10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (4325)

191. mál, þingsköp Alþingis

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð. Ég vil láta í ljós þakklæti mitt til hv. meiri hl. allshn. fyrir afgreiðslu hans á þessu máli. Það hefir verið og er meining okkar, sem að þessu frv. stöndum, að gera auðveldari störf þingsins og afgreiðslu mála þar. Og í ýmsum greinum þessa frv. eru ákvæði þingskapanna gerð ljósari en þau eru nú. Það er vitaskuld ekki meiningin fyrir mér og þeim mönnum, sem að þessu frv. standa, að beita minni hl. þingsins hlutdrægni eða einhverskonar ofbeldi. Slíkt mundi vissulega hefna sín, því að öllum er ljóst, að þeir geta orðið í minnihl. aðstöðu á Alþingi. Hér er aðeins um að ræða nauðsynlegustu ákvæði til þess að gera vinnubrögðin hraðari og léttari. Brtt. eru ekki margbrotnar. Það á að gera auðveldara að veita afbrigði frá þingsköpum fyrir málum, sem ríkisstj. stendur að, þannig að þau megi veita með einföldum meiri hl. atkv. í þd. og Sþ. Þykir það eðlilegt, því að ætla má, að þau mál þurfi fremur öðrum fram að ganga. Einnig er gerð sú breyt., að ekki þurfi leyfi til þess, að mál megi flytja á þingi, þó liðnar séu fjórar vikur af þingtímanum, ef þau eru flutt af ríkisstj. eða einhverjum fyrir hennar hönd, eða ef n. flytur þau óskipt.

Þá er takmörkun ræðutímans umfram það, sem verið hefir. Þar er eiginlega aðeins um nokkuð annað form að ræða, sem sízt ætti að vera hv. minni hl. til andúðar, því mér virðist réttur minni hl. betur tryggður með þessum ákvæðum heldur en verið hefir. Eins og ákvæði þingskapanna eru nú, er heimilt að skera niður umr. Að vísu er svo til tekið að slíkt megi gera, þegar umr. dragast úr hófi fram, en það er vitanlega á valdi þess meiri hl., sem að niðurskurðinum stendur, að skera úr því, hvað er úr hófi fram. Hann getur því, ef honum býður svo við að horfa, skorið niður umr. allharkalega fyrir minni hl. Þetta ákvæði þingskapanna er látið halda sér, en til viðbótar er gert ráð fyrir, að takmarka megi umr. fyrirfram, og þegar þanniger farið að, er það á valdi forseta, og beinlínis lagt honum á herðar, að skipta ræðutímanum sem jafnast milli þeirra, sem með málinu standa, og hinna, sem mótmæla því, eða eftir flokkum, ef um slík mál er að ræða. Á þennan hátt held ég, að það verði tryggara, að menn séu ekki beittir misrétti, heldur en þegar skornar eru niður umr. eftir núgildandi ákvæði þingskapa, án tillits til þeirrar þátttöku, sem verið hefir í umr. áður. Getur svo staðið á, þegar því ákvæði er beitt, að mest hafi verið talað um málið frá annari hliðinni og annaðhvort andstæðingar eða meðmælendur málsins sama og ekkert komizt að. Það má að vísu segja, að við þessu ákvæði sé ekki hróflað með þessum brtt., en þar sem hið nýja ákvæði miðar fremur til þess, að gætt verði réttlætis, má búast við, að sá háttur verði tekinn upp, þegar takmarka á umr., með tilliti til þess, að báðar hliðar málsins geti komið fram.

Það er náttúrlega fjarri mér, þó ég flytji þetta frv., að ég vilji ekki hafa samkomulag um afgreiðslu málsins. Ég vildi gjarnan, að þingflokkarnir gætu samið um málið. Í samkomulagi um afgreiðslu þess væri a. m. k. fólginn nokkur ávinningur fyrir þá, sem að því standa, þó ég hinsvegar telji ekki mikið upp úr slíku samkomulagi leggjandi fyrir framtíðina, því það mundi ekki hafa áhrif á aðra en þá, sem að því standa; þegar nýir menn koma inn í þingið, þykir mér ekki víst, að þeir teldu sig bundna af slíku samkomulagi, heldur mundu þeir haga sér eftir því, sem þeir telja sér heimilt innan ramma þingskapanna. Býst ég því við, að þetta hafi ekki svo mjög mikið að segja, nema hvað það vitanlega er ætið æskilegt, að samkomulag geti verið innan þings um afgreiðslu mála. Virðist mér, eins og hæstv. forsrh., ekki útilokað, að einmitt sú n., sem um málið fjallar hér í d., geti samið um það og komizt að viðunandi niðurstöðu. Ég verð að segja, að ég hygg þessa n. þannig mönnum skipaða, að ef hún getur ekki orðið ásátt um málið, veit ég ekki, hvort meiri von er til, þó öðrum væri falið það, að þeir gætu komið sér saman um afgreiðslu þess. Hitt hygg ég, að öllum geti komið saman um, að eins og afgreiðsla mála gengur stundum hér á þingi nú, er ekki við það hlítandi fyrir neinn meiri hl., hver sem hann er.

Um brtt. þær, sem fram hafa verið bornar, hygg ég, að ekki þurfi að vera ágreiningur. Ég get sagt það fyrir mitt leyti um brtt. hv. 2. landsk., að ég get á hana fallizt. Ég tel fráleitt, þó maður sé utan flokka, að hægt sé að svipta hann málfrelsi við útvarpsumr. — Hvað snertir brtt. hv. þm. Mýr., þá hélt ég, að ákvæðið, sem hann vill breyta, yrði ekki misskilið. En það, að honum sýnist það geta valdið misskilningi, Sannar, að fleiri geta litið svo á. Ef brtt. er samþ., hygg ég, að ekki sé hægt að misskilja ákvæðið; að því leyti er hún til bóta, og get ég því á hana fallizt. Það er nauðsynlegt um hvaða löggjöf sem er, að hún sé skýr og ákveðin, en það gildir ekki sízt um þær reglur, sem þingið sjálft hagar sinni starfsemi eftir, og er því mjög áríðandi, að ákvæði þingskapa séu sem ljósust og verði á engan hátt misskilin. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið af minni hálfu. Hv. 1. landsk. rakti ýtarlega gang þess ákvæðis, sem sætti hér nokkrum andmælum við 1. umr., svo ég þarf þar engu við að bæta.