30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (4357)

194. mál, áveita á Flóann

Magnús Torfason:

Ég stend aðeins upp til þess að minna þingið á, að ríkissjóður á þarna yfir miklum eignum að ráða. Að því er Eyrarbakkahrepp snertir á hann þar öll lönd, nema Óseyrarnesið og 4 smáhjáleigur, eftir að ríkið hefir keypt Skúmsstaðina og Háeyrina. Ríkið hefir líka nýlega keypt Stokkseyrartorfuna mestalla. Menn vita líka, að ríkið hefir tekið til sín upp í áveitukostnaðinn talsvert af löndum í Sandvíkurhreppi í Flóa, þar sem Síberíufangarnir dveljast nú. Auk þess, sem ríkið á í Eyrarbakkahreppi, á það þannig mikil áveitulönd í Sandvíkurhreppi, og það hefir þess vegna legið í loftinu, að farið sé að gera gangskör að því að gera þessi lönd — sérstaklega þau, sem eru niður um Flóann, en þau eru verr sett en þau, sem eru ofar, því hallinn er þar minni, — þannig úr garði, að þau geti komið að sem fyllstum notum.

Mér er kunnugt um, að Búnaðarfél. Ísl. hefir í hyggju að rannsaka þetta að því er snertir lönd ríkisins. Þetta frv. er því nokkurskonar viðbót og viðauki við það, sem þegar hefir verið til stofnað, og finnst mér það svo sjálfsagt, að allt verði tekið með í einu, að ekki sé hægt að mæla á móti því.

Ég hefi ekkert á móti því, að málinu verði vísað til landbn., því ég þykist vita, að það fái þar góðar undirtektir. Ég velt það fyrirfram, að Búnaðarfél. Ísl. mun leggja áherzlu á, að hafizt sé handa sem fyrst. Ég sé ekki, að það sé nein bein þörf á því að vísa málinu til n. við þessa umr. Það getur farið til 2. umr., og eftir þá umr. gæti landbn. tekið það til athugunar.

Ég vænti þess, að allir sjái, að hér er um þarft mál að ræða, og furða, að því skuli ekki hafa verið hreyft fyrr. En það er vegna þess, að staðið hefir á því, að afráðið væri um kaup þessara landa, en það þótti ekki heppilegt, að því yrði hreyft fyrr en afráðið var um þau kaup.