30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (4358)

194. mál, áveita á Flóann

Bjarni Ásgeirsson:

Ég stend einungis upp vegna þess, að hv. 1. flm. var að tala um, hvort þessu máli skyldi vísað til n. eða ekki. En ég verð að segja fyrir mig, að ég hefi ekki getað gert mér þá grein fyrir þessu máli af umr. þeim, sem fram hafa farið, að ég treysti mér til þess að greiða atkv. um það, nema það sé áður athugað í n. Mér finnst sjálfsagt, að málinu sé vísað til n., hvort sem það verður nú landbn. eða einhver önnur n. En þó að því sé vísað til n., þá er ekki hægt að lofa því fyrirfram, að n. mæli með því.

Hv. 1. flm. var hræddur um, að málið myndi verða að fúleggi, ef því væri vísað til landbn. En hann gat þess ekki, að það er sama, hvað gott hreiðrið er, ef það, sem í það er lagt, hefir ekki í sér fólginn lífsneista. Því þá hlýtur það að verða að fúleggi, og eins getur það orðið með þetta mál.