12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (4336)

191. mál, þingsköp Alþingis

Thor Thors:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þá rausn, sem hann sýnir mér, að hann skuli leyfa mér að taka til máls. — Ég hafði vænzt þess, að hæstv. forsrh. mundi verða við, þegar ég tæki til máls, en ég sé, að hann er ekki staddur í deildinni, þó ég þurfi að svara honum nokkrum orðum.

Ég sé, að þær vonir, sem ég hafði gert mér um, að samkomulag fengist um þetta mál, sem allir gætu unað við, eru að verða að engu, vegna þess ofurkapps, sem hæstv. forseti og stjórnarflokkarnir leggja á, að mál þetta nái fram að ganga. En það er ekki nema gott, að það kemur fram og sannast, að stjórnarflokkarnir vilja skerða málfrelsi, svo þeir geti afgr. mál sín á þingi í næði án allrar gagnrýni, og verða þeir að taka afleiðingunum af því, ef þeir ætla að koma slíku máli fram með ofurkappi.