03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í C-deild Alþingistíðinda. (4366)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Mér þykir skorta mjög, að ekki skyldi vera birt með þessu frv. álít það, sem hv. 1. flm. gat um, frá þeim verkfræðingi, sem að þessu hefir starfað. Ef ég má hafa þessi skjöl og öll gögn í málinu með höndum meðan málið er í landbn., þá er mér að vísu fullnægt, en ég hygg, að hér sé ekki nema um eitt eintak að ræða og erfitt að koma því svo fyrir, að allir geti haft full not af því. Það er nú komið alllangt á þingtímann, og eigi að afgr. þetta mál á þessu þingi, þá er nauðsyn á, að öll gögn í því liggi fyrir þm. til athugunar. Það hefði því verið ástæða til að láta ekki undir höfuð leggjast að birta þessi gögn. Mér þykir því mjög leitt, að þetta skuli ekki hafa verið lagt hér fram með frv. Annars er þetta merkilegt mál og þarf að fá þá afgreiðslu á þessu þingi, sem því sæmir. Ég hygg nú, að einmitt fyrir það, hversu þetta mál er merkilegt, þá sé nauðsyn á að sinna því meira en hingað til hefir verið gert. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum var mikið talað um það, að samvinna yrði hafin milli Íslands og Danmerkur um framleiðslu tilbúins áburðar, og höfðu menn það álit, að það myndi verða heppilegasta leiðin til að auka viðskipti Íslendinga og Dana. Danir áttu að skuldbinda sig til að kaupa þessar vörur af Íslendingum. — Nú vildi ég beina til þeirrar n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki sé ástæða til, að leitað yrði samninga um þetta efni við Dani, því að það dylst engum, að það væri mikils virði, ef það gæti fyrirfram verið tryggt, hvað mikið væri hægt að framleiða af þessari vöru hér á landi. En það er vitanlegt, eins og tekið er fram í þeirri stuttu grg., sem fylgir frv., að verð á áburði verður þeim mun minna, sem hægt er að framleiða meira. Mér hefir skilizt, að það myndu vera nægileg hráefni til að reka þetta í stórum stíl, svo að það er þess vert að athuga þann möguleika, því að við verðum að sjálfsögðu að miða byggingu verksmiðjunnar og stærð við það magn, sem henni er ætlað að framleiða. Það er stórt atriði, hvort aðeins á að miða við þörf landsmanna sjálfra eða hvort á að reisa verksmiðjuna með það fyrir augum að selja til annara landa. En eftir því, sem ég veit bezt, þá munu mjög miklir erfiðleikar á slíku fyrir okkur, m. a. vegna þess, að áburðarframleiðendur í Evrópu hafa mjög sterk samtök sín á milli. — Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Ég er ekki svo vel heima í þessu máli, að ég geti rætt um það, þar sem engin gögn liggja fyrir í því. Ég vil aðeins að endingu segja það, að ég vænti þess, að þetta álit verkfræðingsins komi fram, úr því það kom ekki fram með frv. sjálfu, eins og rétt hefði verið, þá með nál.n., sem fær þetta mál til athugunar, verður að krefjast, að upplýsingar um það komi fyrir augu alþjóðar.