28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (4315)

191. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) [óyfirl.]:

Okkur hv. 3. þm. Reykv. kemur ekki saman um þetta ákvæði gagnvart merkingu stjskr. Hann vill halda því fram, að þetta ákvæði sé sett í stjskr. einmitt til þess að láta það vera svo í framkvæmdinni sem það hefir verið um stund. Ég hefi ekki sérstaklega kynnt mér þetta atriði málsins, svo að ég vil ekki staðhæfa neitt um það að svo stöddu. En ég held þó, að það hafi að miklu leyti verið sömu mennirnir, sem gengu frá stjskr. og þingsköpunum, og það nær vitanlega engri átt, að þeir, sem settu þessi ákvæði í þingsköpin, hafi byggt þær gerðir á stjskr., ef þeir hafa talið sig vera að brjóta fyrirmæli stjskr. Ég býst við, að þetta ákvæði hafi verið sett hjá okkur eins og hjá Dönum með það fyrir augum, að þm., sem á fundi er, sé með því gefinn kostur á að greiðu atkv., því að það, að eiga þátt í atkvgr., getur þýtt og er upphaflega sett með það fyrir augum, að þm. sé við og geti tekið þátt í atkvgr., ef hann vill; og til þess að tryggja þátttökuna sem bezt, hefir það ákvæði verið sett í þingsköpin, að það sé skylda þm. að taka þátt í atkvgr., eins og það er skylda þeirra að mæta á fundum og vera við, þegar mál eru afgr. Ég ímynda mér, að upphaflega hafi þetta ákvæði stjskr. verið sett með þetta fyrir augum og ákvæði þingskapanna síðan verið sett á þennan veg út frá þessum skilningi, því að það kemur mér ekki til hugar, að þeir, sem þessa lagasetningu gerðu, hafi viljað brjóta fyrirmæli stjskr. með þingskapaákvæðunum. Það nær náttúrlega engri átt.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um það, með hvaða móti menn gætu komizt hjá að greiða atkv. um mál, þótt þetta ákvæði væri sett í þingsköpin, vil ég segja það, að mér er það alveg ljóst, að ef meiri hl. er ekki til staðar fyrir afgreiðslu máls, þá getur minni hl. gengið af fundi, ef hann vill. Um þetta eru engin önnur ákvæði en áður hafa gilt. Menn eiga að vísu að vera á fundi, en vilji menn hinsvegar beita þessari aðferð, þá stendur þessi leið þeim opin eins og verið hefir. En hitt, sem hv. þm. sagði, að meiri hl. gæfi látið beita þvingun við þm. með því að láta þá ekki greiða atkv. eða vera fjarverandi, það er þannig lagað, að það þýðir ekki fyrir löggjafann að bollaleggja um slíkar krókaleiðir, því að hann getur ekki gert ráð fyrir því, að menn skorist yfirleitt undan því að uppfylla skyldur sinar og vanræki störf þau, sem þeim hefir verið trúað fyrir. Þetta finnst mér alls ekki þess vert, að um það sé fjölyrt. Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum.