátt í atkvgr., enda þótt hann greiði ekki atkv., svo framarlega sem hann hefir ekki gildar ástæður fram að færa fyrir því, að hann greiðir ekki atkv. Þetta finnst mér liggja alveg ljóst fyrir, en menn eru náttúrlega sjálfráðir um, hversu mikið þeir leggja upp úr því. Ég hefi nú drepið á hliðstætt dæmi hjá Dönum í þessu efni, og tel ég óþarft að fjölyrða frekar um þetta. Ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að mál eiga vitanlega ekki að fá afgreiðslu nema meiri hl. sé því fylgjandi, og það verður vissulega engin hætta á því, þótt þetta, sem hér um ræðir, verði tekið upp í þingsköpin, því að ef meiri hl. er andvígur máli, þá er það fallið. Með þessu ákvæði eru menn ekki skyldaðir til þess að greiða atkv. með máli; þeim er hér eftir eins og hingað til algerlega frjálst að greiða atkv. með eða móti máli eftir vild. En uppfylli þeir ekki lagalega skyldu um það, að greiða atkv. um málið, með eða móti, þá geta þeir ekki fyrirfram vitað, hvort málið verður samþ. eða fellt. Og þá er þeim sjálfum um að kenna, ef þeir hafa ekki veitt málinu þann stuðning, sem þeir vildu veita.