12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (4338)

191. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Thors:

Ég ætla ekki að ræða einstök atriði þessa frv. Það hefir verið gert áður, bæði af hv. frsm. allshn., hv. þm. Snæf. og hv. 3. þm. Reykv., svo ég geri ekki ráð fyrir að bæta við nýjum rökum eða endurbæta með sterkari rökum. En um efnishlið þessa máls vil ég segja það, að það getur ákaflega vel komið til mála að bræða sig saman um margar brtt. á þingsköpum, og margar þeirra hafa við full rök að styðjast, enda er frv. flutt og borið fram af manni, sem lengi hefir setið í forsetastól og veit þess vegna bezt, hvar skórinn kreppir. — Ég vil ekki taka ákveðna afstöðu til einstakra brtt., en vil benda á og undirstrika það, sem hreyft hefir verið hér í deildinni með talsverðum rökum, að það orkar a. m. k. tvímælis, hvort ein brtt. skerði ekki stjskr. Það er og öllum vitað, að það er að ganga á rétt þm., þegar skerða á málfrelsi þeirra, og þegar svona mikilsvarðandi breytingar eru á döfinni, finnst mér æskilegt, að þær séu ekki reknar í gegn með ofurkappi á þessu þingi, heldur afgr. á næsta þingi. Ég styð því mjög eindregið till. hv. þm. Snæf. um, að frv. þessu verði vísað til nefndar þeirrar, sem á sínum tíma var kosin til að athuga þingsköpin, en í þeirri n. eiga allir flokkar þingsins sinn umboðsmann. Tel ég líkur til, að þá verði unnt að ná samkomulagi, en tel litlar líkur til þess, að það borgi sig eða kunni góðri lukku að stýra að reka þetta mál með ofurkappi. Ég vona, að hæstv. forseti sjái, hve sterk málefnarök eru fyrir þessu viðhorfi okkar sjálfstæðismanna, og hve sterkar líkur er til, að hægt sé að ná farsælli lausn á þessu máli með samkomulagi allra flokka, ef þeir fá að athuga það með gaumgæfni.

Þá vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því, að mörg merk mál hafa verið borin fram á þinginu á undan þessu, og þykir mér óviðfelldið, ef þetta eða önnur þau mál, sem seint eru fram komin, eru knúð fram á undan hinum ýmsu nauðsynjamálum, sem stjórnarandstæðingar hafa borið fram miklu fyrr. — Með hliðsjón af því, sem ég hefi bent á, og af því að ég tel það ekki bæta fyrir framgangi þessa máls að knýja það fram án samkomulags, legg ég eindregið til, að till. hv. þm. Snæf. verði samþ.