10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (4322)

191. mál, þingsköp Alþingis

Thor Thors:

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, þá gat allshn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Hv. 8. landsk. og ég óskuðum eftir, að málið væri rannsakað nánar. Fyrst og fremst fórum við fram á það, að frv. væri lesið á nefndarfundi og athugað og borið saman við þingsköpin, en þeirri ósk fékkst ekki fullnægt. Formaður n., hv. 2. þm. Reykv., var ákveðinn í að láta málið ganga fram án nokkurrar frekari rannsóknar. Mér er sagt, að þetta frv. sé samið af forsetum Alþingis og skrifstofustjóra þess; og ég efa ekki, að frágangurinn á því sé góður. En ef þessi breyt. á að verða til heilla, þá er mikilsvert, að fullt samkomulag sé um hana á milli þingflokkanna. Þingsköpin eiga að vera þær reglur, sem þingm. koma sér saman um að fylgja við umr. á Alþingi og til þess að greiða þar fyrir framgangi mála. Það er sýnilegt, að ef með harðfylgi á að þrýsta fram breytingum á þingsköpum, gegn vilja minnihlutaflokksins í þinginu, þá veldur það vitanlega mikilli óánægju í þeirra hóp. Og þeir, sem óánægðir eru, hafa alltaf einhverja leið til þess að brjóta þingsköp, sem þeir telja ranglát og ósanngjörn. Það vill nú svo vel til, að flokkarnir á Alþingi skipuðu nefnd 1934 til þess að endurskoða þingsköpin, og var hún skipuð mönnum úr öllum þingflokkum. Hún situr enn á rökstólum, en hefir að vísu ekki tekið þetta verkefni til ýtarlegrar meðferðar; en það er full ástæða til að knýja hana til að ljúka þeim störfum. — Vegna þess, hvað nú er orðið áliðið þings, er mjög vafasamt, að þetta frv. nái fram að ganga. Ég tel því heppilegra, að því verði frestað til næsta þings, og þá sérstaklega með tilliti til þess, að nauðsynlegt er, að fullt samkomulag verði á milli flokkanna um fyrirhugaðar breyt. á þingsköpunum. Við, sem erum í minni hl. allshn., viljum fresta málinu og berum fram svo hljóðandi till. til rökst. dagskrár, sem ég skal lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð þingflokkarnir hafa skipað nefnd til að semja um breytingar og endurbætur á þingsköpum og þar eð deildin telur æskilegast, að þingsköp séu sett með samkomulagi allra flokka, vill hún vísa þessu máli til fyrrgreindrar nefndar, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég vænti þess, að dagskrártill. verði rædd jafnframt frv. sjálfu. Og ég vil enn á ný minnast á nauðsyn þess, að fullt samkomulag náist í þessu máli. Þeir flokkar, sem nú eru í meiri hl. í þinginu, geta vitanlega komið þessu frv. í gegn og sett í bili þær reglur, sem þeim sýnist. En það er ekki vist, hversu lengi þeir njóta þess meiri hl., sem þeir hafa nú, og ef skjótlega breytist um meirihlutaaðstöðu í þinginu, sem fyllilega má búast við, þá vænti ég, að þeir sjái, að ofbeldi í þessu máli hafi ekki verið það heillavænlegasta. Ég vil því styðja að samkomulagsleið í þessu máli.