12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (4337)

191. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Torfason [óyfirl.]:

Það er aðeins eitt atriði í þessu frv., sem ég vildi taka til máls um og lýsa skoðun minni á. Það er ákvæðið um atkvgr. Það hefir verið svo, eins og frá hefir verið skýrt, að löggjafinn hefir lagt þá merkingu í þetta ákvæði, sem sumir kalla að brjóta stjórnarskrána. Þetta getur sjálfsagt verið deilumál, en dæmi það, sem tilfært var hér, getur tæplega verið rétt. Það er rétt, að föst venja var sú, að forseti greiddi ekki atkv. Og þetta var blátt áfram gert að reglu til að friða þann mann, sem stýrði fundi. Svona var það áður en við fengum stjórnarskrána, og því var haldið, af því svo var litið á, að þetta væri rétt. Þetta kemur sjaldan að sök, þegar þm. eru orðnir þetta margir, aðeins ef eitthvað stendur á atkv., sem var oft áður, að svo gat staðið á meðan þm. voru færri. Ég man eftir því 1901, að fyrsta orustan, sem háð var, var um að koma manni í forsetastól til að eyðileggja atkv. hans, og með því fékk annar flokkurinn yfirhöndina. Í 48. gr. stjskr. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Hvorug þingdeild getur gert samþykkt um mál, nema meira en helmingur þingdeildarmanna sé á fundi og greiði þar atkvæði.“ — verður ekki um deilt, hvaða þýðing er í þessari grein, eða hvað þýðir að greiða atkvæði. Það þýðir blátt áfram ekki annað en taka þátt í atkvgr., og svo aftur öfugt, að greiða ekki atkv. þýðir að taka ekki þátt í atkvgr. Hliðstætt dæmi þessu finnum við um skriflega atkvgr. Auðir seðlar teljast greidd atkv. undir vissum kringumstæðum, eða svo var í þingsköpum og er eftir 1915.

Ég get upplýst, að í deilum um þetta ákvæði var það einu sinni athugað eins ýtarlega og hægt var, þar á meðal farið gegnum öll skjöl, sem gátu varðað þetta mál, og leitað ekki aðeins í stjskr. frá 1874 og grg., heldur líka leitað í því, sem sagt var þegar Alþ. var stofnað, og við gátum ekki fundið neitt ákvæði um þetta; en allir vita, að þetta er tekið úr grundvallarlögum Dana, og þar hefir því verið fylgt, eins og á að gera eftir nýju þingsköpunum. Ég man sérstaklega eftir því á þingi 1916, að fyrir þá hlutdeild, sem ég átti í forsetastörfum, sem varaforseti hv. Ed., átti ég margsinnis ýtarlegt samtal við hæstv. þáv. forseta um þingsköpin og hvernig ætti að framkvæma þau, því þá var margt óljóst. Að því er þetta ákvæði snertir sáum við strax, að það gat verið ákaflega þýðingarmikið, og þar gætu legið tvær stefnur til grundvallar. Önnur sú, að vera íhaldssamur og nota þetta til að hefta framgang mála, hin sú, að nota það til að greiða fyrir málum. Það fór svo um þennan hæstv. forseta, að hann treysti sér þá ekki til að taka neina fasta ákvörðun, en það stóð þá þannig á í Ed., að atkv. voru jöfn, og notaði hann sér ákvæðið þannig, að ef einhver greiddi ekki atkv., krafði hann skýringar, og ef hann taldi skýringuna gilda, skoðaði hann sem atkv. vært ekki greitt, en ef hann tók ekki gilda ástæðuna, skoðaði hann atkvæðið gilt og greitt. Hann fór bil beggja, blátt áfram af því, að hann, sá vitri maður, treysti sér ekki til að taka íhaldsregluna; hann vissi hvað það gat þýtt.

Lít ég svo á, að það sé hreint og beint nauðsynlegt, hvaða stjórn sem situr, að hún geti framkvæmt sín mál, m. a. af því, að hún getur annars ekki sýnt, hvað henni er innan rifja eða hvað hún hefir ætlað sér, ef hún fær ekki sín mál fram og gerir hvorki að ganga né reka. Það var allt annað í gamla daga, þegar þingið gat leikið sér að því að afgr. mál, en nú eru sérstaklega erfiðir tímar, og afkoma og líf þjóðarinnar liggur í hendi þess. — Það hefir verið sagt, að taka eigi fyrir málfrelsi. Það getur verið, að svo megi segja að nokkru leyti, en þetta er eitt af þeim ákvæðum, sem styður að því, að málin geti gengið fram, og þess vegna hika ég ekki við að greiða þessu atkv. mitt.