12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (4346)

191. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Torfason:

Ég vil svara tveim atriðum í þeim andmælum, sem fram hafa komið gegn ræðu minni.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að 17. gr. þingskapanna væri máli sínu til stuðnings, en ekki mínu. Það er rétt, að þar er um undantekningarákvæði að ræða, þegar nefnd er ekki kosin hlutbundinni kosningu. En þetta ákvæði sýnir þó, að sá, er samdi þingsköpin, hefir litið svo á, að auður seðill gæti verið greitt atkv. án þess að það kæmi í bága við stjskr. Hinsvegar er orðið „atkvæðafjöldi“ í 40. gr. stjskr. svo óákveðið, að það sker alls ekki úr því, hvað við er átt.

Ég fæ alls ekki séð neina skynsemi í því, hvers vegna það ætti að vera styrkara máli til mótstöðu að sitja hjá heldur en segja nei. Að menn greiða ekki atkv., kemur oft af því, að menn vilja eyðileggja mál, þótt það sé oftar af því, að menn hafa ekki kynnt sér þau nægilega.

Mér er engin pólitík í hug, er ég ræði þetta mál. Hvaða meiri hl. sem er á þingi mun njóta þessa ákvæðis. Og vel gæti sá tími komið, að Sjálfstæðis- og Bændaflokkurinn yrðu því sárfegnir, að þetta ákvæði var lögleitt.